Teikningar og trúarbrögð

Þegar skopmyndirnar tólf af Múhameð birtust í Jyllands-Posten í Danmörku sýndu viðbrögðin við þeim glöggt hversu stutt Danir eru komnir í áttina að raunverulegu fjölmenningarsamfélagi. Í fjölmenningarsamfélagi hefðu viðbrögð við myndunum verið sambærileg við það ef gert hefði verið smekklaust grín að helför gyðinga eða meintu ástarsambandi Krists og Maríu Magdalenu.

Þegar skopmyndirnar tólf af Múhameð birtust í Jyllands-Posten í Danmörku sýndu viðbrögðin við þeim glöggt hversu stutt Danir eru komnir í áttina að raunverulegu fjölmenningarsamfélagi. Slíkt samfélag byggist upp á gagnkvæmnri virðingu og skilningi fyrir trú, siðum og lífi allra sem búa í samfélaginu svo framarlega sem slíkir siðir brjóti ekki landslög. Í fjölmenningarsamfélagi hefðu viðbrögð við myndunum verið sambærileg við það ef gert hefði verið smekklaust grín að helför gyðinga eða meintu ástarsambandi Krists og Maríu Magdalenu.

Einhver hluti samfélagsins hefði líklega fyllst vandlætingu og reiði yfir slíkri smekkleysu á sama hátt og menn brugðust ókvæða við mannfyrirlitningunni í DV hér á landi. Málið hefði átt að flokkast sem óhjákvæmilegur fylgifiskur tjáningarfrelsis en flestir hefðu vafalaust talið að illa væri farið með það frelsi í þessu tilviki. Því miður þá urðu viðbrögðin í Danmörku allt önnur. Múslimarnir gleymdu tjáningarfrelsinu og flestir aðrir gleymdu að það er ljótt að vanvirða trú annarra. Það hefði verið afar gott ef málið hefði endað þarna og allir aðilar lært af reynslunni en svo var því miður ekki.

Nú, fjórum mánuðum eftir birtinguna, er ólga vegna málsins í hinum íslamska heimi sívaxandi og hefur alda mótmæla og skemmdarverka riðið yfir þennan heimshluta. Helsta ástæða þess að málið tók þessa ógæfulegu stefnu virðist vera sú að nokkrir öfgafullir múslimar frá Danmörku hafi farið þangað gagngert til að æsa upp trúbræður sína.

Teikningarnar sjálfar

Umræddar tólf skopmyndir af spámanninum Múhameð fela í sér guðlast samkvæmt íslamskri trú (fyrir utan að sumar þeirra ólu á afar óheppilegri og neikvæðri staðalímynd af múslimum). En samkvæmt íslamskri hefð er bannað að sýna Múhameð spámann á myndum, hvort heldur er með niðrandi eða jákvæðum hætti, þar sem slíkt geti leitt til skurðgoðadýrkunar. Þótt slíkar myndir kunni að líta sakleysislega út í augum Vesturlandabúa þá eru þær ögrandi og særandi fyrir múslima.

Ýmsar útgáfur hafa heyrst um upprunalegan tilgang Jyllands-Posten með birtingunni. Allt frá því að tilgangurinn hafi beinlínis verið að ögra múslimum og til þess að um tilraun til að verja málfrelsið gegn sífellt vaxandi sjálfsritskoðun hafi verið að ræða. Það er reyndar erfitt að sjá hvernig smekklausar skopmyndir af trúarbrögðum fólks koma í veg fyrir sjálfsritskoðun en það er önnur saga.

Það er alla vega augljóst að ákvörðun um birtingu myndanna var tekin af yfirlögðu ráði til að ögra óháð því hver raunverulegur tilgangur ögrunarinnar var. Í því samhengi verður að taka undir það sem margir hafa haldið fram að breytingar á íslam munu ekki eiga sér stað án ögrunar. Hins vegar er augljóst að sú ögrun á ekki að koma frá Vesturlöndum þar sem hún gerir eingöngu illt verra og stuðlar að aukinni óvild í þeirra garð. Ögrunin verður að koma innan frá.

Marteinn Lúther ögraði kaþólsku kirkjunni á sextándu öld og hratt af stað þeirri siðbót sem varð rótin að aðskilnaði ríkis og kirkju og grundvöllur frelsis í Evrópu. Það er hægt að fullyrða að ef múslimi hefði neglt skjal með árásum á kenningar kaþólsku kirkjunnar á kirkjutröppurnar í Wittenberg árið 1517 þá hefði afskaplega lítið gerst annað en að viðkomandi hefði verið tekinn af lífi.

En á endanum skiptir tilgangurinn einfaldlega ekki máli og við verðum algjörlega að horfa fram hjá því að myndirnar hafi verið ögrandi og særandi í augum múslima. Tjáningarfrelsið á að vernda rétt manna til að birta nokkurn veginn hvað sem er, sama hversu smekklaust eða óforskammað það er.

Kröfur um ritskoðun

Kröfur íslamskra stjórnvalda, trúarleiðtoga og mótmælenda hafa verið margs konar. Allt frá því að krefjast afsökunarbeiðni til þess að heimta einhvers konar ritskoðun á slíkar móðganir gegn íslam í hinum vestræna heimi. Í sjálfu sér er ekkert hægt að segja við þessum kröfum. Mönnum er algjörlega frjálst að koma með hvaða kröfur sem er, sama hversu óraunhæfar eða ruglaðar þær eru. Tjáningarfrelsið verndar þessar kröfur alveg jafnmikið og birtingu skopmyndanna í Jyllands-Posten.

Samt verður reyndar að minnast þess að líklega finnst mörgum íbúum Miðausturlanda þessar kröfur ekkert svo galnar þar sem þeir hafa margir búið við ritskoðun stjórnvalda allt sitt líf, sérstaklega á sviði pólitíkur og trúar. Á sama hátt er Evrópa sjálf nýskriðin frá slíkri ritskoðun. Er skemmst er að minnast þeirra viðtaka sem Monty Phyton bíómyndin The Holy Grail fékk árið 1979. Var hún bönnuð vegna guðlasts í Noregi, Írlandi, Ítalíu og hluta Englands. Fékkst hún ekki sýnd á Ítalíu fyrr en árið 1990. Þegar The Last Temptation of Christ var fumsýnd árið 1988 var hún einnig foræmd út um allan heim fyrir guðlast. Gekk það svo langt að hópur franskra öfgasinnaðra kaþólikka framdi hryðjuverk í kvikmyndahúsi í París til að mótmæla sýningu myndarinnar.

Við á Íslandi vorum ekkert skárri því snemma á níunda áratuginum lagði lögregla hald á öll tölublöð Spegilsins og Samvisku þjóðarinnar vegna ádeilu sem þar var að finna um altarissakramentið og síðustu kvöldmáltíð Krists. Útgefandi blaðsins var síðan dæmdur til refsingar árið 1984 fyrir guðlast og sagði Hæstiréttur við það tækifæri að háð um trúarkenningar í lesmáli væri mjög alvarlegur glæpur. Rétt er að geta þess að 125 gr. almennra hegningarlaga sem sakfellingin byggðist á er enn í fullu gildi hér á landi.

Tvö andlit mótmælanna

Frelsi manna til að mótmæla og krefjast hvers sem er, takmarkast af því með hvaða hætti menn bera fram kröfur sínar og þeim aðferðum sem menn beita við mótmælin. Í þessu máli höfum við annars vegar verið að sjá “hefðbundnar” mótmælaaðgerðir frá Miðausturlöndum þar sem æst fólk hrópar slagorð gegn hinum ýmsu Vesturlöndum og brennir eða stappar á þjóðfána viðkomandi ríkis við sama tækifæri. Einnig hefur nokkuð borið á efnahagslegum þvingunum en danskar vörur hafa verið teknar úr hillum verslana og múslimar hvattir til að versla ekki vörur frá Danmörku. Það verður að teljast afar erfitt að fordæma slíkar mótmælaaðgerðir sem hafa tíðkast í Evrópu og Bandaríkjunum í hundruð ára. Þrátt fyrir að kröfur mótmælenda séu afar óraunhæfar og slæmar þá er það skýlaus réttur þeirra að fá að mótmæla friðsamlega hverju sem þeim sýnist.

Aftur á móti hafa sumir ekki látið staðar numið við friðsamleg mótmæli. Hefur töluvert borið á ofbeldi og hótunum um hryðjuverk. Minna þær aðferðir illþyrmilega á dauðadóminn sem íranska klerkastjórnin kallaði yfir Salman Rushdie fyrir Söngva Satans. Þegar hafa komið upp tilfelli þar sem ofbeldi og heimagerðum sprengjum var beitt. Til dæmis hefur verið ráðist inn í sendiráð Danmörku og Noregs í löndum Miðausturlanda og þau brennd. Slíkar aðferðir ofbeldis og hryðjuverka til að koma sjónarmiðum til skila eru óverjandi og má aldrei líða.

Verum samt minnug þess að ekki má blanda saman þeim fámenna truflaða öfgahópi sem er tilbúinn að drepa, sprengja og brenna fyrir íslam og þeim mikla fjölda múslima sem er að mótmæla friðsamlega vegna þess að þeir eru móðgaðir eða halda að þeir eigi að vera móðgaðir (umfjöllun og áróður trúarleiðtoga og stjórnvalda í Miðausturlöndum gegn Danmörku hefur verið óhemju ófyrirleitin, ósanngjarn og einhliða).

Vandamálið liggur í Miðausturlöndum

Í flestum löndum Miðausturlanda er hið trúarlega og veraldlega vald kyrfilega samtvinnað. Eru þessi lönd nokkur hundruð árum á eftir Vesturlöndum þegar kemur að aðskilnaði veraldslegs og trúarlegs valds. Þar þykir eðlilegt að ritskoða og beita fólk ýmsum þvingunum í nafni trúarinnar. Stjórnendur og trúarleiðtogar þessara landa hafa gengið einna lengst í þessu máli í því að stofna til illinda og hvetja fólk til að mótmæla. Að sama skapi hefur lítil sem engin stjórn verið höfð á mótmælendum sem hreinlega opnar hinum öfgafyllstu greiða leið til að fremja óhæfuverk innan landanna t.d. gagnvart erlendum sendiráðum eða erlendum ríkisborgurum.

Hafa fjölmiðlarnir þessara landa (sem eru flestir í ríkiseigu) birt afar neikvæðar umfjallanir og þannig helt olíu á eldinn. Ýmsar kenningar eru á lofti um tilganginn fyrir þessum hatursfulla boðskap. Að það sé verið að stofna til óánægju til að fá fólkið til að gleyma örbirgðinni heima fyrir, búa til sameiginlegan fjarlægan óvin sem sameiningartákn, ala á trúarofstæki til að geta viðhaldið núverandi stjórnarfyrirkomulag og svo framvegis.

Hins vegar þegar litið er til afleiðinganna sést strax að tilgangurinn helgar ekki meðalið. Það sem gerir þessa háttsemi stjórnvalda og trúarleiðtoga í Miðausturlöndum óþolandi er sú staðreynd að þetta mun líklega leiða til aukins ofbeldis og hryðjuverka. Þetta vita þeir sem eru að kynda undir ófriðarbálinu. Allir geta nú verið nokkuð vissir um að einhver móttækilegur ógæfusamur einstaklingur mun núna fremja eitthvað hræðilegt ódæði í kjölfarið á því hatri og andúð sem verið er að boða í viðkomandi löndum.

Vandamálið liggur því hjá þeim ríkjum Miðausturlanda sem nota trúna sem svipu og kúgunartæki á þegna sína. Það eru t.d. þau ríki sem kúga konur, notast við Sharia lög og halda sums staðar úti trúarlögreglu. Á meðan þau ala á kúgun, hatri og andúð í nafni trúar breikkar alltaf bilið á milli hins íslamska heims og þess vestræna og menningarárekstrum fjölgar. Margt af því fólki sem kemur til Vesturlanda frá Miðausturlöndum er vant því að trúarlegt vald og veraldlegt vald sé það sama. Reynt hefur verið að telja þessu fólki trú um að ritskoðun eða kúgun í nafni trúar sé eðlileg. Á meðal slíkra einstaklinga verða alltaf einstrengingslegir svartir sauðir sem hafa fallið fyrir áróðrinum og telja að öfgafullar kennisetningar séu það mikilvægasta í hinum veraldlega heimi.

Öfgafull öfl hafa því miður náð að samsama sig við þann einn og hálfan milljarð einstaklinga sem iðkar íslam. Hefur það haft gífurlega slæm áhrif á það álit sem íbúar Vesturlanda hafa almennt á múslimum og hinum friðsama boðskap íslam. Býr þetta því til óverðskulduga fordóma Vesturlandabúa í garð múslima sem eykur enn frekar menningarárekstra og minnkar umburðarlyndi.

Stefna Deiglunnar

Deiglan hefur alltaf boðað umburðarlyndi gagnvart öllum hópum í þjóðfélaginu, sérstaklega gagnvart minnihlutahópum sem eiga undir högg að sækja. Hún hefur einnig varið tjáningarfrelsið með kjafti og klóm. Deiglan mun hins vegar aldrei verja rétt öfgafullra stjórnvalda eða trúarleiðtoga til að kúga skjólstæðinga sína, ala á hatri og hvetja til ofbeldis. Ekki heldur þá ógæfusömu einstaklinga sem láta glepjast af slíku trúarofstæki og fremja ódæðisverk.

Það réttlætir einfaldlega ekkert hryðjuverk og ofbeldi gegn saklausum borgurum.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)