Það er á ábyrgð ríkisvaldsins að sjá til þess að allir þegnar þess séu jafnir fyrir lögum. Jafnréttið verður ríkið að tryggja hvar sem það framkvæmir vald sitt, í öllum stofnunum, ráðuneytum, fyrirtækjum og samtökum. Ríkið stendur sig að lang mestu leyti í þessu hlutverki sínu. Þó það taki lengri tíma fyrir samfélagið að innleiða, framkvæma og útfæra jafnréttið verður grunnurinn að vera lagður. Hitt kemur, þó við vildum oft að hlutirnir gengju hraðar fyrir sig.
Íslenska þjóðkirkjan er ein af stofnunum ríkisvaldsins, prestar eru opinberir starfsmenn og stjórn og starfsskipan er ákveðin með lögum. Alþingi ber að sjálfsögðu að sjá til þess að jafnrétti sé tryggt á þeim sviðum sem þjóðkirkjan fer með vald á nákvæmlega sama hátt og Alþingi ber að sjá til þess að jafnrétti sé tryggt hjá öðrum handhöfum opinbers valds.
Umræðan um kirkjulega blessun eða hjónavígslu samkynhneigðra mun halda áfram að blossa upp á meðan annað af tvennu er við lýði. Hér sé stjórnarskrárvarin þjóðkirkja eða kirkjunni sé ekki gert að gefa saman samkynhneigða líkt og gagnkynhneigða. Í þessari umræðu kemur aldrei upp sú krafa að önnur trúfélög eigi að gefa saman samkynhneigða. Eðli máls samkvæmt er það trúfélaganna sjálfra og á endanum meðlima hvers trúfélags að ákveða hver sé staða samkynhneigðra innan viðkomandi trúar.
Hér gildir sú regla að trúfélög hafa sama vald til að gefa saman fólk og borgaralegir vígslumenn. Þessu er ólíkt farið í mörgum nágrannalöndum okkar þar sem borgaralegir vígslumenn hafa einir vald til að gefa fólk saman. Þeir sem eru trúaðir og það kjósa hafa síðan trúarlega athöfn til að staðfesta samfélag sitt fyrir guði eða stokkum og steinum. Slík athöfn hefur hins vegar enga þýðingu gagnvart ríkinu.
Á meðan hér er þjóðkirkja verður hún að fara að hugmyndum Alþingis og ríkisvaldsins um lög og rétt. Það er án efa súrt epli að bíta í fyrir marga presta að samband samkynhneigðra eigi að hafa sömu stöðu og samband gagnkynhneigðra. Veraldlegar hugmyndir um jafnrétti hljóta hins vegar að hafa forgang alls staðar þar sem veraldlegu valdi er beitt.
Ef þjóðkirkjan hefði sömu stöðu og önnur trúfélög hér á landi yrði henni í sjálfvald sett hvort samkynhneigðir hlytu þar heilaga blessun eða ekki. Það væri þá hlutverk meðlima kirkjunnar að ákveða hvernig hún hagaði sínum málum. Sem ríkisstofnun er hins vegar ljóst að kirkjan ræður ekki sjálf för þegar kemur að réttarstöðu samkynhneigðra.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020