Balkanskagastríðið hófst árið 1991 þegar Króatía og Slóvenía lýstu yfir sjálfstæði gagnvart Sambandslýðveldi Júgóslavíu. Átökin færðust suður á bóginn í apríl 1992 þegar sambandslýðveldið Bosnía-Herzegovina lýsti einnig yfir sjálfstæði. Bandaríkin og ríki Evrópu viðurkenndu strax sjálfstæði Bosníu. Serbía svaraði yfirlýsingunni hins vegar með því að ráðast inn í landið með aðstoð serbneska minnihlutans í Bosníu. Bosníu múslimar áttu við ofurefli að etja og töpuðu stórum landsvæðum til Serba. Hófu Serbar m.a. umsátur um Sarajevó, höfuðborg Bosníu.
Þegar Serbar höfðu náð tangarhaldi á stórum svæðum í Bosníu hófu þeir að safna múslimum kerfisbundið saman á þeim svæðum sem þeir höfðu hertekið. Voru múslimarnir síðan teknir af lífi í fjöldaaftökum, heilu þorpin neydd til að flytjast á brott frá heimilum sínum og voru flestir karlmenn og piltar sem ekki höfðu verið teknir af lífi settir í fangabúðir. Notuðu Serbarnir m.a. kerfisbundnar nauðganir á konum og stúlkum til að hrekja fólkið til að flytjast á brott úr þopum sínum. Þessar aðgerðir Serba falla klárlega undir hópmorð (e. genocide) og þjóðernishreinsanir (e. ethnic cleansing) en þeim var stjórnað af Radovan Karadzic, forseta ólöglegs lýðveldis Bosníuserba og Ratko Mladic, yfirforingja hers Bosníuserba.
Þrátt fyrir ítrekaðar fréttir af fangabúðum, fjöldaaftökum, eyðileggingu á moskvum og öðrum þjóðargersemum Bosníu, gerði alþjóðasamfélagið lítið sem ekki neitt. Sameinuðu þjóðirnar settu efnahagsþvinganir á Serbíu og sendu friðargæslulið á svæðið til að vernda matvæla- og lyfjaúthlutun til almennra borgara. Sameinuðu þjóðirnar bönnuðu hins vegar friðargæsluliðinu að grípa til hernaðaraðgerða gegn Serbum. Skipti engu máli hversu slæmt ástandið varð, alltaf var friðargæsluliðið hlutlaust.
Allt árið 1993 gátu Serbar því áhyggjulaust stundað hópmorð, þjóðernishreinsanir og nauðganir án nokkurra afskipta frá alþjóðasamfélaginu. Staðan breyttist hins vegar þann 6. febrúar 1994 þegar Serbar sprengdu markaðstorg í Sarajevó með þeim afleiðingum að 68 létust og yfir 200 særðust. Við þetta beindist athygli heimsins að ástandinu í Bosníu. Bill Clinton, þá nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hafði lofað að stöðva þjóðernishreinsanirnar í kosningabaráttu sinni. Gaf hann Serbum úrslitakosti um að hörfa frá Sarajevó eða að NATO myndi grípa til aðgerða. Serbar hlýddu eins og skot og vopnahléi var komið á í kringum Sarajevó.
Þetta var hins vegar skammgóður vermir. Serbar héldu áfram að ráðast á aðra bæi og þorp múslima í Bosníu. Ekki nóg með það heldur réðust þeir á sex bæi sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu friðlýst sem “Safe Haven” árið 1993 og voru undir eftirliti friðargæsluliðs samtakanna. Versta atvikið átti sér stað í bænum Srebrenica þar sem Sameinuðu þjóðirnar stóðu aðgerðarlaus hjá þegar Serbarnir, undir stjórn Mladic, smöluðu saman 8000 múslímskum drengjum og mönnum á aldrinum 12 til 60 ára sem voru þar undir vernd Sameinuðu þjóðanna og óku þeim í burtu til slátrunar. Er þetta versta einstaka hópmorð í Bosníu og er einnig talinn versti stríðsglæpur sem hefur verið framinn í Evrópu frá falli Hitlers.
Serbar færðu sig sífellt meira upp á skaftið og réðust á friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna. NATO brást við með loftárásum en Serbar svöruðu því með því að taka hundruð friðargæsluliða sem stríðsfanga. Voru friðargæsluliðarnir hlekkjaðir við ýmiss hernaðarmannvirki og aðra mikilvæga staði í Bosníu. Einnig héldu þeir áfram kerfisbundnum nauðgunum á múslímskum konum og stúlkum.
Þann 30. ágúst 1995 hófust loksins alvöru hernaðaraðgerðir gegn Serbum. NATO, undir forystu Bandaríkjanna, hóf loftárásir á stórskotalið Serba sem svar við fjöldamorðunum í Srebrenica. Loftárásirnar héldu áfram til loka október 1995. Á sama tíma fóru Serbar að tapa stórum landsvæðum til múslima sem höfðu styrkst verulega vegna stórra vopnasendinga og aðstoðar frá hinum islamska heimi. Á endanum náðu múslimar helmingi Bosníu á sitt vald aftur.
Þetta neyddi Serba að samningaborðinu og aðilar skrifuðu undir friðarsamkomulag í nóvember 1995. Var Bosníu skipt upp í Lýðveldi Bosníuserba annars vegar og Samband Króata og múslima hins vegar. Var kveðið á um lýðræðislegar kosningar og að stríðsglæpamenn yrðu framseldir. Voru 60.000 hermenn NATO settir á svæðið til að gæta þess að samkomulaginu yrði framfylgt.
Talið er að yfir 200.000 múslimar hafi verið kerfisbundið drepnir af Serbum í Balkanskagastríðinu. Yfir 20.000 í viðbót eru týndir og taldir af. Að minnsta kosti tvær milljónir manna voru hrakin frá heimilum sínum. Er þetta eitt mesta blóðbað sem Evrópa hefur séð frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020