Í nýlegum Kastljósþætti ræddu þeir Alfreð Þorsteinsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson um lóðaúthlutun í Úlfarsfelli. Í fyrstu virtist niðurstaða þeirrar úthlutunar vera sú að örfáar einstaklingar hefðu fengið allar lóðirnar en borgarráð greip inn í og breytti reglum eftirá til að tryggja að hver einstaklingur gæti einungis keypt eina lóð.
Í Kastljósþættinum lýsti Alfreð því yfir að honum þætti hentugast að bjóða lóðir út í útboðum meðal annars til að koma í veg fyrir eftirmarkað og tók hann lóðir í Kópavogi sem dæmi sem gengu kaupum og sölum á 20 til 40 milljónir.
Þátturinn snérist að miklu leyti um gagnrýni á þessa lóðaúthlutun og Alfreð notaði tækifærið til að spyrja Vilhjálm hvaða leið Sjálfstæðismenn í borginni vildu nota við að útvega fólki lóðir en bætti við ,,ég vil ekki fá nein svör um það að það eigi að vera nóg af lóðum ávallt til, heldur hvaða aðferð viltu nota við þetta Vilhjálmur”
Vilhjálmur svaraði þeirri spurningu ágætlega og þó að ég hafi ekki verið fullkomlega sammála svarinu, angraði það mig mest að Alfreð hafi ekki vilja taka rökum um að ávallt eigi að vera nóg af lóðum.
Vandamálið sem núverandi meirihluti segist vera að kljást við í borgarstjórn er að verktakar keyri verð lóða upp og að venjulegar fjölskyldur hafi ekki efni á að taka þátt í þeim leik. En hverjar ætli ástæður þess séu?
Núverandi borgastjóri hefur haldið því fram að vandinn skýrist að mestu leyti með auknu aðgengi fólks að lánsfé. Vel getur verið að hluti skýringarinnar sé að finna þar en ég held samt að flestir hljóti að sjá að lóðaskortur í Reykjavík er aðalsökudólgurinn í þessu máli. Með því að halda öðru fram er verið að slá ryki í augu fólks.
Fyrstur manna viðurkenni ég kosti þess að byggð þéttist í Reykjavík og er ég reyndar þeirrar skoðunar að borgarlífið myndi batna mikið ef því takmarki væri náð. Forgangsatriði númer eitt til að ná því er að fjarlægja flugvöllinn, en það er annað mál.
En það er of langt gengið að halda fólki í lóðagíslingu til að ná fram þéttingu byggðar. Það er engin ástæða fyrir því að lóðaskortur sé í landi sem þar sem nærri 3 einstaklingar eru um hvern ferkílómeter.
Á meðan Reykjavíkurborg sinnir ekki eftirspurn fólks eftir lóðum eiga mörg þúsund manns eftir að slást um þær örfáu sem borgin býður. Í kjölfarið ganga þær kaupum og sölum fyrir 20 til 40 milljónir. Svo einfalt er það.
Á móti má segja að erfitt getur verið fyrir borgina að byggja upp þjónustu fyrir sístækkandi úthverfi og nauðsynlegt sé að byggja upp þétta borgarkjarna til að slík þjónusta sé hagkvæm. Þetta eru góð og gild rök en staðreyndin er sú að þétting byggðakjarnanna gengur allt of hægt og fólk sem hefur á annað borð áhuga á að byggja sín eigin heimili hefur lítinn áhuga á því að bíða eftir framgangi málsins.
Þó að Reykjavíkurborg stefni að þéttingu byggðar verða borgarfulltrúar að taka tillit til þess að óskir um húsnæði eru mjög mismunandi. Þónokkur hópur fólks vill búa í einbýli og miðað við íbúðaverð í miðbænum eru einnig margir sem vilja búa í fjölbýli miðsvæðis. Öllum þessum þörfum þarf að mæta.
Segja má að núverandi meirihluti hafi gert rétt með því að bjóða lóðirnar hæstbjóðenda og láta markaðinn ráði verðinu. En borgarfulltrúar meirihlutans verða samt að skilja að algjör einokun ríkir á þessum markaði og verðið stýrist að miklu leyti af framboði.
Að reyna að stýra þessu framboði eftir pólitískum markmiðum er ekki einungis rangt heldur einnig forsjárhyggja á versta stigi.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021