Ég átti stóran frændgarð sem barn
|
Fyrir nokkrum vikum kom fram í kvöldfréttum að fólk er svo gott sem hætt að gifta sig fyrir þrítugt, hvað þá að eignast börn – nema fyrir slysni. Gott ef ekki var um að kenna því að unga fólkið er svo óþroskað og ragt við að taka ábyrgð á sjálfum sér, hvað þá öðrum.
Ég er einmitt í þessum hópi – ennþá. Löngu tímabær öldrun er þó innan seilingar og allt eins líklegt að ég verði vísitölunni að bráð eftir að þrítugsaldrinum er náð. Nema náttúrulega að vísitölufjölskyldan verði 1,0 að stærð innan skamms.
Valía Veinólínó átti ekki upp á pallborðið hjá mínum manni…
|
Í skelfingu minni yfir að þessum meintu tímamótum gæti fylgt aukin ábyrgð eða óvelkominn þroski fór ég að hugsa til þess hve gott það var að vera sex ára. Í stað þessað svara spurningum mömmu um hvort ég væri ekki að slá mér eitthvað upp vorum við amma í skipaleikjum í vélarrúminu heima (undir stiganum) eða að renna okkur niður stigann á aukaplötunni úr borðstofuborðinu. Nú eða að lesa saman um hetjuna mína og fyrirmynd í einu og öllu Kolbein kaftein.
Þá laust niður svarinu! Strax þegar ég var fimm eða sex ára höfðu fóstrurnar áhyggjufullar samband heim og spurðu hvers vegna ég tönnlaðist á að kókómaltið í nestisbrúsanum mínum væri í raun viskí (gott dæmi um ofskilgreiningar uppeldisfræðinga). Ég hef líklega óafvitandi haldið áfram á sömu braut síðan þá. Og í anda ofskilgreininga ætla ég að leyfa mér að heimfæra þetta á mína kynslóð eins og hún leggur sig.
Á leið á völlinn að ná flugi 714 til Sydney eða of seinn að ná í börnin á leikskólann?
|
Ástæðan fyrir ástandinu sem lýst var í kvöldfréttunum er því augljóslega æskufyrirmyndir okkar. Tinnabækurnar: Kolbeinn drykkfeldur og einhleypur og Tinni bara einhleypur. Lukku-Láki frjáls ferða sinna og bar ekki ábyrgð gagnvart neinum nema Léttfeta.
Hin fjögur fræknu voru að sjálfsögðu einhleyp og gjörsamlega óábyrg gjörða sinna, Lastík, Dína, Doksi og Búffi. Svalur og Valur að sjálfsögðu líka eins og Ástríkur og Steinríkur. Frjálslegri fyrirmyndir okkar eru ábyrgðarlausari og mun einhleypari en æskuhetjur foreldra okkar og því fór sem fór.
…Guð hjálpi okkur þegar Pókemón-kynslóðin vex úr grasi!
Drekkum í kvöld iðrumst á morgun, eða hinn…
|
En hver sem orsökin er lítur út fyrir að enn um sinn muni Íslendingar á þrítugsaldri drekka í kveld og reyna í lengstu lög að sleppa við iðrun af nokkru tagi.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021