Í vikunni kynnti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra frumvarp, samið af Ragnheiði Bragadóttur lagaprófessor, um breytingar á ákvæðum í almennum hegningarlögum sem fjalla um kynferðisbrot. Þar er að finna margar mjög jákvæðar og nauðsynlegar breytingar, s.s. um rýmkun á nauðgunarhugtakinu og lengingu á fyrningarfresti kynferðisafbrota gegn börnum. Einnig er lagt til að refsing við ástundun vændis til framfærslu sé lagt niður.
Núgildandi lög gera vændi til framfærslu refsivert en sambærileg lög hafa verið felld úr gildi á öllum Norðurlöndunum nema Íslandi. Þau rök sem helst eru nefnd fyrir því að halda núverandi lögum eru helst tvenn. Mörgum þykir vændi siðferðislega rangt og hlutverk ríkisins sé að banna slíkt. Þessi rök vega þó ekki þungt enda, eins og fram kemur í ofangreindri skýrslu, er það ekki í samræmi við nútíma viðhorf um að fullorðnu, sálfstæðu fólki sé frjálst að stunda þær athafnir sín á milli sem því lystir ef það er gert með frjálsum vilja. Auk þess gera núverandi lög vændi ekki refsivert nema það sé til framfærslu þannig að siðferðislegur munur er nánast enginn. Einnig er nefnt að afnám laganna geti leitt fleira fólk út í vændi. Áhrif þessa eru þó ekki ljós auk þess sem vega þyrfti slíkt á móti kostum afnámsins.
Rök fyrir því að afnema refsiákvæðið eru fjölmörg, s.s.:
1. Að færa lögin til samræmis við nútíma viðhorf um frelsi fullorðinna einstaklinga.
2. Að gefa fólki sem stundar vændi betri möguleika á að tilkynna hverskonar misnotkun og færir því þannig meira sjálfstæði gagnvart viðskiptavinum og þeim sem hagnast á vændi þeirra.
3. Að gera þeim sem stunda vændi betur kleift að leita sér læknisaðstoðar, s.s. reglulegra alnæmisprófana, auk félagslegrar og sálfræðilegrar aðstoðar sem miðast að þeirra þörfum.
4. Að færi vændi upp á yfirborðið en það dregur úr fordómum, minnkar peningaflæði til undirheima og sparar löggæslukostnað.
Undirrituðum þykir ljóst að rökin fyrir afnámi eru mun veigameiri. Það er því fagnaðarefni að tillögu um slíkt sé að finna í þessu nýja frumvarpi. Í raun ætti umræðan frekar að snúast um hvort taka ætti skref í viðbót og gera vændi að löglegri atvinnugrein eins og mörg lönd hafa gert (s.s. Holland, Sviss og flest ríki Ástralíu). Rök gegn slíku væri svipuð og gegn afnámi refsiákvæðisins en myndu mögulega vega þyngra. Lögleiðing hefur hins vegar á sér margar jákvæðar hliðar. Fólk sem stundaði vændi myndi njóta sömu vinnuverndar og aðrir starfsmenn og hefðu möguleika á að stofna verkalýðsfélög. Einnig væri hægt að setja sérstakar reglur s.s. að krefjast vikulegs alnæmisprófs, starfsgreinin myndi skapa skatttekjur og lögleiðing drægi enn frekar úr fordómum.
Hvort sem skrefið verður tekið til fulls eða ekki er ljóst að fyrirhuguð breyting er mikilvægt skref í baráttunni gegn þeim raunverulegu glæpum sem felast í hverskonar misnotkun og myndi gefa grundvöll fyrir ýmis konar úrbótum fyrir þann þjóðfélagshóp sem treystir á vændi sér til lífsviðurværis.
- Við, þau og loftslagsbreytingar - 20. júní 2007
- Veðjað á þakið - 24. mars 2007
- Kosningar í Bangladesh - 27. janúar 2007