Demantaframleiðsla

Eftirfarandi grein um demantaframleiðslu er ítarefni við grein sem birtist á Deiglunni 20. nóvember 2001

Eftirfarandi grein er ítarefni við grein sem birtist á Deiglunni 20. nóvember 2001.

Demantur er, auk þess að vera vinsæll skartgripur, harðasta efni í heimi. Af þeim sökum er þessi gimsteinn notaður í ýmiss konar iðnað því hann getur skorið öll önnur efni sem til eru. Demantur er úr hreinu kolefni líkt og grafít en með annarri atómuppbyggingu. Grafít hefur mjög veik tengi á milli kolefnisfrumeinda en demantar hafa hins vegar sterka kristalbyggingu atóma sem myndast hefur á löngum tíma í iðrum jarðar við mikinn hita og þrýsting. Það þarf því sérstakar aðstæður til þess demantar myndist í náttúrinni og þess vegna eru þeir sjaldgæfir og þ.a.l. dýrir. Snemma á síðustu öld fóru vísindamenn að gera tilraunir með framleiðslu á þessum eðalsteinum og árið 1955 tókst General Electric að framleiða demant í tilraunastofu. Til þess þurfti gífurlegan þrýsting eða 7 gígapaskal og 1.700°C gráðu hita. Frá 1960 hafa demantar verið framleiddir í tonnavís ár hvert.

Demantar eru einnig bestu hitaleiðarar í heimi og hægt er framleiða þá með eiginleikum hálfleiðara (semi-conductors) og því henta þeir fullkomlega í tölvuframleiðslu. Venjulegir Pentium tölvuörgjörvar hitna mjög mikið og án kæliviftu myndu þeir brenna yfir á tveimur til þremur mínútum. Okkur eru því takmörk sett hversu hraðvirka kísilörgjörva við getum framleitt. Því veðja margir vísindamenn á að demantar verði notaðir í tölvum framtíðarinnar.

Framleiddir demantar eða gervi-demantar (synthetic diamonds) búa reyndar ekki yfir öllum sömu eiginleikum og náttúrulegir demantar en eru engu að síður mjög verðmætir í alls kyns iðnað. Þeir eru mest framleiddir í alls kyns sagarblöð og skurðartól en einnig í rúður á orusturþotur og geimferjur.

Það þarf mjög dýran tækjabúnað til þess að framleiða demanta en jafnframt mikla orku. En það er einmitt það sem Ísland getur boðið upp á – ódýra vistvæna orku. Það er því ekki vitlaust að kanna möguleikana á því að koma upp demantaframleiðslu á íslandi. Það er e.t.v.of seint fyrir Íslendinga að taka þátt í álvæðingunni en það er ekki of seint að taka þátt í demantavæðingunni.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)