Menni

Pistlahöfundur er áhugamaður um vélmenni og hefur fylgst lauslega með tilraunum vísindamanna í gegnum árin til þess að skapa „gáfuð” og „nothæf” vélmenni. Ýmsir vísindamenn hafa stigið fram á sjónarsviðið en nú virðist sem þessi grein vísindanna sé að verða að iðnaði með komu Sony, Honda og Mitsubishi inn á markaðinn. Höfundur fór því að velta því fyrir sér hversu hratt þessi iðnaður gæti þróast og hvort að einhvers staðar leyndust fjárfestingatækifæri í framtíðinni á sviði vélmennaframleiðslu.

Pistlahöfundur er áhugamaður um vélmenni og hefur fylgst lauslega með tilraunum vísindamanna í gegnum árin til þess að skapa „gáfuð” og „nothæf” vélmenni. Ýmsir vísindamenn hafa stigið fram á sjónarsviðið en nú virðist sem þessi grein vísindanna sé að verða að iðnaði með komu Sony, Honda og Mitsubishi inn á markaðinn. Höfundur fór því að velta því fyrir sér hversu hratt þessi iðnaður gæti þróast og hvort að einhvers staðar leyndust fjárfestingatækifæri í framtíðinni á sviði vélmennaframleiðslu. Eftir nokkrar vangaveltur komst höfundur að því að líklega kæmu byltingarkennd vélmenni ekki frá þeim iðnrisum sem í dag eru að reyna að fóta sig á markaðninum heldur úr einhverri allt annarri átt, til dæmis stoðtækjageiranum. Í kjölfar hugleiðinga sinna hitti pistlahöfundur Hilmar Janusson, þróunarstjóra Össurar, og ræddi við hann um stoðtækjageirann og tengsl hans við smíði vélmenna.

Össur er eitt af fáum íslenskum framsæknum fyrirtækjum sem hefur hvað eftir annað sýnt árangur í rekstri. Fyrirtækið velti hátt í sjö milljörðum á síðasta ári og skilaði 1.268 mkr í hagnað (EBITDA) sem er 80% aukning frá fyrra ári. Vöxtur fyrirtækisins er aðdáunarverður og ljóst að þar fer saman undir einu þaki stjórnkænska, hnitmiðuð markaðssetning og síðast en ekki síst öflug vöruþróun.

Hilmar segir það ekki fráleitt að vélmenni framtíðarinnar komi úr stoðtækjageiranum, eða verði byggð á þeirri tækni sem þar er í þróun. Byltingakenndar nýjungar komi oft úr allt annarri átt en við eigum von á, jafnvel úr ólíklegustu áttum. Hver hefði til dæmis búist við því að stígvélaframleiðandi í Finnlandi yrði risi á farsímamarkaði? Hvernig tókst Nokia að skjóta stóru gömlu símafyrirtækjunum ref fyrir rass, fyrirtækjum eins og AT&T og Siemens sem gátu eytt tugum milljarða í vöruþróun? Ástæðan er einföld, Nokia braut reglurnar – ekki hinir.

Hilmar segir að Össur sé nú að stíga sín fyrstu skref í notkun rafeindatækni við gerð nýrra stoðtækja. Össur er nú að þróa forritanlegt rafeindhné sem áætlað er að komi á markaðinn í lok ársins í samstarfi við prófessor við MIT og Harvard. Rafeindahnéð skynjar stöðu fótarins og notar rafeindatækni og Segulmagnaðan vökva til að mynda mótstöðu við hreyfingu í hnjáliðnum í stað hefðbundinnar glussatækni. Viðkomandi samstarfsprófessor hjá MIT er ekki óvanur því að tengja saman líffræði og rafeindatækni því hann hefur m.a. smíðað gervifisk sem notar rafeindastýrða vöðva til að synda og verður því þreyttur eftir dálítinn sundsprett!

Ef vélmenni framtíðarinnar verða einhvers konar sambland af lífrænum vefjum/vöðvum og rafeindatækni er orðið vélmenni (e. robot) e.t.v. rangnefni. Heppilegra væri þá að sleppa forskeytinu og tala um menni (e. humanoid) í stað vélmennis. En verða vélmenni eða menni framtíðarinnar í mannsmynd? Það er ekki gott að segja. Hilmar segir að stoðtækjageirinn snerti svolítið þetta viðfangsefni því það sé ekki augljóst að gervilimir eigi að líkja eftir venjulegum útlimum. Það er ekkert því til fyrirstöðu að hanna gervilim sem er á einhvern hátt betri en venjulegur útlimur. Í raun er verið að hjálpa fólki að „ljúga” því að það sé með heilbrigðan útlim með því að líkja eftir þeim í útliti? Er ekki nærri lagi að nýta sér fötlunina til þess að verða hæfari á einhvern hátt? Þarna spila ýmis félagsleg atriði inn í myndina en þetta gæti alveg breyst í framtíðinni. Eitt sinn var kvöl og pína að þurfa gleraugu en nú geta þau bara verið „kúl”. Á sama hátt gætu stoðtæki framtíðarinnar verið notuð til þess að skera sig úr fjöldanum. Ef við kæmust aldrei upp úr því að líkja eftir því sem til er væru allir bílar í laginu eins og hestvagnar, segir Hilmar.

Samstarf Össurar við MIT er við svokallað Leg-Lab innan AI stofnunarinnar sem er fjármögnuð af sjálfum Bill Gates. Á stofnuninni fást vísindamenn við alls kyns tilraunir með vélmenni sem byggja á allt annarri hugsun en þau sem japönsku fyrirtækin hafa sett á markaðinn. Í stað þess að vélmennin labbi með fyrirfram ákveðnum vélrænum hreyfingum eru þau látin læra að ganga eins og börn. Líkt og þegar barn tekur sín fyrstu skref í fangið á foreldrum sínum eru myndavélar notaðar til þess að setja vélmenninu markmið um ganga á einhvern tiltekin stað. Vélmennið getur stjórnað fótum og jafnvægi um ökkla og með því að endurtaka tilraunina mörgum sinnum lærir vélmennið að ganga eins og maður með aðstoð tauganeta.

Össur hefur einnig verið í samstarfi við Vélaverkfræðideild Háskóla Íslands í ýmsum verkefnum, aðallega tengdum burðarþolsfræði. Hilmar segir að samstarfið hafi gengið vel en vill gjarnan fá lífverkfræði (biomechanics) inn í kennsluefni deildarinnar. Aðspurður segir Hilmar ekkert sjá því til fyrirstöðu að Íslendingar geti hasslað sér völl í smíði vélmenna. Hér á landi sé til mikil tækniþekking hjá fyrirtækjum eins og Össuri, Flögu, Marel og Stjörnuodda. Fjárfestar segja sumir að hér á landi vanti mannskap til þess að byggja upp hátæknifyrirtæki en Íslensk Erfðagreining hafi sannað að hið gagnstæða með því að flytja inn hálaunfólk erlendis frá. Hilmar vonast til þess að á Íslandi verði fjármagni í auknum mæli beint að því að útbúa verðmæti úr þekkingu líkt og aðrar þjóðir í stað þess að dæla öllum peningum í þorsk og rollur.

Í hugum flestra eru vélmenni vísindaskáldsögufyrirbrigði og þó að flestir séu sammála um tilkomu þeirra á einhvern hátt inn í okkar daglega líf er sú hugsun framtíðarboðskapur í eyrum flestra. Hilmar segir hins vegar að sumir vilji meina að í raun sé til nægjanleg tækniþekking til þess að framleiða gagnleg vélmenni. Vandamálið sé frekar markaðslegs eðlis en ekki tæknilegs. Hvaða geirar munu koma þróuninni á skrið og boða komu vélmennanna sé ekki auðvelt að segja til um en hægt er að hugsa sér að það verði jafnvel matvælafyrirtækin sem komi vélmennum inn á heimilin. Það er alla vega ljóst að fjöldaframleiðsla á vélmennum er hafin þó svo að þau vélmenni sem séu framledd þjóni engum sérstökum tilgangi. Spár gera ráð fyrir því að markaður fyrir heimilisvélmenni árið 2005 verði um $5 Milljarðar dollara svo að eftir heilmiklu er að slægjast.

Fyrir áhugasama fylgja hér með nokkrar slóðir um vélmenni:

Sony
Honda
MIT
iRobot
Waseda University

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)