Laugardaginn 18. febrúar fer fram undankeppni um framlag Íslands til Eurovision keppninnar. Þar munu 14 lög keppa og þar á meðal er lag Þorvalds Bjarna “Til hamingju Ísland” í flutningi Silvíu Nætur. Þetta lag nýtur mikillar vinsælda og er mikið spilað á útvarpsstöðum landsins. Silvía Nótt er frægasta frekjudós landsins og hefur stuðað áhorfendur Skjás eins í þætti sínum með óútreiknanlegum uppátækjum og dekurstælum. Hún hefur ofur egó og státar af stórkostlegum klæðaburði og make up sem gerir hvaða dragdrottningu græna af öfund. Hún hefur skapað ákveðið “trend” og ekki er hægt að stíga fæti inn á skemmtistað án þess að rekast á nokkrar útgáfur af Silvíu Nótt. Þátturinn hennar var valinn sjónvarpsþáttur ársins á Eddu verðlaununum í haust og var Ágústa Eva Erlendsdóttir konan bak við Silvíu Nótt valin leikkona ársins. Mikið fjölmiðlafár varð þegar lagið sem hún syngur í keppninni, lak á netið og einn lagahöfundur í keppninni lagði fram stjórnsýslukæru í kjölfarið. En til allar hamingju tók Útvarpsráð þá ákvörðun að Silvía Nótt myndi halda áfram í keppninni. Atriði í keppninni var stórkostlegt sjónarspil og yrði frábært skemmtun og tilbreyting frá hinu hefðbundna Eurovision þema okkar Íslendinga. Því er tilvalið að túbera á sér hárið og skella sér í glimmerið og grifflurnar, vera svolítið frakkur og kjósa Silvíu Nótt – Til hamingju Ísland! Ógisslega töff skillirru!!!
- Áður en ég dey… - 10. júlí 2008
- Góðmennskan og hjálpsemin uppmáluð í 80 ár - 25. júní 2008
- Öfgar og áróður - 12. apríl 2008