Fangatilraunin í Stanford

Vísindarannsóknir geta verið varhugaverðar, ef ekki er vel vandað til verka. Því miður hafa ýmsar tilraunir verið framkvæmdar sem hafa haft í för með sér tjón fyrir þátttakendur eða aðra. Það þýðir þó ekki að ekki sé hægt að læra af slíkum tilraunum, til dæmis af fangatilrauninni í Stanford.

Einkennisbúningur fangavarðanna í fangatilrauninni í Stanford

Vísindarannsóknir geta verið varhugaverðar, ef ekki er vel vandað til verka. Því miður hafa ýmsar tilraunir verið framkvæmdar sem hafa haft í för með sér tjón fyrir þátttakendur eða aðra. Það þýðir þó ekki að ekki sé hægt að læra af slíkum tilraunum, til dæmis af fangatilrauninni í Stanford.

Á dögunum birtist hér á Deiglunni pistill sem fjallaði um hlýðnitilraun Milgrams. Í þeirri tilraun sýndi Milgram fram á að á örskammri stundu var hægt að fá þáttakendur til að gefa öðru fólki sterkt raflost (að því er þáttakendurnir héldu), fyrir það eitt að muna ekki svarið við spurningum sem þau voru spurð. Fyrir tilraunina töldu margir kollegar Milgrams útilokað að þáttakendur myndu láta undan, og markmið Milgrams var einmitt að prófa þá tilgátu að fólk væri mun hlýðnara en talið var.

Markmið fangatilraunarinnar fangatilrauninnar í Stanford var þveröfugt. Philip Zimbardo, sem var prófessor í sálfræði við Stanford háskóla, taldi að slæmt ástand í fangelsum í Bandaríkjunum stafaði af því að menn sem kysu að verða fangaverðir væru einmitt þeir sem ekki ættu að velja sér þann starfa. Hann vildi því prófa þessa tilraun með því að setja upp hlutverkaleik þar sem fangar og fangaverðir voru valdir af handahófi og látnir fara með hlutverk sín í tvær vikur.

Nokkrir fangavanna eru látnir gera armbeygjur á meðan einn þeirra er látinn syngja fyrir fangaverðina

Helmingur þáttakenda fékk hlutverk fangavarða, sem fengu stuttar leiðbeiningar um hvernig þeir skyldu meðhöndla fangana, en enga formlega þjálfun. Hinn helmingurinn fékk hlutverk fanga, og var „handtekinn“ af lögregluþjónum sem tóku þátt í þeim hluta tilraunarinnar. Fötin voru tekin af þeim og þeim afhentir einfaldir búningar og sandalar í staðinn. Fangaverðirnir klæddust aftur á móti einkennisbúningum og sólgleraugum.

Skemmst er frá því að segja að eftir fyrsta sólarhringinn, sem var tíðindalítill, urðu fangarnir ósáttir og gerðu tilraun til uppreisnar. Fangaverðirnir tóku sig saman án leiðbeininga frá aðstandendum tilraunarinnar og bældu niður uppreisnina, skiptu föngunum upp í „góða“ fanga og „slæma“ fanga og létu slæmu fangana sofa á steyptu gólfi án rúmfata.

Ástandið í þessu litla fangelsi versnaði eftir það dag frá degi. Reglulegt nafnakall varð fangavörðunum tilefni til að auðmýkja fangana með ýmsum leiðum og tók oft langan tíma. Fangarnir voru neyddir til að gera ýmsar líkamsæfingar, teknir úr fötunum og máttu jafnvel þola kynferðislegar niðurlægingar. Kvalarfýsn fangavarðanna ágerðist með tímanum og kom hún sérstaklega fram á nóttunni, en þá töldu fangaverðirnir að ekki væri verið að fylgjast með þeim.

Ekki var tekið neinum vettlingatökum á fanga 416

Tveir fangar fóru fljótlega svo illa út úr tilrauninni að þeir voru látnir hætta þátttöku og nýir komu í staðinn. Einum nýju fanganna, fanga 416, bauð svo við aðstæðunum sem hann horfði upp á að hann fór í hungurverkfall. Fangaverðirnir létu ekki slá sig út af laginu heldur settu hann í einangrun í litlum skáp í þrjá klukkutíma. Eftir það buðu fangaverðirnir hinum föngunum að velja: Annaðhvort myndu þeir sofa án rúmfata næstu nótt eða fangi 416 yrði settur næturlangt í einangrun. Fangarnir völdu að setja samfanga sinn í einangrun í stað þess að verða kalt.

Ofangreint átti sér allt stað á fyrstu sex dögum tilraunarinnar. Á sjötta degi kom unnusta Zimbardo, Christina Maslach (sem var einnig sálfræðingur) í „fangelsið“ til að taka viðtöl við fangana. Hana hryllti við aðstæðunum í fangelsinu, en aðrir stjórnendur tilraunarinnar gerðu grín að henni fyrir pempíuháttinn. Á leiðinni heim byrjaði Zimbardo að spjalla við hana um vísindarannsóknina sem hann var að framkvæma. Hún var ekki á þeim buxunum að ræða akademíska kosti og galla tilraunarinnar heldur hellti sér yfir Zimbardo fyrir að standa fyrir þessu ómanneskjulega framferði gagnvart þáttakendunum.

Eftir útreiðina áttaði Zimbardo sig á því að eitthvað væri að tilrauninni og blés hana samstundis af. Síðar hefur hann bent á að um 30 sálfræðingar og aðrir háskólamenn hafi fengið að fylgjast með tilrauninni á undan Maslach, og ekki einn einasti þeirra hafi séð nokkuð athugavert við tilraunina. Maslach og Zimbardo eru gift í dag.

Lærdómur af tilrauninni

Hvað má læra af þessari tilraun? Einfaldast væri að draga þá ályktun að fangaverðirnir hafi einfaldlega verið skepnur. Það væri röng ályktun og í ósamræmi við bæði þessa og aðrar tilraunir sem benda til þess að afar auðvelt sé að fá venjulegt fólk til að gera óvenjulega hluti. Það sem skiptir máli eru félagslegu aðstæðurnar sem fólk er í á hverjum tíma. Ef þessar aðstæður breytast nógu hastarlega eru fá takmörk fyrir því hvað hægt er að fá fólk til að gera.

Eins mætti draga þá ályktun að Zimbardo sé skepna. Það hafa ýmsir gert og hægt að færa rök fyrir því. Hann starfaði í eðlilegu umhverfi og án þvingana þegar hann hannaði þessa tilraun. En það má samt ekki gleyma því að Christina Maslach, sem hryllti við tilrauninni um leið og hún sá hana, virðist ekki hafa talið hann sérstaka skepnu hvorki fyrir né eftir tilraunina. Eins er rétt að hafa í huga að þegar hann hannaði tilraunina gerði hann ekki ráð fyrir að atburðarrásin yrði í líkingu við það sem síðan gerðist. Þegar atburðarrásin var komin af stað þótti honum það svo áhugavert að hann hélt tilrauninni áfram í stað þess að blása hana strax af.

Eins er hægt að spyrja sig hvaða ljósi tilraunin varpar á nýlega atburði. Er Abu Graib hneykslið hugsanlega bara skólabókardæmi um það hvað gerist í fangelsum? Fangatilraunin í Stanford sýnir að venjulegt fólk er fljótt til að grípa til pyntinga, er þá hægt að gagnrýna hermennina í Abu Graib fyrir framferði sitt, er þetta kannski bara eitthvað sem við ættum að sætta okkur við?

Þvert á móti. Í Abu Graib hefur talsvert verið rætt um það hvort æðstu yfirmenn hersins hafi vitað af og/eða fyrirskipað pyntingar á föngum. Því hafa þeir þráfaldlega neitað og haldið fram að um hafi verið að ræða brotlegt framferði einstakra hermanna sem hafi verið refsað. En hvort sem yfirmenn hersins vissu að verið væri að pynta fanga eða ekki þá vissu þeir að til þess hlyti að koma ef ekki væri sérstaklega gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir það. Fangatilraunin í Stanford fór fram 1971 og birtust strax margar akademískar greinar um það, auk þess sem ýmsir fjölmiðlar hafa skrifað um málið.

Einhver kynni að láta sér detta í hug að bandaríski herinn sé einfaldlega ekki vel meðvitaður um hvað gerist í akademísku umhverfi og hafi ekki vitað um tilraunina. En því fer fjarri, því fangatilraunin í Stanford var á sínum tíma einmitt fjármögnuð af sjóher Bandaríkjanna.


Nánari upplýsingar má finna á Wikipedia.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)