Að undanförnu hafa borist fréttir, nánast daglega, af nýju fuglsflensusmiti í Evrópulandi, þar sem fólk í sóttvarnabúningum meðhöndlar fuglahræ, stórir radíusar eru ákvarðaðir sem sóttvarnarkvír, miklum fjölda fugla er slátrað og einhverjir fá hugsanlega á tilfinninguna að um mjög mannskæða sótt sé að ræða. Hins vegar hafa ekki nema um 100 manns í heiminum látist til þessa og smitin má rekja til beinnar snertingar við fuglaúrgang. Ástæðan fyrir miklum varúðarráðstöfunum er sú að menn óttast mjög að veiran stökkbreytist og fari að smitast manna á milli. En hvers vegna er þessi flensa talin svo skæð? Er það af faraldfræðilegum orsökum, það er að nú er það langt frá síðasta verulega mannskæða faraldri sem varð með spænsku veikinni að miklar líkur séu á nýjum faraldri eða er það vegna þess að veiran hefur einhvern þann eiginleika sem gerir það að verkum að ástæða sé til að óttast? Stærsta spurningin er sú hvort alþjóðlegar heilbrigðisstofnanir hafi skýrt nægjanlega vel út fyrir alþjóðasamfélaginu hvers konar ógn steðjar að, eða réttara sagt hugsanleg ógn og af hverju.
Eins og áður var minnst á berast nánast daglega fréttir af nýju smiti í Evrópu. Maður hlýtur að spyrja sig þeirrar spurningar hvort fuglaflensan sé að breiðast svo hratt út nú um stundir eða hvort Evrópubúar hafi sofið á verðinum og þegar fyrstu fréttir um smit í álfunni tóku að berast hafi viðamiklar rannsóknir á smitum í fuglum hafist. Önnur spurning sem hlýtur líka að kvikna hjá mörgum er sú, hvort þetta sé ekki vonlaus barátta? Það eru farfuglar sem bera smitið og væntanlega verður ekki hægt að útrýma heilu farfuglategundunum. Deyja svona veirur út með tímanaum, þannig að sé alifuglum haldið algjörlega innandyra tímabundið muni smitið ganga yfir?
Á endanum munu farfuglar bera H5N1 veiruna með sér til Íslands og hugsanlega verður það í vor. Á síðu Landlæknisembættisins eru leiðbeiningar til ferðamanna sem eru á leiðinni til staða þar sem fuglaflensa hefur verið greind. Þar er fólki meðal annars ráðlagt frá því að komast í snertingu við lifandi fugla og villta fugla og forðast að snerta yfirborð sem menguð eru af fuglaskít. Á maður að bíða eftir því að fyrsta smitið greinist hér á landi sem einhverjir telja að verði líklega í vor eða á maður að hætta að fara með barnið sitt niður á tjörn og gefa öndunum brauð?
Undirrituð hefur heyrt af fólki sem býst alveg eins við því að flytja upp í bústað á einhverjum tímapunkti og lifa á hrísgrjónum í nokkra mánuði. Erlendis hafa einvherjir keypt sér aukabyrgðir af öndunargrímum. Fólk víða um Evrópu er hætt að kaupa fuglakjöt sem sést meðal annars í því að fuglakjötssala hefur dregist saman um 30% í Frakklandi. Hér á landi hefur verið ákveðið að verja töluverðum fjárhæðum til þessa málaflokks, í einnota búninga og fleira. Því er ekki skrýtið að menn hafi varann á sér og óttist afleiðingarnara. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, mælti orð að sönnu í kvöldfréttum í gærkvöldi sem voru þau orð að fræða ætti fólk en ekki hræða. Hefur fólk verið frætt nóg?
Í þessum pistli eru talsvert margar spurningar. Hugsanlega hefur einhverjum þegar verið svarað en á meðan að daglegar fréttir af mönnum í sóttvarnarbúningum að sláta milljónum fugla berast manni og heyrst hafa tölur um að mannfall verði í versta falli um 150 milljónir er ekki að ástæðulausu að margar spurningar kvikni hjá fólki.
- Elsku vinir, koma svo - 31. maí 2021
- Yndisleg borg í blíðviðri - 24. júlí 2006
- Mikilvæg málefni - 13. maí 2006