Þrjú bankauppgjör eru komin í hús í Kauphöllinni og öll voru þau góð. KB banki, Landsbankinn og Straumur-Burðarás hafa birt afkomutölur fyrir síðasta ár og síðasta ársfjórðung og aðeins Íslandsbanki á eftir að birta sitt sem kemur í næstu viku. Samanlagður hagnaður þessara þriggja fjármálafyrirtækja er um eitt hundrað milljarðar króna.
Það er hreint ótrúlegur kraftur í bönkunum og langt síðan að einhver þeirra hefur valdið vonbrigðum. Þar sem þrír til fjórir ársfjórðungar hafa liðið með þessum hætti verður vart annað sagt en að markaðurinn hafi vanmetið bankanna og þann vöxt hefur farið fram annars innan og utan veggja þeirra.
Bankarnir hafa vaxið það mikið á Íslandi að frekari vöxtur verður vart hér. Stjórnendur þess gera sér það ljóst að áframhaldandi vöxtur, af því stigi sem við höfum séð, næst aðeins utanlands. Tækifæri til vaxtar er að finna um alla Evrópu og hafa íslenskir bankar ýmislegt fram yfir erlend fjármálafyrirtæki. Til dæmis er skandinavískur fyrirtækjakúltúr að mörgu leyti svifaseinn og gamaldags. Ættir, valdablokkir og þröngsýnir stjórnendur ríkislífeyrissjóða eru oft áberandi í stjórnun stórfyrirtækja þar sem stjórnunarhættir minna meira á miðalda konungsríki en nútíma fyrirtæki sem vinnur að hámarksarðsemi hluthafa. Við sjáum hvað íslensku bönkunum hefur tekist vel að fóta sig á þessum slóðum og eiga ekki í erfiðleikum að glíma við stærri andstæðinga.
Tekjur KB banka erlendis frá eru komnar í 75 prósent af heildartekjum. Það verður ekki langt að bíða þar til aðeins brot af tekjum viðskiptabankanna og Straums myndist á Íslandi.
Það er ekki einungis bankamenn og eigendur bankanna sem fagna þessari niðurstöðu. Skatturinn og ríkið skála, enda eru skatttekjur um 18 milljarðar frá þessum þremur fjármálafyrirtækjum og við bætist Íslandsbanki í næstu viku. Sú ákvörðun á sínum tíma að færa skatta fyrirtækja úr 30% í 18% er gott dæmi um það að lækkun skatta bæti hag skattgreiðenda og ekki síður samfélagsins.
Margir velta því fyrir sér nú þegar Úrvalsvísitalan hefur hækkað um fimmtán prósent á tæpum einum mánuði (sem víða þætti góð ársávöxtun) hvort veislan sé brátt á enda. Svo oft hefur verið spáð veislulokum og timburmönnum. Í upphafi árs spáðu greiningardeildirnar að hækkun hlutabréfamarkaðarins myndi verða á bilinu 12-26%. KB banki var bjartsýnastur allra og spáði vísitölunni í sjö þúsund stigum fyrir árslok en nú er hún komin í 6.350 stig. Það er 800 stiga hækkun frá ársbyrjun. Að öllu óbreyttu ætti vísitalan að fara yfir hina bjartsýnu spá Kaupþingsmanna í næsta mánuði!
- Íslenskir bankar og útlendingar - 22. júní 2021
- Hitnar í ofnunum - 21. apríl 2021
- Kynslóðaskipti í sjávarútvegi - 22. mars 2021