Er Eyjólfur Sverrisson rétti maðurinn til þess að koma knattspyrnulandsliðinu aftur á sigurbraut?
Til þess að koma í veg fyrir allan misskilning skal ekki skilja það sem svo að seta Íslands í 96. sæti sé mikil skömm fyrir þjóðina. Þvert á móti þá er landsliðið nokkuð vel sett þarna ef litið er til hinnar stórskemmtilegu og Íslendingavænu höfðatölu. Til að mynda að þá situr íslenska landsliðið tveimur sætum ofar en það bólivíska, sem meðal annars komst á HM´94 í Bandaríkjunum, og fjórum sætum ofar en landslið Litháen sem hefur á nokkrum mjög snjöllum leikmönnum að skipa. Hinsvegar, þá eru Íslendingar kröfuhörð þjóð og því verðum við að líta framhjá höfðatölunni ef alþjóðlegur árángur á að nást. Í framhaldi af þessu má líka nefna að íslenska landsliðið hefur á að skipa frábærum leikmönnum og því lítil ástæða til þess að fela sig bakvið þægilegan skjólvegg höfðatölunnar.
Fyrir rétt rúmri viku tilkynnti Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari sinn fyrsta 18 leikmanna landsliðshóp. Fyrsta verkefni Eyjólfs er vináttulandsleikur gegn landsliði Trinidad og Tobago. Við fyrsta hljóm gætu margir villst af leið og talið að þarna sé um eitthvað grín að ræða og auðveldur leikur fyrir stafni. Hið rétta er hinsvegar að Trinidad vann sér í fyrsta sinn í haust rétt til þess að leika í lokakeppni heimsmeistaramótsins, og munu því mæta þar til leiks í Þýskalandi í sumar. Þannig að þarna er á ferðinni mjög spennandi verkefni.
Þegar litið er á hópinn sem Eyjólfur valdi er ekki mikið sem kemur á óvart en þó eru þar tveir leikmenn sem landsliðið hefur saknað sárlega. Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Ívar Ingimarsson og Jóhannes Karl Guðjónsson. Ívar hefur undanfarin tvö ár verið fastamaður í miðvarðarstöðu hjá toppliði 1. deildarinnar í Englandi, Reading FC. Hann hefur aukinheldur gengt fyrirliðastöðu hjá liðinu í afleysingum. Á sama tíma hefur Jóhannes Karl fest sig í sessi sem lykilmaður á miðjunni hjá enska 1. deildar liðinu Leicester City. Hann samdi þó nýverið við hollenska úrvalsdeildar liðið AZ Alkmaar og gengur til liðs við það í sumar. Þar mun hann hitta fyrir félaga sinn úr landsliðinu Grétar Rafn Steinsson. Bæði Ívar og Jóhannes Karl lentu upp á kant við fyrrverandi landsliðsþjálfara og hafa því ekki gefið kost á sér til þess að spila með liðinu undanfarin ár.
Staðreyndin er sú að Ísland er fámenn þjóð og þrátt fyrir að gæðin séu svo sannarlega til staðar á hverju sviði þá er annað mál með magnið, við megum í raun ekki við því að takmarka þá valmöguleika sem eru til staðar. Án þess að snerta á því hvert ágreiningsatriði þessara leikmanna og fyrrverandi landsliðsþjálfara var, þá er það ljóst að þessi ágreiningur bitnaði á landsliðinu. Nú mun pistlahöfundur ekki taka upp hanskan fyrir neinn þessara einstaklinga enda þarf yfirleitt tvo til í svona ágreiningsmálum.
Í stað þess að horfa til baka á þessi ágreiningsmál er réttara að líta fram á veginn og sjá hverju má áorka héðan í frá. Eyjólfur Sverrisson var ráðin landsliðsþjálfari í haust og er þar á ferðinni einstaklingur sem er hokinn af reynslu þegar kemur að knattspyrnu og atvinnumennsku. Aftur á móti hefur hann ekki mikla reynslu sem þjálfari og er sú reynsla nokkurn veginn einskorðuð við undir 21 árs landslið Íslendinga, sem hann þjálfaði með ágætum árángri. Þegar öllu er á botnin hvolft, þá er það ljóst að Eyjólfur er mikill sigurvegari, eftir að hafa unnið efstu deild bæði í Þýskalandi og Tyrklandi. Einnig er hann mikill leiðtogi, með áralanga reynslu sem fyrirliði og á heimtingu á mikilli virðingu bæði sem persóna, leikmaður og þjálfari. Það er því von pistlahöfundar að með ákveðinni stefnu og án nokkurs hálfkáks muni Eyjólfur leiða landsliðið til frekari metorða.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010