Að undanförnu hefur verið mikil umræða um ál iðnaðinn á Íslandi. Hvort við eigum að byggja fleiri álver og eða stækka núverandi. Í dag eru tvö álver á landinu og það þriðja í byggingu. Álverið í Straumsvík er stærra af þeim sem starfandi eru í dag en hitt er staðsett á Grundartanga. Austfirðingar fá síðan sitt álver þegar álverið á Reyðarfirði verður gangsett. Ásamt því að reisa nýtt álver á austurlandi er nú unnið að stækkun álversins á Grundartanga. Það liggur því fyrir að árið 2008 verður búið að auka framleiðslugetu álvera á Íslandi úr 270 þúsund tonnum í 760 þúsund tonn.
Á síðasta ári voru framleidd 23,4 milljónir tonna af áli í heiminum. Hefur framleiðslan aukist frekar stöðugt undanfarin ár og þá aðallega vegna aukinnar eftirspurnar í Asíu, með Kína í broddi fylkingar. Á Íslandi eru nú framleidd um 270 þúsund tonn sem gera um 1,2% af heimsframleiðslu. Þegar framkvæmdunum fyrir austan og á Grundartanga verður lokið verða um 3% af heimsframleiðslu áls hér á landi.
Ýmsir hafa haldið því fram að þá verði nóg komið en samt eru á teikniborðinu þrjár hugmyndir í viðbót. Ein þeirra og líklega sú þeirra sem komin er lengst á teikniborðinu er stækkun álversins í Straumsvík. Þar ætlar fyrirtækið sér að auka framleiðslugetu verksmiðjunnar um sem nemur heildarframleiðslu á landinu í dag. Hinar hugmyndirnar eru bygging álvers á Suðurnesjunum og annað á Norðurlandi. Ef ráðist verður í allar þessar framkvæmdir verður Ísland orðinn einn helsti álframleiðandi í heiminum með um 5% af heildarframleiðslu.
Ef af stækkuninni í Straumsvík verður, þá verður verksmiðjan ein sú stærsta í heiminum. Staðsett svo gott sem í sjálfri höfuðborginni.
Árið 2008 verður álútflutningur frá Íslandi orðinn þrefaldur miðað við það sem hann er í dag. Hlutfall álútflutnings af vöruútflutningi landsins verður þá orðið 40%. Þá má í raun segja að ál hafi tekið við af þorskinum þegar þorskútflutningur var um 40% af vöruútflutningi, en það var um 1980. Ef stjórnvöld halda áfram á þessari braut er helst hægt að jafna því við ástandið sem ríkti á áttunda áratugnum með skuttogaravæðingu fiskiskipaflotans.
Hátt gengi krónunnar, sem er að einhverju leiti vegna stóriðjustefnu stjórnvalda, hefur gert starfsemi annarra útflutningsfyrirtækja mun erfiðari en ella. Því er hætt við því að þegar uppbyggingunni er lokið þá muni útflutningur minnka sem hlutfalla af landaframleiðslu í einhver ár eins og sagan sýnir okkur.
Heimildir:
International Aluminum Institute – www.world-aluminium.org
Hálffimm fréttir Kaupthing banka
Vegvísir Landsbankans
www.alcan.com
www.alcoa.com
- Svartur blettur á íslenskri íþróttasögu - 16. júní 2006
- Erum við skynsöm? - 6. apríl 2006
- Er álið málið? - 5. febrúar 2006