Reglulega heyrum við vitnað í umfjöllun danskra blaða þess efnis að íslenskt efnahagslífi standi á brauðfótum. Íslenskir fjárfestar blása á þessi rök og segja mætti að við fyrir hverja neikvæða frétt sem birtist kaupi þeir eitt danskt fyrirtæki til viðbótar – svona til þess að stríða frændum sínum. En stóra spurningin er hvor eða hver hefur rétt fyrir sér í þessu máli.
Kaup íslenskra fjárfesta á dönskum fyrirtækjum virðist fara eitthvað fyrir brjóstið á fyrrum nýlenduherrum okkar ef marka má umfjöllun íslenskra fjölmiðla um málið. Svo virðist sem danskir fjölmiðlar keppist við að gagnrýna fjármögnunarleiðir íslenskra fjárfesta og telji íslenskt efnahagslíf vera tifandi tímasprengju.
En það eru fleiri en Danir sem gagnrýna íslenskt efnahagslíf. Herra Fitch líst ekkert á blikuna og líkir stöðunni hér við ástandið rétt fyrir Asíukreppuna. En bæði fjármálamarkaðurinn og stjórnvöld sverja af sér allt bölsýnistal. Stjórnvöld telja ástandið ágætt, það sé að vísu smá þensla en það sé bönkunum að kenna og lánastefnu þeirra. Álver skapi bara hagvöxt og þau valdi ekki þenslu, hvorki nú né síðar. Forsvarsmenn bankanna segja einnig að horfur séu góðar en þensluna megi hins vegar rekja til stóriðjuframkvæmda, íbúðalánasjóðs og húsnæðislána Framsóknarflokksins. Saman segja svo allir að herra Fitch sé hvorki læs né skrifandi.
Pistlahöfundur er hins vegar nokkuð uggandi um ástandið og telur ástæðu til svartsýni aukast með hverjum degi sem líður. Í stuttu máli telur pistlahöfundur: markaðinn vera ofmetinn og spár um væntanlegar arðgreiðslur fyrirtækja ofar allri skynsemi, húsnæðisverð allt of hátt miðað við framboð af nýju húsnæði, undirliggjandi verðbólguþrýsting vanmetinn vegna launaskriðs og yfirvofandi gengislækkunnar í kjölfar gífurlegs viðskiptahalla, heimilin of skuldsett og eiginfjárstaða þeirra fari lækkandi og erlendar fjárfestingar íslenskra fjárfesta of “gíraðar” sem leyfi ekkert svigrúm fyrir bakslög. Ef einungis eitt af þessum atriðum reynist rétt getur það leitt til óæskilegrar keðjuverkunar sem getur endað með ósköpum.
Nú er rétti tíminn til þess að lesa yfir greinar sem birtust í kjölfar þess að netbólan sprakk og fólk furðaði sig á því að enginn skyldi sjá fyrir afleiðingarnar.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009