Flestir dagar líða hjá án þess að heimssagan breytist að ráði. Dagurinn í gær var svipaður og dagurinn í dag og að líkindum verður dagurinn á morgun ekki ólíkur deginum í dag. Sumar dagsetningar brennast hins vegar inn í huga manna um heima allan vegna stórkostlegra eða hrikalegra atburða sem eiga sér stað. Það gildir til að mynda um 11. nóvember sem alls staðar er minnst sem dagsins þegar friður komst á í Evrópu eftir fyrri heimsstyrjöldina. Dagarnir 6. og 9. ágúst munu ætíð tengjast kjarnorkusprengjum Bandaríkjamanna í Hírósíma og Nagasaki. Fáir tengja dagsetninguna 11. september við annað en árásina á Tvíburaturnana í New York árið 2001.
Í sögu þjóða hafa tilteknir dagar meiri merkingu en aðrir. Á Íslandi fögnum við fæðingu Jóns Sigurðssonar á 17. júní og fullveldi þjóðarinnar þann 1. desember. Flestir Íslendingar vita af hverju þessir dagar eru sérstakir í sögu þjóðarinnar en annars staðar í heiminum fái þessir dagar að vera í friði og enginn gerir sérstaka kröfu um að þeirra sé sérstaklega minnst.
Raunar er það sem betur fer svo að flestir dagar eru lausir við að vera brennimerktir stórum heimssögulegum atburðum. Fyrir vikið fáum við sjálf að ákveða fyrir hvað hver dagur stendur fyrir. Við fáum því flest að eiga afmælisdagana okkar sjálf og stundum erum við svo heppin að fjölskylda okkar og jafnvel nokkrir vinir muna eftir deginum.
Dagurinn í dag er ekki einn af þessum dögum sem eru frægir fyrir neitt sérstakt, nema hvað Stalín dó á þessum degi. Ætli heimurinn hafi ekki batnað við það. Og á hverju ári fæðist fólk á þessum degi og vonandi eru þeir einstaklingar flestir til þess fallnir að bæta heiminn og gera hann skemmtilegri og líflegri fyrir þá sem eru svo heppnir að eiga með þeim samleið. Í dag eiga til dæmis afmæli þau Eva Mendes leikkona og Scott Skiles og ekki er vitað til annars en að þau hafi verið ágæt viðbót við heimsbyggðina.
Að minnsta kosti tveir afbragðsgóðir menn sem pistlahöfundur þekkir vel syrgja í dag þrítugsafmælið sitt. Í huga pistlahöfundur eiga þessir tveir ágætu menn 5. mars skuldlausan og þótt enn sé ekki almennt viðurkennt að fæðing þeirra hafi verið heimssögulegur viðburður þá er víst að líf margra væri fátæklegra ef uppskeran á fæðingardeildum landsins hefði ekki verið svona ríkulega þann 5. mars 1976.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021