Fyrir um fjörutíu árum var áhugi kínverskra stjórnvalda á Afríku tilkominn vegna væntinga um að þjóðir Afríku væru mótttækilegar fyrir byltingarkenndri hugmyndafræði kommúnista. Zhou En-lai, þáverandi forsætisráðherra Kína, sagði í ræðu sem hann hélt í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, árið 1964, að „byltingarhorfur væru frábærar hvarvetna í Afríku.“
En tímarnir breytast og núna er það ekki einhver tiltekin hugmyndafræði sem ræður stefnu kínverskra stjórnvalda, heldur pragmatík. Á síðustu árum hefur Kína í auknum mæli farið að snúa sér til Afríku til að fullnægja þeirri gríðarlegu orkuþörf sem hinn hraði efnahagsuppgangur í Kína kallar á. Í síðustu viku heimsótti utanríkisráðherra Kína, Li Zhaoxing, sex afríkuþjóðir í þeim tilgangi að bæta stöðu Kína í álfunni. Heimsóknin kemur í kjölfarið á því að kínverska ríkisfyrirtækið CNOOC keypti 45% hlut í olíusvæði í Nígeríu fyrir 2,27 milljarða dollara.
Utanríkisstefna Kína er um þessar mundir drifin áfram af þeirri gegndarlausu orkuþörf sem kínverska hagkerfið þarfnast, eins og David Zweig og Bi Jianhai halda fram í greininni „China’s Global Hunt for Energy“ í Foreign Affairs. (sept/okt 2005) Kína er annar stærsti olíuinnflytjandinn í heiminum á eftir Bandaríkjunum, og er hlutur Kína í aukinni eftirspurn eftir olíu á heimsmarkaði um 40% á síðustu fjórum árum. Það er er því ekki að undra að Kína sé farið að láta sig Afríku meira varða en áður; Kína flytur inn tæplega 29% af olíunni sinni frá Afríku, einkum frá Angóla, Súdan og Kongó. Það er aðeins frá Miðausturlöndum sem Kína flytur inn meiri olíu, eða 45% – og það hlutfall fer minnkandi.
En þrátt fyrir að aðgangur að olíu og annarri orku sé meginástæðan fyrir endurnýjuðum áhuga Kína á Afríku, þá er líka margt annað sem kemur til. Afríka er einnig í sívaxandi mæli orðin markaður fyrir vörur frá Kína. Viðskipti milli Kína og Afríku hafa aukist mikið; frá 10 milljörðum dollara árið 2000 til 20 milljarða dollara árið 2004. Og á fyrstu tíu mánuðum ársins 2005 jukust viðskiptin um 39%, upp í tæplega 33 milljarða dollara. Kína er allt í einu orðið að þriðju mikilvægustu viðskiptaþjóð Afríku, á eftir Bandaríkjunum og Frakklandi. Í ljósi þess hversu hratt og á stuttum tíma þetta hefur átt sér stað, er þessi þróun mjög eftirtektarverð.
Hvernig hefur Kína eiginlega farið að þessu? Með því að eiga í öflugum stjórnmálasamskiptum, (Kína er í formlegum stjórnmálasamskiptum við 47 af 53 þjóðum Afríku) bjóða upp á viðskiptasamninga, niðurfellingu skulda og margvíslega efnahagsaðstoð – allt í einum pakka. Og þessi stefna er að ganga upp. Elizabeth Economy, sérfræðingur um Kína, tekur sem dæmi þá samninga sem kínversk stjórnvöld hafa gert við Angóla, sem flytur 25% af olíuframleiðslu sinni til Kína. Ráðamenn í Peking hafa tryggt sér þennan stóra hlut í olíuframleiðslu Angóla með 2 milljarða dollara pakka af lánum og efnahagsaðstoð, sem felur í sér fjármagn fyrir kínversk fyrirtæki til að byggja m.a. skóla, spítala, brýr, vegi og járnbrautateina í landinu.
Annað sem hefur hjálpað kínverskum stjórnvöldum í velgengni sinni í Afríku, er sameiginlegt gildismat Kína og margra ríkisstjórna í Afríku – sérstaklega hvað varðar mannréttindi og fullveldi. Kínverjar hafa heldur ekki hikað við að selja nánast hvaða ríkisstjórn sem er vopn, í skiptum fyrir hagstæða olíusamninga. Þetta hefur einnig leitt til þess að Kína hefur öðlast mikilvæga bandamenn innan Sameinuðu þjóðanna, – t.d. Súdan, Zimbabwe og Nígeríu – sem í kjölfarið hjálpar Kínverjum í að ná fram pólitískum markmiðum sínum á alþjóðavettvangi; koma í veg fyrir að Taívan verði sjálfstætt ríki og draga athygli frá sínum eigin mannréttindabrotum heima fyrir. Vopnasala Kínverja er því mikilvægt tæki til að ná fram markmiðum utanríkisstefnu sinnar, eins og hægt er að lesa sér til um í skýrslu Daniel Byman og Roger Cliff, „China´s Arms Sales: Motivations and Implications,“ fyrir RAND hugveituna.
Það er auðvitað margt sem hægt er að gagnrýna við framgöngu Kína í Afríku. Með því að eiga í umfangsmiklum viðskiptum og stjórnmálasamskiptum við stjórnvöld í t.d. Súdan og Zimbabwe, eru Kínverjar um leið að grafa undan refsiaðgerðum Vesturlanda til að reyna bæta mannréttindi í þessum löndum. Kína hefur hingað til virt þessa gagnrýni að vettugi og svarað því til, að þau blandi ekki saman viðskiptum og stjórnmálum. Kína setur sjaldan einhver pólitísk eða efnahagsleg skilyrði fyrir efnahagsaðstoð sinni og á því auðvelt með höfða til fjölmargra afrískra leiðtoga sem Vesturlönd vilja ekki eiga í samskiptum við.
Það er samt ekki hægt að horfa fram hjá því að Kína er ekkert eitt um það að gera samninga við einræðisstjórnir og útvega þeim vopn. Bandaríkin veitir til að mynda Egyptalandi, Sádi-Arabíu og Pakistan margvíslegan stuðning, einfaldlega af því að það þjónar strategískum hagsmunum Bandaríkjanna. Og Kína gæti auðveldlega haldið fram sömu rökum í sínu tilfelli.
Á heildina litið hafa aukin tengsl Kína við Afríku á undanförnum árum verið æskileg og um leið óumflýjanleg. Hagvöxtur í Afríku á síðasta ári mældist 5,2%, sem er það mesta í mjög langan tíma og má rekja ástæðuna að hluta til fjárfestinga Kínverja í álfunni. Stuðningur Kína við einræðisstjórnir á borð við Súdan og Zimbabwe er heldur ekki takmarkalaus, eins og bent er á í nýlegri skýrslu sem gefin var út af Council on Foreign Relations, „More than Humanitarianism: A Strategic Approach Toward Africa.“ Eftir að Kína fór að starfa meira innan alþjóðakerfisins, er það ekki lengur jafn ónæmt og áður fyrir almenningsáliti í heiminum. Kína hefur horfið frá skilyrðislausum stuðningi við Súdan og Zimbabwe, og látið undan refsiaðgerðum Sameinuðu Þjóðanna gegn Líberíu. Kína hefur einnig lagt sitt af mörkum til friðargæsluverkefna í Afríku; árið 2004 sendi Kína 1500 friðargæsluliða til Afríku, þar á meðal til Líberíu.
Afríka hefur því almennt hagnast á þessum auknu tengslum við Kína. Hættan er samt sem áður sú, að þetta verði til þess að margar ríkisstjórnir í Afríku hverfi frá nauðsynlegum pólitískum og efnahagslegum umbótum heima fyrir, vegna þess einfaldlega að þær komast upp með það á meðan Kína setur engar slíkar kröfur í samskiptum sínum við þær. Til þess að svo verði ekki raunin, ættu Vesturlönd að sýna álfunni miklu meiri áhuga en hingað til.
- Hvenær mun kínverska hagkerfið fara fram úr hinu bandaríska? - 21. ágúst 2008
- Af hverju kapítalismi leiðir ekki endilega til lýðræðis - 15. ágúst 2008
- Annað tækifæri - 12. janúar 2008