Hamas-samtökin unnu stóran kosningasigur í palestínsku þingkosningunum sem fóru fram nú í janúarlok. Þessi úrslit hafa valdið mörgum hlutaðeigandi áhyggjum um framtíð friðarferlisins milli Ísrael og Palestínu. Hamas-samtökin, sem eru almennt álitin hryðjuverkasamtök af vestrænum ríkjum, fengu 76 sæti af 136 meðan Fatah-flokkurinn, sem hefur verið við stjórnvölinn undanfarin ár og gagnrýndur fyrir spillingu, hlaut einungis 43 sæti. Aðrir flokkar fengu þrjú sæti eða færri. Þessi stórsigur Hamas kom heldur flatt upp á fólk og óvissa ríkir um hvað tekur við. Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, lýsti því yfir strax eftir kosningar að hann myndi fela Hamas-samtökunum umboð til stjórnarmyndunar. Fatah-flokkurinn hefur hafnað hugmyndum um samsteypustjórn flokkanna tveggja enda ólíklegt að þeir vilji þannig taka á sig ábyrgð á ákvörðunum sem þeir geta ekki hindrað. Einnig kemur þrýstingur á Hamas erlendis frá en Bandaríkin, Ísrael og fleiri ríki hafa krafist þess að Hamas hverfi frá harðri stefnu sinni um eyðingu Ísraelsríkis.
Hamas-samtökin eru herská palestínsk samtök múslima og voru stofnuð árið 1987 sem angi af Bræðralagi Múslima í Egyptalandi. Yfirlýst markmið samtakanna er að stofna sjálfstætt ríki Palestínu sem byggir á gildum Íslam og í stefnuskrá samtakanna frá 1988 kveður á um eyðingu Ísraelsríkis.
Samtökin veita ýmisskonar félagslega þjónustu í Palestínu sem skýrir að vissu leyti vinsældir þeirra meðal almennings en eru víða skilgreind hryðjuverkasamtök vegna tíðra sjálfsmorðssprenginga og mannskæðra árása beint gegn Ísrael.
Innri átök hafa átt sér stað í Hamas eftir að stofnandi og andlegur leiðtogi samtakanna og eftirmaður hans létust báðir í árásum Ísraelsmanna með stuttu millibili árið 2004. Síðan þá hefur Hamas ekki haft almennilega skilgreinda forystu og spenna hefur ríkt milli leiðtoga. Sérfræðingar gera nú ráð fyrir að ef forsætisráðherra muni koma úr röðum Hamasliða þá verði það sá sem skipaði fyrsta sæti lista Hamas, Ismail Haniyeh sem leiði stjórnina. Haniyeh telst vera einn af hófsamari leiðtogum Hamas.
Vesturveldin og Ísrael eru mjög uggandi um stöðu mála og framtíð friðarferlisins. Þess hefur verið krafist af Hamas-samtökunum að þau viðurkenni tilverurétt Ísraelsríkis og afneiti ofbeldi í baráttu sinni fyrir málstað Palestínu en Hamasleiðtogar neita að gefa út neinar yfirlýsingar þess efnis að svo stöddu.
Bandaríkin og fleiri ríki hafa hótað því að hætta öllum fjárstuðningi verði þessum skilyrðum ekki mætt. Palestína reiðir sig nær alfarið á erlenda styrki og fékk 56 milljarða íslenskra króna á seinasta ári frá alþjóðastofnunum og vestrænum ríkjum.
Fyrrnefndur Haniyeh hefur hvatt ríki og stofnanir til að hætta ekki fjárhagsaðstoð og segir Hamas munu una því að nákvæmt eftirlit verði haft með notkun styrkjanna. Hann tekur þó fram um leið að þeir muni ekki sætta sig við ósanngjörn skilyrði þar sem þessir styrkir séu mannúðaraðstoð við þjóð sem lifir við hernám.
Ákvörðun stjórnvalda í Rússlandi um að bjóða leiðtogum Hamas til viðræðna hefur valdið miklum titringi hjá öðrum ríkjum sem láta sig friðarferlið varða. En Rússar segjast með þessu vilja stuðla að því að Hamas uppfylli skilyrðin um afvopnun og viðurkenningu á Ísrael. Þeir verja þessa ákvörðun sína með því að Hamas hafi verið kosið í lýðræðislegum kosningum og því nauðsynlegt að virða vilja palestínsku þjóðarinnar. Frakkar hafa nú einnig lýst yfir stuðningi við ákvörðun Rússa um að bjóða Hamas til viðræðna og segjast vilja stuðla að afvopnun Hamas.
Þótt alþjóðastofnanir og vestræn ríki séu nú treg til þess að halda áfram fjárstuðningi við Palestínu með Hamas við stjórnvölin þá er varhugavert að fella hann umsvifalaust niður þar sem það myndi valda mikilli ólgu á svæðinu með ófyrirséðum afleiðingum. Annað sem gæti gerst væri að stjórnvöld í Palestínu myndu leita á náðir ríkja á borð við Sýrland og Íran sem myndi ekki styrkja horfur í friðarviðræðum við Ísrael. Það gæti leitt til einarðari afstöðu gegn Ísrael og friðarumleitunum sem Vesturveldin leiða. Embættismenn í Ísrael og Bandaríkjunum hafa bent á að tengsl milli Palestínu og Íran séu að styrkjast en Mahmoud Ahmadinejad forseti Írans hefur undanfarið verið óspar á yfirlýsingar um eyðingu Ísraelsríkis.
Hvað afstöðu Ísrael varðar þá hefur Ariel Sharon, forsætisráðherra landsins, legið í dauðadái síðan í janúarbyrjun og ákveðin óvissa því á pólitíska sviðinu þar auk þess sem kosningar verða í næsta mánuði. Í fyrra tæmdi Sharon landnemabyggðir á Gazaströndinni sem ber að líta á sem ákveðið skref í friðarferlinu, þótt þessar aðgerðir hafi verið algjölega einhliða og án samvinnu við stjórnvöld í Palestínu. En þetta mætti mikilli andstöðu innan Likudbandalagsins sem leiddi til þess að Sharon yfirgaf flokkinn og stofnaði Kadima. Þessum nýja flokk Sharons hefur verið spáð sigri í kosningunum í mars en óvíst hvort þær spár gangi eftir ef Sharon fellur frá þótt það hljóti að teljast útséð með að hann snúi aftur í stjórnmálin. Hver sem úrslitin verða í mars þá standa öll spjót í dag á Hamas. Aðalspurningin er hvort að Hamas muni, eftir að hafa komist til valda, styðja friðarviðræður við Ísrael eða standa fast við stefnuskrá sína, halda sjálfsmorðsárásum áfram og neita öllum viðræðum. Fyrst ekki hefur tekist að semja um frið við Fatah, þjóðernissinnaðan flokk sem byggir ekki á trúarsetningum, má leiða að því líkur að viðræður verði enn stirðari við trúarleg samtök með einarða stefnu eins og Hamas.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021