Það dylst fæstum að kapítalisminn er það hagskipulag sem skapað hefur það ríkidæmi og þá hagsæld sem Vesturlandabúar búa við í dag. Önnur hugmyndafræði á borð við kommúnisma er fallinn og kapítalismi það skipulag sem flestar þjóðir heimsins hafa tekið upp, með mismiklum ríkisafskiptum þó. Gömul kommúnistaríki á borð við Rússland hafa á undanförnum árum aðlagað sig að markaðshagkerfi en þó með mjög misjöfnum árangri. Það leiðir því hugann að því að þrátt fyrir sigur kapítalismans eru enn fjölmargar þjóðir sárafátækar. Þá kemur upp sú spurning af hverju virkar ekki þetta skipulag sem skildi hjá öllum þjóðum. Kapítalisminn hefur löngum sannað gildi sitt en af hverju er hann sigursælli á Vesturlöndum en virðist bregðast alls staðar annars staðar ?
Þessa spurningu leggur hagfræðingurinn Hernando De Soto fram í bók sinni “Leyndardómur fjármagnsins”. Þar bendir hann á að ástæðan fyrir fátækt margar ríkja sem búa við markaðshagkerfi sé ekki að finna í skort á fjármagni. Fæstar þjóðir eru svo fátækar að þær geti ekki byggt um fjármagn til að koma hjólum hagvaxtar af stað. Í raun er ótrúlega mikið fjármagn að finna hjá þessum ríkjum í formi, húsnæðis, landsvæðis og smáfyrirtækja. Gallinn er bara sá að þetta sé það sem kalla má „dautt” fjármagn. Ástæðuna fyrir þessu dauða fjármagni má finna í illa skilgreindum eignarétti íbúa þessara landa.
Séreignarétturinn er ein af grunnstoðunum í kapítalísku hagkerfi ásamt einkaframtaki og frjálsum markaði. Hagfræðingar hafa haldið því fram að því betur skilgreindari sem eignarétturinn sé því skilvirkara verður hagkerfið. Á Vesturlöndum er eignarétturinn afar vel skilgreindur, hver lóðarspilda, húseign, fyrirtæki er kyrfilega skráð og engum dylst hver eigandinn sé. Þetta er ekki að finna í mörgum fátækjum ríkjum þar sem verulegur hluti eigna er ólöglega skráður. En af hverju skiptir það máli ?
Jú, af því að leyndardómur fjármagnsins í kapítalísku hagkerfi er ekki fjármagnið sjálft heldur það eignaréttarkerfi sem umlykur það. Sé eignaréttarkerfið sterkt kemur fjármagnið að sjálfum sér. Tökum dæmi um einstakling sem ætlar að stofna eigin rekstur, hann fer út í banka og fær lán oftast gegn veði í einhverri löglega skráði eign t.d. húsinu sínu. Þannig fær hann fjármagn til að framkvæmda. Í þróunarlöndum er eignarétturinn svo veikburða að bankar og aðrir lánveitendur fást sjaldnast til að veita lán út á eignir íbúanna.
Vel skilgreindur eignaréttur tryggir einnig öryggi og framseljanleika þeirra eigna sem til eru í hagkerfinu. Sé eignarétturinn ekki til staðar (eða illa varin af dómstólum) er auðvelt að taka eignir af eigendum án bóta. Að sama skapi er erfiðleikum bundið að selja eignir ef þær eru óskráðar. Frjáls markaður á því afar erfitt uppdráttar þegar seljanleiki eigna er slíkum erfiðleikum bundinn.
Illa skilgreindur eignaréttur ýtir einnig undir mikla spillingu í stjórnkerfum þessara landa. Oft er stór hluti af efnahagskerfi landa undirlagt opinberum rekstri. Þannig er oft skilvirkasta leiðin til þess að ná fram rétti sínum ekki sú að fara í gegnum dómskerfið heldur í gegnum gerspillta embættismenn sem þrífast á mútum og greiðastarfsemi.
Vandi þessara ríkja er ekki skortur á fjármagni. Fjármagn er þar nægilegt til að koma hjólum hagvaxtar af stað. Gallinn er sá að þetta fjármagn er ekki lifandi heldur í formi dulinna eigna. Vegna þess hve eignarétturinn er illa skilgreindur er illmögulegt að breyta þessum eignum í fjármagn. En fjármagn er einmitt olían sem kapítalísk hagkerfi ganga fyrir. Það liggur því fyrst og fremst hjá ríkjunum sjálfum að standa vörð um eignaréttinn til að hægt sé að búa til lifandi fjármagn sem eykst og margfaldast í skjóli eignaréttaskipulags eins og á Vesturlöndum.
Heimild: Hernando de Soto, “Leyndardómur fjármagnsins”
- Á diskinn minn - 31. júlí 2006
- Frjáls för verkafólks - 10. maí 2006
- Kapítalismi og fátækt - 11. febrúar 2006