Rússneska tennis(smá)stirnið Anna Kournikova féll úr leik á Opna bandaríska meistaramótinu í gærkvöldi er hún tapaði fyrir lítt þekktri indónesískri tenniskonu í 1. umferð. Þetta er fjórða stórmótið í röð þar sem hnátan undurfríða fellur úr leik í fyrstu umferð. Raunar hefur Kournikova aldrei unnið nokkurn skapaðan hlut á sínum ferli. En þrátt fyrir það er hún ein skærasta tennisstjarna heims í dag og hefur reyndar verið um nokkurt skeið. Mótshaldarar vilja ólmir fá hana á hvert einasta mót, enda vekur hún hvarvetna mikla athygli fjölmiðla. Tekjur hennar af auglýsingum og þess háttar eru mun hærri en það sem flestar stöllur hennar á tennisvellinum mega sætta sig við, jafnvel þær sem eru mun sigursælli.
Ferill Önnu Kournikovu sýnir svo ekki verður um villst að íþróttamenn eru að komast á sömu skör og popp- og kvikmyndastjörnur. Ímyndin er það sem máli skiptir, en ekki endilega raunveruleg geta. Þannig má fullyrða að David Beckham sé frægasti og dáðasti knattspyrnumaður heims um þessar mundir, en því fer víðs fjarri að hann sé sá besti. Hann er hins vegar mjög „kúl gæi“ og ekki þarf að koma á óvart að hann sækir einkum vinsældir sínar til þess hóps sem áður tignaði eiginkonu hans, Victoriu „Posh“, úr Spice Girls. Anna Kournikova á sér þó vafalítið nokkuð frábrugðinn aðdáendahóp, enda ímynd hennar alseld æskufegurðinni og tærum kynþokka. Hún er þó einnig hluti af „þotuliðinu“ enda fyrirsæta í hjáverkum og núorðið í slagtogi með smjörbarkanum Enrique Iglesias.
En skyldi þessi glansímynd vera af hinu slæma. Svo þarf alls ekki að vera. Stjörnur á borð við David Beckham og Önnu Kournikovu eiga stóran þátt í að brjóta íþrótt sinni nýjar lendur og víst er að fjölmargir verða með tíð og tíma miklir áhugamenn um íþróttina, þótt þeir hafi í upphafi kynnst henni á röngum forsendum, ef svo má segja. Vinsældaaukning tennisíþróttarinnar er því ánægjuleg hliðarverkun á þeirri glansímyndarsölumennsku sem ferill rússnesku þokkagyðjunnar Önnu Kournikovu byggir á.
- Gerpla og Selfoss Íslandsmeistarar í hópfimleikum - 13. mars 2007
- Útlitið svart hjá West Ham - 3. mars 2007
- Fátt stöðvar Lakers - 15. nóvember 2003