Tímarnir breytast og mennirnir með og samfara auknum breytingum í atvinnulífinu er það óhjákvæmilegt að starfsumhverfi manna breytist. Það hefur einmitt verið raunin undanfarin ár og áratugi. Slíkar breytingar hafa falið sér bæði breytingar á fyrirtækjum, þar sem sameiningar, yfirtökur og skipulagsbreytingar hafa átt sér stað í ríkari mæli en áður og aðstæðum starfsmanna, þar sem hlutverk, vinnutími, staðsetning og umhverfi hefur tekið breytingum. En hvaða áhrif hafa allar þessar breytingar haft á samband starfsmanna og vinnuveitenda þeirra?
Sálfræðilegi samningurinn er hugtak sem er notað til að lýsa því sambandi sem ríkir á milli starfsmanns og vinnuveitanda hans. Það hefur verið erfiðleikum bundið fyrir fræðimenn að skilgreina hugtakið til hlítar en flestir eru þó sammála um það að sálfræðilegi samningurinn tengist einstaklingsbundnum skoðunum starfsmanns sem mótaðar eru af viðkomandi fyrirtæki og snerta það samband sem ríkir á milli þeirra. Sálfræðilegi samningurinn er óformlegur og óskrifaður og einstaklingsbundinn hverjum starfsmanni fyrir sig. Hann byggir á loforði gagnvart samningsaðilum og þeirri trú samningsaðila að hann sé gagnkvæmur.
Sálfræðilegi samningurinn verður til við það ráðningarferli sem á sér stað þegar starfsmaður er ráðinn til starfa. Þessi samningur er ekki það sama og mögulegar væntingar sem starfsmaður hefur til starfsins og vinnuveitanda heldur mun dýpri skynjun á hverjar skyldur hvors aðila um sig eru. Brot á þessum samningi vísar svo til þess að starfsmaður telur að vinnuveitandi sinn og sú skipulagsheild sem hann starfar hjá hafi ekki uppfyllt loforð sínar og skyldur.
Rannsóknir hafa sýnt að starfsmenn sem telja að vinnuveitandi hafi brotið sálfræðilega samninginn finni yfirleitt fyrir mikilli reiði og telji sig hafa verið svikinn. Slíkt dregur úr trausti starfsmanna gagnvart vinnuveitendum sínum, leiðir til minni starfsánægju og minni ánægju með skipulagsheildina, dregur úr hollustu starfsmanna gagnvart vinnuveitanda og eykur líkur á að þeir hætti.
Þá hefur komið í ljós að sálfræðilegi samningurinn hafi breyst á undanförnum árum, samfara breytingum á starfsumhverfi manna. Starfsöryggi er ekki talið eins sjálfsagt í dag og fyrir tuttugu árum síðan og auknar kröfur eru lagðar á starfsmenn að vera sveigjanlegir. Sumar rannsóknir hafa bent til þess að þessi þróun hafi haft neikvæð áhrif á viðhorf starfsmanna til vinnuveitenda sinna, neikvæð áhrif á starfsandann og hollustu starfsmanna.
Það er ljóst að nútíma stjórnendur verða að gera sér grein fyrir eðli sálfræðilega samningsins og mögulegum afleiðingum ef hann er brotinn. Nú sem endra nær er því mikilvægt að samskiptin á vinnustaðnum séu árangursrík, opin og gagnkvæm til að tryggja að þessi mikilvægi hluti ráðningarsambandsins haldi í við hraðar breytingar nútímans.
- Þú ert það sem þú hugsar - 9. nóvember 2007
- Verða allt sem þú getur - 15. júní 2007
- Hver velur hvað ég borða? - 8. september 2006