Þorrinn stendur nú sem hæst og keppast Íslendingar um land allt, jafnvel um heim allan, við að blóta Þorrann eins og ekkert sé sjálfsagðara. Pistlahöfundur á nú þegar eitt slíkt blót að baki og framundan er eitt. Blótið framundan er þorrablót Rangæinga á Hellu og er pistlahöfundi vel ljóst að þar er þorrinn ekki tekinn sömu vettlingatökum og hún hefur kynnst hér á mölinni. Líklegt er að kröfur Rangæinga um þátttöku mína í neyslu þorramatarins verði miklar og ekki síður líklegt að ég verði við þeim kröfum, þó ekki væri nema bara til að sanna hreysti mína og dug fyrir tengdafólkinu. Það er jú enginn maður með mönnum nema hann éti pung!!
Þegar ég fór að velta fyrir mér þessum mikla áhuga landsmanna á að hittast til að borða ónýtan mat ákvað ég að rifja aðeins upp með mér af hverju við værum aftur að þessu. Mér dettur líka í hug að það sé ágætis undirbúningur undir hina miklu þolraun sem framundan er, þar sem súrir pungar og kæstir hákarlsbitar munu liggja saman í trogi og bíða eftir að verða lagðir til míns munns.
Flestum er líklega kunnugt um að þorrinn er mánuður í tímatali okkar til forna. Þorrinn hefst á föstudegi í 13. viku vetrar (19.-25. janúar) og stendur til sunnudags í 18. viku, eða þar til góan tekur við. Það er ekki vita hvaðan mánaðarnafnið þorri er upprunnið en það þekkist frá því á 12. öld. Ýmist er talað um að blóta eða þreyja þorrann.
Sögnin að blóta hafði í fornu máli aðra merkingu en þá sem við þekkjum í dag. Orðasambandið blóta goðum merkti þá að færa goðum fórn. Það er ekki fyrr en á síðari öldum sem sögnin að blóta fær merkinguna bölva eða ragna. Líklegt þykir að sú breyting hafi orðið á merkingu orðsins þar sem kristnum mönnum hafi þótt það ókristilegt, jafnvel bölvað, að blóta goð.
Sögnin að þreyja merkir að þrauka eða bíða einhvers með eftirvæntingu og er því skyld sögninni að þrá. Þorrinn og góan voru og eru venjulega köldustu mánuðir ársins. Þorrinn sést oft persónugerður sem vetrarvættur í sögum frá miðöldum. Áður fyrr, þegar þægindin voru ekki jafn mikil og sjálfsögð og þau eru í dag, gátu þessi mánuðir reynst verulega erfiðir fólki og þurftu menn þá að þrauka eða þreyja. Eftir góuna fór daginn að lengja og veður að hlýna og styttast í sumarið. Þess vegna er í dag stundum talað um að þreyja þorrann í þeirri merkingu að þola tímabundna erfiðleika.
Svo virðist sem fyrst séu til heimildir um fagnaði eða sérstaka siðvenju í upphafi þorra frá byrjun 18. aldar. Þó þykir líklegt að slíkar venjur séu töluvert eldri. Upphaflega bauð húsfreyja þorran velkominn með því að gera vel við bónda sinn með mat og drykk, en fyrsti dagur þorra er í dag hinn vel þekkti bóndadagur.
Það var svo á síðari hluta 19. aldar sem mennta- og embættismenn fóru að halda þorrablót. Þetta voru matar- og drykkjarveislur þar sem sungin voru kvæði og minni þorra og heiðinna goða drukkin. Þór var sá goða sem helst var tengdur þorranum og stundum talið að þaðan komi nafnið þorri. Eins konar gælunafn Þórs. Þessar veislur lögðust að mestu af eftir aldamótin í kaupstöðum en siðurinn hafði þá borist í sveitirnar og hélt áfram þar, aðallega á Austurlandi og í Eyjafirði. Þorrablót hófust aftur í þéttbýli um miðja 20. öld og það var aðallega fólk, sem hafði flutt úr sveitum í kaupstaðina, sem hélt þau. Líklega til að halda hópinn og rifja upp gamlar minningar. Svona svipað og gert er meðal Íslendinga erlendis í dag.
Þar höfum við það. Siðurinn er heiðinn. Þá þegar af þeirri ástæðu ætti ég kannski bara að sitja heima, eða hvað? Það er vel þekkt að þessi tími, janúar og febrúar, er ekki síður erfiður fólki í dag en hann var áður fyrr. Myrkrið er það sama, dagarnir stuttir og kuldinn mikill. Það er því kannski full ástæða til að gera sér glaðan dag með vinum og fjölskyldu á þessum tíma og halda matarveislu með kæstum, súrum, reyktum og hangnum mat… og fá sér pung. Þó ekki væri nema bara til þess að minna sig á að það er tilefni til að vera þakklátur fyrir þau þægindi sem við búum við og ónýtur matur er ekki daglegt brauð.
Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008