Veit einhver um tilvist laga nr. 53 frá 1972? Fyrir þá sem ekki vita þá eru í gildi í landinu lög um orlof húsmæðra. Tilgangur laganna er sá að tryggja heimavinnandi húsmæðrum ákveðið orlof sem sveitarstjórnir standa straum af.
Samkvæmt 1. gr. laganna skiptir Kvenfélagasamband Íslands landinu í orlfssvæði með tilliti til framkvæmdar laga þessara um orlof húsmæðra. Fer skiptingin fram á landsþingi sambandsins.
Ekki má skipta sveitarfélagi milli orlofssvæða. Þess má geta að Kvenfélagasamband Íslands, sem falið er veigamikið hlutverk í lögunum, er í raun og veru til, með aðstetur að Hallveigarstöðum við Túngötu og er kennitala þess 710169-6759.
Í 2. mgr. 2. gr. segir að í orlofsnefnd skuli vera þrjár konur og þrjár til vara, kosnar til þriggja ára í senn. Samkvæmt 3. gr. laganna skipuleggja orlofsnefndir orlof húsmæðra hver í sínu umdæmi og sjá um rekstur orlofsheimila.
Í 1. mgr. 6. gr. laganna segir orðrétt: „Sérhver kona, sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu, án launagreiðslu fyrir það starf, á rétt á að sækja um orlof.“
Nú þekkjast dæmi þess að karlar séu heimavinnandi og annist heimilisstörf með áþekkum hætti og ráð er fyrir gert í lögum um orlof húsmæðra. Getur það verið að lögin feli í sér grófa mismunun gagnvart þessum karlmönnum. Þeir eru samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum hér að ofan útilokaðir frá því að vera í orlofsnefndum og ekki verður 1. mgr. 6. gr. skilin öðruvísi en svo að þar sé átt við konu í þeirri merkingu að hún sé ekki karl.
Er ekki tilefni fyrir íslenska jafnréttissinna að staldra við þessi lög og kanna hvort þau samræmast „nútímalegum“ sjónarmiðum í jafnréttismálum?
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021