Listaháskólann leitar enn að framtíðarhúsnæði og staðsetningu. Listaháskólinn vill – af mjög eðlilegum ástæðum – helst vera staðsettur í hringiðu mannlífs og menningar. Hvar sem listaháskólanum verður fundinn staður þá verður það kærkomin vítamínsprauta fyrir mannlíf og lifandi umhverfi í viðkomandi borgarhluta.
Austurhluta miðborgarinnar – Hlemmsvæðið – þætti ekki ónýtt að fá vítamínsprautu á borð við þá sem listaháskóli gæti reynst. Helst er reynt að kveikja lífi í þetta svæði með fjölgun íbúða og atvinnuhúsnæðis sem eflaust mun gera sitt til að efla svæðið og er jákvætt. En viðbót á formi listaháskóla við þessar áætlanir hljómar rökrétt í ljósi þeirra markmiða sem liggja þar að baki.
Helst er talað um að finna listaháskólanum stað í eða rétt við Kvosina, þeim hluta miðbæjarins sem hvað best stendur hvað varðar mannlíf og öfluga miðborgarstarfsemi og mun fá öfluga vítamínsprautu á formi tónlistarhúss, ráðstefnumiðstöðvar og hótels á næstu árum. Viðbót við þá vítamínsprautu hljómar ekki mjög skynsamlega. Kvosin og vestari hluti miðborgarinnar mun spjara sig vel í náinni framtíð, ekki síst í ljósi þessarar miklu uppbyggingar.
Lögreglan í Reykjavík mun, samkvæmt fréttum undanfarinna vikna, flytjast af núverandi reit við Hverfisgötuna og Hlemm. Húsnæðið er komið til ára sinna, sennilega of lítið fyrir listaháskóla og kallar á endurbætur, en svæðið er vannýtt og uppbyggingarmöguleikar mjög miklir.
Hraðleiðir Strætó frá Hlemmi og niður á Lækjartorg eru heldur vannýttar á meðan Hlemmsvæðið liggur mjög vel við þeim notendahópi samgöngukerfisins sem eru hvað líklegastir til að nota það hvað mest, nefnilega „fátækir listnemar“ og sá nemendahópur sem hvað mesta þörf hafa fyrir góða tengingu við almenningssamgöngur.
Einnig er framboð af nokkuð ódýru leiguhúsnæði líklega nokkuð gott í austurborginni. Jafnframt mætti e.t.v. stefna að því að nýta hluta af uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á svæðinu í meiri mæli undir stúdentagarða en núverandi áætlanir gera til að auka framboð húsnæðis fyrir stúdenta nærri skólanum.
Þegar á botninn er hvolft þá getur Hlemmsvæðið vel þegið kröftuga vítamínsprautu á borð við þá sem starfsemi listaháskóla myndi veita. Af hverju ekki skoða þann möguleika mjög alvarlega að bjóða listaháskólanum reit lögreglustöðvarinnar við Hlemm til afnota og uppbyggingar starfsemi hans á einum stað? Þannig fengi eitt athyglisverðasta svæði miðborgarinnar kærkomna lyftistöng, höfuðvígi strætó fengi kærkomna fjölgun farþega og Listaháskólinn myndi fljótlega verða þess valdandi að umhverfis Hlemm opnaði vænn fjöldi kaffihúsa, second-hand fatabúða og annarri miðborgarstarfsemi. Þannig fengju nemendur Listaháskólans fljótlega það lifandi umhverfi sem þeir að öllum líkindum þrá. Þeir sem eiga það síðan til að flandra dreymandi um miðbæinn í leit að mannlífi fengju sitja á hliðarlínunni og njóta ávaxtanna.
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021