Ísraelska þingið (The Knesset)
|
Kosningarnar í Ísrael þann 28.mars næstkomandi verða þýðingamiklar fyrir bæði Ísrael og Palestínu. Nýstofnaður Kadima flokkur Ariels Sharons nýtur mikils fylgis í skoðanakönnunum en ljóst er að Sharon á ekki afturkvæmt í stjórnmálin eftir heilablóðfall sem hann fékk í byrjun þessa árs. Nýjasta útspilið er loforð Ehud Olmert, arftaka Sharons að afturkalla herliðið frá Vesturbakkanum vinni Kadima flokkurinn kosningarnar.
Hvernig málin munu þróast án Sharons er erfitt að spá fyrir um en ljóst er að Ehud Olmert hefur tekið enn dýpra í árinni með loforði sínu um að afturkalla herliðið frá Vesturbakkanum en Sharon ætlaði sér að halda helstu gyðingabyggðunum á því svæði.
Forsaga málsins:
Eftir að Sharon fyrirskipaði að herliðið færi af Gasasvæðinu í september mætti hann mikilli andstöðu innan flokksins og Benjamin Netanyahu sagði sig úr ríkisstjórninni. Sharon vildi færa Likud bandalagið frá hægri yfir á miðjuna, sérstaklega vegna friðarviðræðanna við Palestínu. Með þessari aðgerð var Sharon viss um að hann næði meirihluta með miðjufylginu eða a.m.k þeirri stöðu að mynda bandalag við flokka sem væru á svipaðri bylgjulengd.
Sharon hefur einkum verið þekktur fyrir einarða afstöðu sína til landtöku Ísraela í Palestínu og sú harðlínustefna sem hann hefur fylgt hefur aflað honum vinsælda í Ísrael. Með afturköllun herliðsins varð kúvending í stefnu hans og gekk hann þvert á stefnu Likud bandalagsins. Þær aðgerðir sem hann réðst í voru þvingaðar í gegn og Sharon mætti mikilli andstöðu meðal flokksbræðra sinna.
Aðgerðir Sharons féllu engu að síður almenningi í geð og staðfestu skoðanakannanir það. Í nóvember 2005 sagði hann sig svo úr Likud bandalaginu og stofnaði Kadima flokkinn. Benjamin Netanyahu kom þá aftur inn í Likud og tók við leiðtogahlutverkinu þar. Það að Sharon hafi yfirgefið bandalagið má meðal annars rekja til þess að hann hafi ekki viljað kljást sífellt við andstöðu innan síns eigin bandalags sem virtist vera á öndverðum meiði við Sharon varðandi ýmis mál. Allt var þetta greinilega gert að vandlega íhuguðu ráði því tilgátur Sharons að almenningsálitið hneigðist frekar í átt til miðjunnar en ekki hægri virtist ekki á misskilningi byggt ef marka má niðurstöðu skoðanakannana. Kannanir sem birtar voru daginn sem Sharon veiktist sýndu að Kadima flokkurinn fengi 42 sæti á ísraelska þinginu, 13 sæti fengi Likud flokkurinn undir stjórn fyrrum forsætisráðherra Ísraels, Benyamin Netanyahu og Verkamannaflokkurinn undir stjórn Amir Peretz fengi 18 sæti.
Ehud Olmert (vinstri) og Ariel Sharon (hægri)
|
Eftir að Sharon veiktist tók Ehud Olmert við embætti forsætisráðherra og er hann væntanlegur arftaki Sharons fari Kadima með sigur af hólmi. Hann hefur boðað svipaðar aðgerðir og Sharon lagðist í, en Olmert segist ætla að afturkalla herliðið af Vesturbakkanum vinni hann kosningarnar. Hann hefur gefið það út að til þess að ná þessu markmiði sínu muni hann leita til áhrifaþjóða á borð við Bandaríkin í þeim málum.
Óafturkallanlegt fordæmi:
Margir óttast að Kadima flokkur Sharons muni ekki lifa ef Sharons verði ekki notið við, sérstaklega þar sem flokkurinn var að mörgu leyti ómótaður þegar Sharon veiktist. Hann hafði ekki sett reglur um meðlimi né verið skráður.
Þrátt fyrir að saga miðjuflokka í Ísrael sé ekki mjög farsæl þá kann að vera að öðruvísi fari fyrir Kadima flokknum. Skoðanakannanir sýna að almenningur í Ísrael er á því að þjóðin þurfi á þessum miðjuflokki að halda til þess að ná nýrri pólitískri endurskipulagningu. Kadima stendur bæði fyrir það að tvinna saman sífellda leit Ísraels eftir öryggi og þeirri von að ná fram friði, eitthvað sem þjóðin taldi sig sjá undir stjórn Sharons.
Í lok þessa mánaðar mun reyna á þessa framtíðarsýn. Það er þó alltaf möguleiki á að niðurstaðan muni ákvarðast af því hvað Palestínumenn taka til bragðs. Bylgja af ofbeldi og sjálfsmorðsárásum árið 1996 varð til þess að fleiri kusu Likud flokkinn undir stjórn Benjamins Netanyahu, sem vildi ógilda friðarsamninginn. Flestir eru þó sammála um að Sharon hafi sett óafturkallanlegt fordæmi þegar hann ákvað að afturkalla herliðið frá Gasasvæðinu.
Ný pólitísk sýn:
Það gæti verið of snemmt að meta áhrif skriðþungans sem skapaðist af afturkalli Sharons á herliði sínu af Gasasvæðinu. Þrátt fyrir gagnrýnisraddir þess efnis að aðgerðin hafi verið ráð til þess að styrkja stöðuna við Vesturbakkann þá eru menn sammála um að þetta “ráðabrugg” hans hafi skapað nýja pólitíska sýn í Ísrael.
Enginn stjórnmálamaður úr hinum hefðbundnu flokkum, þeirra á meðal Likud, sem mótmæltu afturkölluninni, myndu áforma að endurhervæða Gasasvæðið. Að sama skapi myndi enginn stjórnmálamaður í framboði íhuga að leggja til að auka við heraflann á Vesturbakkanum. Það sýnir sig best á áformum Olmert með Vesturbakkann að farið sé að draga verulega til tíðinda fyrir botni Miðjarðarhafs og það að Ísrael hafi viljað í samvinnu við Palestínumenn koma upp landamærum voru tíðindi þó svo að sigur Hamas hafi flækt stöðuna töluvert.
Þessar fyrirhuguðu aðgerðir og í raun kosningaloforð Olmerts sýna að með sigri Hamas urðu vonir um frekari friðarviðræður úti og því sé jafnvel að koma til einhliða brottflutnings frá Vesturbakkanum en Olmert hefur jafnframt heitið því að eiga engar samningaviðræður við Hamas. Stefna Sharons áður en kosningaúrslit í Palestínu urðu ljós var að reyna að komast að samkomulagi við þjóðina en þetta kom fram á fyrsta fundi Kadima flokksins á ísraelska þinginu. Jafnframt kom fram í lok nóvember að til þess að ná ásættanlegri niðurstöðu væri ekki annað í stöðunni en að mynda tvö ríki fyrir tvær þjóðir.
Sátt í vændum?
Ef að Ehud Olmert stendur vörð um þá stefnu sem Sharon lagði upp með þá myndi sigur Kadima flokksins jafnvel verða góðar fréttir bæðir fyrir Ísraels-, og Palestínumenn. Báðar verða þjóðirnar að vera raunsæjar en niðurstaða gæti orðið ólíkleg þar sem Hamas samtökin eru nú með meirihluta á palestínska þinginu. Vonir höfðu myndast um að Sharon og Mahmoud Abbas og þeirra samningaviðræður myndu auðvelda Palestínu að ná ásættanlegum ávinningi og skapa sátt um þeirra hlutskipti.
Hamas hefur gefið það út að þeir muni ekki virða friðarsamninginn fyrr en her Ísraels verði fluttur á brott af öllum þeim svæðum sem þeir hertóku í sex daga stríðinu árið 1967. Það að Sharon hafi ákveðið að afturkalla herliðið af Gasasvæðinu virðist vera stökk í átt að því að friður náist milli Ísraels og Palestínu. Áform Olmerts um afturköllun herliðsins af Vesturbakkanum gefa þeirri von byr undir báða vængi því það kann jú að vera að eina leiðin til þess að standa vörð um Ísrael sem ríki gyðinga sé að láta af hendi eitthvað af því landi sem Ísraelar hernámu 1967.
Það má því búast við frekari aðgerðum í þágu Palestínumanna sigri Kadima flokkurinn í komandi kosningum. Almenningur í Ísrael er orðinn langþreyttur á endalausum deilum Ísraels og Palestínu. Forvitnilegt verður því að fylgjast með gangi mála komist Kadima til valda því þeir virðast, ólíkt hinum flokkunum hafa viljann til þess að knýja fram breytingar með raunsæjum hætti. Það eina er líklegast til árangurs.
- Eldgos, gjörðu svo vel! - 30. apríl 2021
- Ameríkuferð Reykjanesskagans - 2. mars 2021
- Þegar landið rís - 25. janúar 2021