Umsátrið um Sarajevó

Þegar Bosnía-Herzegovina lýsti yfir sjálfstæði frá Sambandslýðveldi Júgóslavíu þann 5. apríl 1992 réðust Serbar á landið með aðstoð serbneska minnihlutans í landinu. Þann 2. maí 1992 hófu hersveitir Serba algjört umsátur um Sarajevó, höfuðborg Bosníu. Voru allir vegir til borgarinnar blokkaðir og komið í veg fyrir sendingar með matvæli og lyf. Skrúfað var fyrir vatn, hita og rafmagn í borginni.

Þegar Bosnía-Herzegovina lýsti yfir sjálfstæði frá Sambandslýðveldi Júgóslavíu þann 5. apríl 1992 réðust Serbar á landið með aðstoð serbneska minnihlutans í landinu. Þann 2. maí 1992 hófu hersveitir Serba algjört umsátur um Sarajevó, höfuðborg Bosníu. Voru allir vegir til borgarinnar blokkaðir og komið í veg fyrir sendingar með matvæli og lyf. Skrúfað var fyrir vatn, hita og rafmagn í borginni.

Eins og á flestum stöðum í Bosníu hafði verið serbneskur minnihluti í borginni (29.9% af íbúum borgarinnar). Þegar umsátrið hófst gengu fjölmargir þeirra til liðs við umsátursmennina og hófu að valda fyrrverandi samborgurum sínum og nágrönnum ómældum þjáningum.

Sarajevó hafði áður verið þekktust fyrir að vera borgin þar sem heimsstyrjöldin fyrri hófst með morðinu á Frans Ferdinand og fyrir það að þar voru haldnir vetrarólympíuleikar árið 1984. En með stríðinu varð hún brátt þekkt á ný um alla heimsbyggðina sem borgin sem Serbar voru að sprengja í tætlur með stórskotaliði, borgin þar sem serbneskar leyniskyttur skutu niður alla óbreytta borgara sem þeir komust í tæri við.

Leyniskyttur í launsátri

Serbar komu fljótt upp leyniskyttum í hæðunum í kringum borgina sem skutu á allt sem hreyfðist innan hennar. Þrátt fyrir að vera leyniskyttanna í hæðunum væri vissulega vandamál þá var öllu verra að sumir serbneskir íbúar Sarajevó sem enn dvöldust innan borgarinnar sáu ástæðu til þess að gerast einnig leyniskyttur. Ferðuðust þessir serbnesku íbúar Sarajevó í hópum innan borgarinnar og áttu eðli málsins samkvæmt mun auðveldara með að finna skotmörk en leyniskytturnar í hæðunum.

Það verður seint hægt að ásaka leyniskytturnar í Sarajevó um að hafa farið í manngreiningarálit við iðju sína. Það skipti einfaldlega engu máli hvort um var að ræða menn, konur eða börn, allir voru skotnir niður. Skutu leyniskytturnar jafnt á kornabörn, fólk sem beið í röðum eftir mat, fólk sem var að reyna að bjarga særðum einstaklingum, sjúkraflutningamenn, slökkviliðsmenn sem og starfsmenn Sameinuðu þjóðanna og annarra mannúðarsamtaka. Sem dæmi má nefna að talið er að 3500 börn hafi verið skotin af leyniskyttum á þessum tíma í Sarajevó.

Rétt er að geta þess að þegar leyniskyttum er beint gegn saklausum borgurum þá flokkast það undir stríðsglæpi skv. Genfarsáttmálanum. Hver sem fyrirskipar slíkt eða persónulega framkvæmir slíkan verknað er ábyrgur.

Stanslaus sprengjuhríð

Serbar höfðu komið upp stórskotaliði á hæðunum í kringum borgina. Ekki er hægt að henda nákvæmlega reiður á fjölda vígtóla á svæðinu en talið er ljóst að um 600-1100 stórskotaliðsbyssur hafi verið í kringum borgina ásamt miklum fjölda af skriðdrekum og sprengivörpum. Skothríð Serba á borgina var stanslaus.

Í rannsókn Sameinuðu þjóðanna á umsátrinu (Final report of the United Nations Commission of Experts established pursuant to Security Council Resolution 780 (1992).) kemur fram að 329 sprengjum hafi að meðaltali verið varpað á borgina á hverjum einasta degi sem umsátrið varaði. Mest var 3.777 sprengjum varpað á borgina þann 22. júlí 1993.

Vinsælasta skotmarkið var spítalinn í borginni en einnig var oft ráðist á miðbæinn, sjónvarpsstöðina, aðalbakarí borgarinnar, Holiday Inn (þar sem flestir blaðamennirnir bjuggu), flugvöll borgarinnar og ýmsar aðrar byggingar sem voru mikilvægar fyrir daglegt líf borgarbúa. Fyrir utan þessa vinsælu staði þá stunduðu Serbar það einnig að bomba borgina af handahófi. Þannig urðu t.d. skólar, íþróttavellir, útimarkaðir og staðir þar sem fólk beið í röðum eftir mat eða annarri aðstoð oft fyrir barðinu á hörðum árásum.

Það er merkilegt að í skýrslu Sameinuðu þjóðanna er minnst á að áberandi munur hafi verið á því hvenær sprengt var. Þannig var meira skotið á nóttunni heldur en á daginn og einnig var áberandi meira skotið um helgar. Skýrðist það af því að umsátursmennirnir bjuggu margir í Sarajevó eða nágrenni og þurftu að mæta í vinnunni á daginn en stunduðu hins vegar árásir á samborgara sína og nágranna á nóttunni og um helgar. Því miður þá hafði þetta einnig í för með sér að umsáturmennirnir þekktu borgina sjálfa og borgarlífið allt of vel þegar kom að því að finna skotmörk og kostaði sú þekking fjölmörg mannslíf.

Rétt er að geta þess að slíkar stórskotaliðsárásir sem beint er gegn saklausum borgunum flokkast undir að vera stríðsglæpur skv. Genfarsáttmálunum ef ljóst þykir að viðkomandi árás er ekki hernaðarleg og beinist mestmegnis gegn saklausum borgunum. Hver sá sem fyrirskipar slíkt eða framkvæmir slíkan verknað er ábyrgur.

Markale markaðstorgið

Þann 5. febrúar 1994 lenti sprengja á þéttskipuðu markaðstorgi í miðbæ Sarajevó með þeim afleiðingum að 68 manns létust og yfir 200 særðust.

Vakti þetta athygli heimsins á þeim alvarlegu hlutum sem voru að eiga sér stað í Sarajevó og Bosníu. Að frumkvæði Bill Clintons þáverandi Bandaríkjaforseta, voru Serbum gefnir úrslitakostir þann 9. febrúar 1994. Þeir áttu að hörfa frá borginni með allt sitt hafurtask innan 12 daga. Að öðrum kosti myndi NATO hreinsa hæðirnar í kringum borgina með stórfelldum loftárásum. Urðu Serbar við þessum afarkostum og þann 20. febrúar 1994 lýsti NATO því yfir að ekki þyrfti að grípa til loftárása. Umsátrið hélt hins vegar áfram til stríðsloka þótt árásunum væri að mestu hætt.

Umsátrið um Sarajevó er talið vera lengsta umsátur nútímahernaðar. Það stóð frá 5. apríl 1992 til 29 febrúar 1996. Talið er að 12.000 manns hafi verið drepin á meðan á umsátrinu stóð og yfir 50.000 manns særst.

Endurreisn

Árið 2003 dæmdi Alþjóðasakamáladómstóllinn fyrir Júgóslavíu Stanislav Galic hershöfðingja, í 20 ára fangelsi fyrir þátt sinn í skipulagningu umsátursins en hann stjórnaði sveitunum í kringum borgina mest allan tímann sem það varaði. Sagði ákæruvaldið meðal annars að Serbarnir hefðu varpað borginni í miðaldarhelvíti á meðan 43 mánaða umsátrinu stóð. Árið 2004 hófust síðan réttarhöld yfir Dragomir Milosevic fyrir hans þátt í umsátrinu en hann stjórnaði því undir lokin.

Í Sarajevó hefur mikil endurbygging hefur átt sér stað. En sumt verður ekki lagað með sakfellingum eða steinsteypu. Áhrifin sem umsátrið hafði á íbúa borgarinnar verður líklega aldrei bætt, sérstaklega áhrifin á æsku borgarinnar. Í könnun sem UNICEF gerði kom í ljós að 40% allra barna í borginni höfðu lent í að skotið væri á þau, 51% barnanna hafði séð einhvern drepinn fyrir framan sig og 39% hafði orðið vitni að drápi á einum eða fleiri fjölskyldumeðlimum. Þessir erfingjar borgarinnar verða líklega flestir skemmdir það sem eftir er af ævi þeirra.

Þrátt fyrir að umsátrið hafi endað fyrir mörgum árum síðan er ljóst að það mun taka tugi eða hundruði ára að bæta þann skaða sem hatrið og miskunnarleysið olli.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.