Enn einu sinni hefur það gerst að upp hafa komið athugasemdir við framkvæmd kosninga í stjórnmálaflokki hérlendis. Nú beinast sjónir manna að framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu í prófkjöri Framsóknarmanna í Reykjavík. Herma fregnir að þar hafi pottur verið brotinn.
Í þessum pistli verður ekki tekin afstaða til þess hvort og þá hvað kann að hafa farið úrskeiðis við framkvæmd áðurnefndrar atkvæðagreiðslu og hvort hallað hafi á einhvern eða einhverja frambjóðendur þar öðrum fremur. Hér er eingöngu ætlunin að víkja að kosningum innan stjórnmálaflokka almennt og framkvæmd þeirra.
Það er engum vafa undirorpið að afar mikilvægt er að við framkvæmd hvers kyns kosninga, hvort sem er í stjórnmálaflokkum eða öðrum félögum, séu hafðar í heiðri viðurkenndar og réttmætar aðferðir og farið að þeim leikreglum og viðmiðum sem viðhafa ber til að kosningar geti talist lýðræðislegar. Þannig verður framkvæmdin að vera gagnsæ og með þeim hætti að allir frambjóðendur geti átt þar kost að fylgjast með, allt í senn við undirbúning, framkvæmd og talningu. Yfir vafa verður að vera hafið að á engan hafi hallað við framkvæmd kosninganna.
Margoft hefur það gerst að hallað hafi á einn eða fleiri frambjóðendur við framkvæmd kosninga í stjórnmálaflokkum hérlendis, hvort sem er í prófkjörskosningum, stjórnarkjörum eða öðru. Af ýmsu er að taka í þeim efnum og fjölmörg dæmi, án þess að þau verði nefnd hér, úr öllum stjórnmálaflokkum þar sem farið hefur verið á svig við reglur við framkvæmd innanflokkskosninga.
Það er ákveðinn prófsteinn á stjórnmálaflokka að í þeirra ranni geti farið fram lýðræðislegar kosningar þar sem allar reglur um framkvæmd eru í heiðri hafðar. Flokkar sem halda því fram að þeir viðhafi heiðarleg og lýðræðisleg vinnubrögð í valdastöðum, hvort sem er á Alþingi eða sem handhafar framkvæmdavalds, geta ekki látið það óliðið að annars konar vinnubrögð séu látin viðgangast innan þeirra eigin flokksfélaga og flokksstofnana. Þá missa þeir trúverðugleikann.
Það er vandasamt að framkvæma kosningar þannig að réttra leikreglna sé að öllu leyti gætt og á engan sé hallað. Það er líklega vandasamara en hitt. Engu að síður er mikið til unnið að framkvæmd kosninga sé yfir vafa hafin. Sé svo geta frambjóðendur staðið upp að kosningum loknum í þeirri trú að þeir hafi unnið, eða tapað, á réttmætum forsendum og að kjör þeirra og umboð verði ekki dregið í efa. Fátt er sárara en að tapa í kosningum þar sem vitað er að rangt var haft við.
Nú standa sveitarstjórnarkosningar fyrir dyrum og alþingiskosningar verða eftir rúmt ár. Prófkjör og innanflokkskjör í aðdraganda þessara beggja kosninga og framkvæmd þeirra eru ákveðinn prófsteinn á þá flokka sem bjóða fram. Mjög mikilvægt er að þar verði vandað vel til verka og farið að réttum leikreglum í hvívetna. Að öðrum kosti kann trúverðugleiki stjórnmálaflokkanna, hvers um sig og almennt, að bíða hnekki í augum almennings.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006