Líkt og fram hefur komið undanfarna daga, þá fór lóðaúthlutun Reykjavíkurborgar ekki eins og til var ætlast, þegar einn og sami aðilinn átti hæsta tilboðið í 39 af 40 einbýlishúsalóðunum. Nú liggur fyrir tillaga borgarstjóra um að hafna öllum tilboðum hans nema einu, enda áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að hafna bjóðendum, telji hún þá ekki hæfa. Umsækjandinn situr eftir með „aðeins“ eina lóð en almennir Reykvíkingar sitja eftir með sárt ennið eftir enn eitt klúðrið hjá meirihluta borgarinnar og horfa til sveitarfélaganna í nágrenni borgarinnar í leit að lóðum.
Í útboðslýsingu var tekið fram að aðeins einstaklingar, ekki lögaðilar, mættu sækja um einbýlis- og parhúsalóðir en skipuleggjendur útboðsins láðist að taka það fram að hver aðili mætti aðeins sækja um eina lóð hver. Því fór sem fór og verktaki tók sig til og sótti um allar einbýlishúsalóðirnar í sínu nafni með fyrrgreindum afleiðingum.
Útboðið tók til svæðis í Úlfarsárdal og í útboðslýsingu var tilgreint lágmarksverð, 10,5 milljónir króna sem er tvisvar sinnum hærra en síðast þegar lóðum var úthlutað. Ljóst er að tilboðin voru töluvert yfir lágamarksverðinu, eða um 20 milljónir enda lóðirnar fáar og margir um þær. Alfreð Þorsteinsson tjáði sig um málið í Kastljósþætti Sjónvarpsins á dögunum og þar kom fram að það væri af hinu góða að Reykjavíkurborg fengi vænar tekjur af lóðasölu. Um væri að ræða rétt markaðsverð og betra væri að fólk greiddi hið rétta verð til borgarinnar heldur en til braskara og þar með væri komið í veg fyrir að markaður myndaðist fyrir lóðabrask.
Staðreynd málsins er aftur á móti sú að borgin er með einokunarstöðu á úthlutun lóða. Borgaryfirvöld ákveða framboð og bjóða út fáar lóðir hverju sinni. Frá því að R-listinn sálugi tók við völdum árið 1994 hafa innan við 500 einbýlishúsalóðum verið úthlutað og því ljóst að margir bíða eftir slíkum munaði. Ef markaðurinn á að ráða og ná á fram réttu markaðsverði, þá er ljóst að undir þessum kringumstæðum er það mjög hátt. Við þær aðstæður sem lóðaúthlutun er háttað í Reykjavík, þá er það útilokað að koma í veg fyrir brask með lóðir. Þá virðist Alfreð gleyma því hverjir greiða fyrir lóðirnar, en það er auðvitað ungt fólk sem er að koma sér upp framtíðarhúsnæði fyrir stækkandi fjölskyldur sínar. Af þessum hópi borgarbúa hyggst meirihlutinn í borginni ná inn miklum tekjum.
Hugmyndir Alfreðs um hið rétta verð minnir óneitanlega á þegar hann hækkaði gjaldskrá Orkuveitunnar í kjölfar hitabylgjunnar síðsumars 2004 til að tryggja að stofnunin myndi ekki tapa á veðurblíðunni. Eftirspurn eftir hita hafði minnkaði í þessa fáu daga sem borgarbúar nutu sólarinnar á Austurvelli. Ef um venjulega vöru hefði verið að ræða, þá hefði þessu verið öfugt farið, kaupmaðurinn hefði lækkað verðið til að laða til sín eftirspurn á ný. Ekki Alfreð. Þegar veðrið tók að kólna um haustið og almenningur tók við að kynda á ný fór aftur á móti minna fyrir lækkun á gjaldskránni.
Í Reykjavík á að vera nóg framboð af lóðum. Borgarfulltrúar minnihlutans benda á að hægt er að bjóða borgarbúum mikið magn af þeim og nefna Geldinganesið í því sambandi þar sem mögulegt er að byggja ríflega 3000 íbúðir. Með því að auka framboð á lóðum og setja fast hóflegt verð á þær mun borgin koma til móts við hina miklu umframeftirspurn sem ríkir á lóðamarkaðinum í dag. Þannig verður hægt að sporna við hækkun lóðaverðs og veita vaxtasprota borgarinnar, unga fólkinu, tækifæri til að setjast þar að. Ef þróun undanfarinna ára verður ekki snúið við, er hætta á því að eðlileg þróun borgarinnar staðni og eftir sitji gamall kjarni sem eldist hratt – á góðum degi.
- Svarið við áskorunum framtíðarinnar en ekki lausnin á vanda nútímans - 2. júní 2020
- Lifum við á fordómalausum tímum? - 9. maí 2020
- Má ég, elskan? - 21. júní 2008