Ef ég væri leiðtogi Írans, sem ég er því miður ekki, mundi ég eflaust reyna að koma mér upp kjarnorkuvopnum – eða minnsta kosti getunni til að geta komið mér upp kjarnorkuvopnum með mjög skömmum fyrirvara. Og ráðamenn í Teheran virðast hafa komist að sömu niðurstöðu. Af hverju?
Kjarnorkudeilan við Íran á sér langa sögu. Í um tuttugu ár hafa Íranir stundað blekkingar og lygar um kjarnorkuáætlanir sínar. Evrópuríkin Bretland, Frakkland og Þýskaland hafa í meira en tvö ár – með stuðningi Bandaríkjanna – boðið klerkastjórninni í Íran sanngjarnan samning; að Íran hætti öllum tilraunum sínum til auðgun úrans og fái í staðinn tæknilega aðstoð til að koma sér upp kjarnorkuiðnaði í friðsamlegum tilgangi, ásamt því að efnahags- og stjórnmálasamskipti yrðu aukin við stjórnvöld í Teheran. Íranir hafa hins vegar hvorki viljað samþykkja tilboð Evrópuríkjanna né heldur miðlunartillögu Rússa um að þeir mundu taka að sér að auðga úranið fyrir Írani. (Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) ákvað því í dag, með miklum meirihluta atkvæða, að vísa deilunni um kjarnorkuáætlun Írans til öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna)
Allt rennir þetta frekari stoðum undir það að lítið sé til í þeim fullyrðingum Írana að kjarnorkuáætlun landsins miði eingöngu að friðsamlegri nýtingu kjarnorku en ekki að þróun kjarnorkuvopna. Og það ætti heldur ekki að koma neinum á óvart; það eru skynsamar ástæður sem liggja að baki ákvörðun Írana um að koma sér upp trúverðugri fælingu sem í kjölfarið mundi bæta strategíska stöðu þess og öryggi á svæðinu.
Enda þótt brjálæðislegar yfirlýsingar Mahmoud Ahmadinejad, forseta Írans, í garð Ísraels bendi til annars, þá er Ísrael og kjarnorkugeta þess ekki aðalástæðan fyrir kjarnorkuáætlun Írans. Upphaflega var meginástæðan fyrir kjarnorkuáætlun Írans sú ógn sem landinu stafaði af Írak og Bandaríkjunum. Írönsk stjórnvöld ályktuðu líka sem svo eftir innrás Bandaríkjanna í Írak 2003, að eina leiðin til að fæla Bandaríkin frá innrás í landið væri að koma sér upp kjarnorkuvopnum; ef þú átt kjarnorkuvopn, eins og Norður-Kórea, þá muni nefnilega ekki vera ráðist á þig, en ef þú átt ekki kjarnorkuvopn, eins og Írak, þá muni verða ráðist á þig. Á síðustu árum hafa áhyggjur Írans af óstöðugleika í Pakistan, sem býr yfir kjarnorkuvopnum, einnig haft mikið að segja.
Fyrir Íran eru kjarnorkuvopn því fyrst og fremst vopn sem veitir þeim fælingarmátt gagnvart margvíslegum hættum á svæðinu. Og Íran skilur líka, alveg eins og önnur ríki sem búa yfir kjarnorkuvopnum, að þau eru til að eiga – en ekki til að nota eða gefa frá sér. Mesta hættan er því ekki sú að Íran myndi beita þessu vopni í framtíðinni gegn t.d. Ísrael, Sádi-Arabíu, eða hvaða öðru landi sem er. Hættan væri fremur að hinir róttæku leiðtogar Írans þyrftu ekki lengur að hræðast jafn mikið að styðja við hryðjuverkastarfsemi á svæðinu vegna hættu á hernaðarhefndaraðgerðum Bandaríkjanna eða annarra ríkja – fælingarmáttur kjarnorkuvopna sæi til þess.
Önnur bein afleiðing af því ef Íran nær að þróa kjarnorkuvopn væru þau dómínó áhrif sem það hefði á svæðinu. Egyptaland, Sádi-Arabía og Tyrkland væru öll líkleg til að fylgja í fótspor Írans og koma sér upp kjarnorkuvopnum; fjölgun kjarnorkuvopnaríkja mun næstum óhjákvæmilega leiða af sér enn fleiri kjarnorkuvopnaríki, sem mundi skapa gríðarlega spennu í alþjóðakerfinu. En meginmarkmið NPT-samningsins er einmitt að koma í veg fyrir slíka atburðarás.
En þrátt fyrir að rökréttir útreikningar séu fyrir ákvörðun íranskra leiðtoga að koma sér upp kjarnorkuvopnum, þá þýðir það vitaskuld ekki að Vesturveldin eigi að leyfa þeim að komast upp með það afskiptalaust. Öðru nær. Aftur á móti eru því miður ekki margir góðir kostir í stöðunni.
Sá möguleiki sem oft er nefndur til sögunnar, að Bandaríkin (eða Ísrael) geri loftárásir á kjarnorkustöðvar Írans, hefur þann ókost að mjög ólíklegt er að það myndi skila tilætluðum árangri, þ.e. að stöðva kjarnorkuáætlanir Írans – mesta lagi fresta þeim í nokkur ár. Bandaríkin búa ekki yfir fullkomnum leyniþjónustuupplýsingum og Íranir hafa einnig grafið sumar kjarnorkustöðvar sínar neðanjarðar. Loftárás á Íran hefði líka án efa þau áhrif að almenningur í Íran mundi fylkja liði við núverandi stjórnvöld í landinu – og enn meiri sátt skapist í kjölfarið um að Íran ætti að koma sér upp kjarnorkuvopnum.
En hvað með allsherjarinnrás í landið? Auðvitað munu Bandaríkin aldrei útiloka þann möguleika – slíkt væri einfaldlega heimskulegt – en að sama skapi er erfitt að sjá Bandaríkin hætta á að lenda í sömu aðstæðum og þau eru nú í Írak, auk þess sem Bandaríkin hafa ekki nægan mannskap sem slík innrás þyrfti á að halda. Og flestir sérfræðingar telja að enn séu um 5-10 ár í að Íran verði komið með fullbúna kjarnorkusprengju og því er enn nægur tími til að reyna aðrar leiðir heldur en að ráðast á Íran með hervaldi.
Á þessum tímapunkti er því rétt hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnunni að vísa deilunni til öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna og hóta Írönum alvarlegum refsiaðgerðum ef stjórnvöld í Teheran hætta ekki við kjarnorkuáætlun sína. Vesturveldin eiga að virða að vettugi hótanir Írans um að ætla að bregðast við með því að draga sig útaf olíumarkaðnum, sem mundi leiða til verðhækkana á olíu. Eins og Ivo H. Daalder og Philip H. Gordon hjá Brookings hugveitunni hafa bent á, þá verða Bandaríkin og Evrópa einfaldlega að vera tilbúin til að taka þeim afleiðingum ef þau vilja í raun og veru koma í veg fyrir að Íran þrói kjarnorkuvopn. Ef ekki þá hefur Ahmadinejad rétt fyrir sér þegar hann heldur því fram að „Vesturlönd þarfnist Íran meira en Íran þarfnast Vesturlanda.“
Og þegur allt kemur til alls þá er það einmitt það sem Vesturveldin verða að sýna klerkastjórninni í Íran fram á – að þau þarfnist Vesturlanda. Nema þau hafi sérstakan áhuga á að fylgja í fótspor Norður-Kóreu.
- Hvenær mun kínverska hagkerfið fara fram úr hinu bandaríska? - 21. ágúst 2008
- Af hverju kapítalismi leiðir ekki endilega til lýðræðis - 15. ágúst 2008
- Annað tækifæri - 12. janúar 2008