Eftir að viðræðum um framtíð Kosovo var frestað í janúar, vegna fráfalls Ibrahims Rugova, forseta héraðsins halda þær áfram nú í febrúar undir handleiðslu Sameinuðu þjóðanna. Rugova var ein af stofnendum Lýðræðisbandalagsins Kosovo sem var stofnað árið 1989 eftir að fyrrverandi forseti Serbíu afnam sjálfsstjórn Kosovo það ár.
Í gær, mánudag héldu viðræðurnar áfram. Íbúar Kosovo vilja fullt sjálfstæði en serbneska stjórnin kemur að öllum líkindum ekki til með að viðurkenna Kosovo sem fullvalda ríki.
Helsta krafa Albana er að alþjóðasamfélagið flytji í auknum mæli lögsögu sína og völd til innlendra stofnana í Kosovo. Þeir vilja að héraðið fái fullt og óskorað sjálfstæði en serbneski minnihlutinn segir það ekki koma til mála. Stjórnmálaskýrendur hafa nú haldið því fram að niðurstaðan verði að öllum líkindum sú að alþjóðasamfélagið úrskurði Albönum í hag og að Kosovo fái sjálfstæði.
Réttindi Serba mikilvægari?
Margir telja að viðræðurnar næstu daga muni að öllum líkindum snúast um það hvernig tryggja megi stöðu og réttindi serbneska minnihlutans í Kosovo sem sennilega muni áfram verða hluti af Serbíu í orði frekar en á borði. Það er því almennt mat sumra að frekar þurfi að tryggja réttindi Serba en að gefa Kosovo sjálfstæði.
Eftir loftárásir NATO árið 1999 hefur Kosovo aðeins verið sambandsríki Serbíu og Svartfjallalands að nafninu til. Sameinuðu þjóðirnar hafa í raun stýrt héraðinu en heimamenn skipuðu ríkisstjórn og löggjafaþing. Viðræðurnar sem hófust á mánudaginn gengu samkvæmt embættismanni í innsta hring mjög vel. Aðalágreiningsefnið er sjálfstæðið en albanska þjóðarbrotið í Kosovohéraði sem er um 90% íbúanna vilja sjálfstæði frá Serbíu. Mest af öllu vilja þeir að landið verði skoðað sérstaklega með mannréttindi í huga og réttindi minnihlutahópa einnig.
Albanir eru á einu máli um það að sjálfstæði Kosovo verði viðurkennt. Þeir segjast hafa þjáðst mikið síðust ár og að eina lausnin við því sé að veita þeim fullt sjálfstæði. Serbar geta þó ekki hugsað sér að missa völd þar því í þeirra augum er Kosovo ginnheilagur staður og þeir geta á engan hátt hugsað sér að missa þar öll völd. Serbar eru í miklum minnihluta og eru því svartsýnir á framtíðina en þeir hafa átt undir högg að sækja á undanförnum árum.
Á kortinu sjást lönd fyrrum Júgóslavíu. Landsvæði Kosovo sést innan merkts ramma.
|
Það er algerlega óvíst hvort að Kosovo nái að standa undir sér efnahagslega. Vegna þessa telja sumir stjórnmálaskýrendur ólíklegt að Kosovo fái fullt sjálfstæði enda eru serbnesk yfirvöld ekki til umræðu um það. Ef að til kæmi að Kosovo fengi fullt sjálfstæði kynni það að valda andstöðu í alþjóðasamfélaginu því þá þyrftu Rússar hugsanlega að sýna kröfum tsjetsneskra aðskilnaðarsinna meiri skilning.
Ólík menningarbrot
Menningarbrot í Kosovo eru mjög frábrugðin og sé farið út fyrir höfuðborg Kosovo, Pristina og yfir til Gracanica má sjá gríðarlegan mun en vegalengdin þar á milli er ekki nema um tíu mínútur. Menning, tungumál, trúarbrögð, peningar og bílnúmer eru t.a.m. hlutir sem eru allt annars eðlis. Það er ótrúlegt hve ólík þessi þjóðbrot eru. Síðan Kosovo stríðinu lauk árið 1999 hafa Serbar haldið sig á afviknum skikum í héraðinu en búa einnig á svæði í norðurhluta Kosovo sem liggur að Serbíu. Flestir Serbar tala ekki albönsku og hollusta þeirra er alfarið við Serbíu. Þeir nota ekki Evru eins og annars staðar í Kosovo heldur nota þeir serbneska dínarinn. Skilríki þeirra eru serbnesk á meðan skilríki annarra Kosovobúa af albönskum uppruna eru gefin út af Sameinuðu þjóðunum. Í Kosovo búa um 2 milljónir manna og eru þeir sem eru af albönskum uppruna um 1,8 milljónir.
Í byrjun níunda áratugarins voru stúdentar og menntamenn mjög áberandi hópar í röðum Albana sem beittu sér mjög pólitískt innan Kosovo. Þessir hópar kröfðust algers sjálfstæðis eða jafnvel sameiningar við Albaníu. Eftir árið 1981 varð enn meiri ólga og uppþot varð í héraðinu sem stúdentar við háskólann í Pristina stóðu fyrir. Var þess krafist að Kosovo yrði sjálfstætt lýðveldi innan sambandsríkis. Mikið atvinnuleysi var í Kosovo á þessum tíma eða um 27.5% meira en það sem var að meðaltali í Júgóslavíu. Mótmælaaðgerðum stúdenta vorið 1981 var mætt af mikilli hörku og mörg hundruð manns voru drepnir og um 7000 manns handteknir og dæmdir í fangelsi á næstu árum.
Viðurkenning á sjálfstæði Kosovo
Kosovo hefur verið nýlenduvandamál í hjarta Evrópu síðan 1912. Þau skilyrði sem skapa þarf til að grunvöllur sé fyrir sjálfstæðu ríki er fjölþjóðasamfélag og samþætting efnahagslegra skilyrða sem kemur sér vel fyrir alla sem búa í Kosovo. Með þessum skilyrðum fyrir hendi væri fyrst hægt að fara fram á viðurkenninu alþjóðasamfélagsins á Kosovo sem ríki og sjálfstæði þess í kjölfarið. Sameinuðu þjóðirnar ættu núna að finna almennilega og viðeigandi leiðir til þess að vinna á þessu vandamáli samanborði við önnur sambærileg eins Alsír og Austur Tímor. Þannig myndi Kosovo ekki bara sleppa undan nýlendustjórn Serba heldur líka slavneskum áhrifum eins og frá Rússlandi og Evrópubandalögum þeirra. Ef Kosovo fær ekki sjálfstæði frá Serbum þá mun héraðið alltaf verða hugsanlegur púðurhvati sem mun halda áfram að hafa áhrif á frið og öryggi á Balkanskaganum og í allri Evrópu.
- Eldgos, gjörðu svo vel! - 30. apríl 2021
- Ameríkuferð Reykjanesskagans - 2. mars 2021
- Þegar landið rís - 25. janúar 2021