Heimild: www.hhi.is
|
Sum mál eru þess eðlis að nauðsynlegt er að draga þau fram annað slagið til þess að halda mönnum við efnið. Málefni Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ) eru einmitt af þessum toga og þá sérstaklega það gjald sem Happdrættið þarf að greiða ríkissjóði á hverju ári fyrir það eitt að hafa einkaleyfi á því að starfrækja peningahappdrætti á Íslandi.
Sú staðreynd að Happdrætti Háskólans hafi einkaleyfi til rekstrar peningahappdrættis á Íslandi kann að koma einhverjum í opna skjöldu því vissulega eru fleiri slík happdrætti á landinu. Ekki er ætlunin að ráðast að þeim, heldur er málið að lagasetningu er stórlega ábótavant.
Í lögum um HHÍ segir meðal annars: „Leyfishafi greiði í ríkissjóð 20% af nettóársarði í einkaleyfisgjald.“ Jafnframt mælir svo fyrir í lögunum að ágóða happdrættisins skuli varið til þess að reisa byggingar á vegum Háskóla Íslands, viðhalda þeim og háskólalóðinni ásamt því að greiða fyrir ýmsar rannsóknir og þau tæki sem Háskólinn telur nauðsynlegt að eignast.
Framlag HHÍ til Háskólans á síðasta ári var um 600 milljónir króna og er því gríðarleg búbót fyrir skólann, sem hefur um nokkurt skeið átt í umtalsverðum fjárhagserfiðleikum vegna mikillar fjölgunar nemenda á skömmum tíma. Væri einkaleyfisgjaldið afnumið gætu tekjur Háskólans af Happdrættinu hins vegar aukist um allt að 150 milljónir eða 25% og fyrir stofnun á borð við Háskólann sem er í jafnmiklum fjárhagsvanda og raun ber vitni skiptir þessi upphæð öllu máli.
Rök þeirra sem eru fylgjandi einkaleyfisgjaldinu og bera hag Háskólans ekki fyrir brjósti eru gjarnan þau að gjaldið renni í Tækjasjóð og að úr Tækjasjóði geti stofnanir og deildir HÍ sótt um styrki þannig að skólinn fái þetta fé að nokkru leyti til baka. Þetta er þó frekar veikur málstaður því öllum er frjálst að sækja um í Tækjasjóð og enn fremur eru engin rök fyrir því að einu tekjur hans skuli koma frá Happdrætti Háskólans.
Í raun eru aðeins tveir leiðir færar til þess að greiða úr þessu máli. Annað hvort mætti breyta lögum um Happdrætti Háskólans á þann veg að einkaleyfisgjaldið væri afnumið með öllu. Þetta gæti þó komið illa við Tækjasjóð sem minnst var á hér að ofan og því sjálfsagt að taka það með í reikninginn. Til þess að koma til móts við þetta sjónarmið mætti einfaldlega skipta einkaleyfisgjaldinu milli allra happdrætta landsins, enda fásinna að HHÍ sé krafið um gjald af þessu tagi þegar önnur happdrætti eru laus við það. Þannig myndi Tækjasjóður ekki missa tekjugrunn sinn og það óréttlæti sem Happdrætti Háskólans býr nú við væri horfið. Af þessum tveimur kostum væri sá fyrrnefndi vissulega betri, en sá síðarnefndi þó ef til vill fýsilegri.
Í erfiðum málum sem þessu er mikilvægt að stúdentar og Háskólayfirvöld standi saman og þrýsti á stjórnvöld að gera breytingar. Rödd stúdenta er sjaldan mikilvægari en í slíkum aðstæðum og því nauðsynlegt að hún sé hávær og öflug. Í vetur hefur þetta því miður ekki verið raunin en Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur líklega sjaldan verið jafnlítið áberandi í umræðunni og árangurinn eftir því.
Háskólastúdentar verða að nýta tækifærið og breyta þessu í næstu kosningum til Stúdentaráðs og Háskólaráðs sem fara fram 8. og 9. febrúar næstkomandi. Lykilatriði er að nýta atkvæðisrétt sinn og hafa áhrif. Vaka er ein þeirra fylkinga sem býður nú fram til Stúdentaráðs og hefur gert það í áratugi. Undanfarin ár hafa baráttuaðferðir Vöku skilað miklum árangri, sérstaklega þar sem Vökufólk er meira gefið fyrir að láta verkin tala. Í hagsmunabaráttu stúdenta er það árangurinn sem skiptir máli og þar hefur Vaka vissulega vinninginn.
- Siðlaust guðlast - 5. september 2007
- Þess vegna er Laugavegurinn dauður - 6. mars 2007
- Hvað á RÚV að þýða? - 12. febrúar 2007