Í nýlegri grein hér á Deiglunni fjallaði Magnús Þór Torfason um hlýðnitilraun Milgrams. Niðurstaða þeirrar tilraunar felur í sér að álykta megi að stór hluti manna sé fljótari til að afsala sér eigin dómgreind heldur en að óhlýðnast yfirvaldi – jafnvel þótt skipanir yfirvaldsins stríði gegn mikilvægum grundvallarskoðunum.
Í umfjöllum undanfarinna daga um DV hefur nokkuð víða komið fram að ritstjórar blaðsins hafi lagt mikla áherslu á að starfsmennirnir fyndu sem ógeðfelldastar fréttir og vitanlega hefur þeim blaðamönnum verið hampað hvað mest sem lengst voru fáanlegir til að ganga til þess að ganga í augun á yfirboðurum sínum. Jafnvel stórgreindir sómamenn hafa látið hafa sig út í algöra afneitun á siðferði og tillitsemi við náungann og uppskorið eins konar „cult“ status innan ritstjórnarinnar fyrir vikið. Best gekk að fá unga menn til þess að taka þátt í vitleysunni.
Magnús Þór endar grein sína á Deiglunni með þessum orðum:
„Sérstaklega er athyglisvert hversu stuttan tíma og litla þvingun tók að knýja fólk til hlýðni. Þetta er hverjum manni gott að hafa í huga í daglegu lífi, þar sem ýmsir vænta hlýðni og hollustu – stundum til góðra verka, en stundum til slæmra. Lexían hlýtur að vera sú að hlusta á samvisku sína, og neita að afsala sér ábyrgðinni af eigin gjörðum.“
Þessi orð eiga auðvitað við á öllum sviðum mannlífs en ekki síst á fjölmiðlum og annars staðar þar sem farið er með vald. Vald blaðamannsins felst í því að áhrif skrifa hans eru í flestum tilfellum margföld á við þau áhrif sem skrifað er um hefur til umráða. Þessi aflsmunur er vitaskuld mestur þegar fjallað er um ógæfufólk sem ekkert á undir sér og hefur hvorki reynslu né þekkingu til þess að bregðast til varna.
Vald ritstjórans yfir blaðamanni felst annars vegar í valdi til brottrekstrar og hins vegar hinu, sem algengara er, útskúfun, ónotum og annars konar hefnd sem hægt er að ná fram ef ekki er farið að vilja ritstjórans í einu og öllu – bæði þeim vilja sem tjáður er og þeim sem gera má ráð fyrir. Slíkar refsingar eru oftast jafnvel ennþá óbærilegri heldur en brottrekstur enda þarf þá blaðamaðurinn að búa við óþægindi og óvissu nánast alla daga. Líklegt er að flestir, sérstaklega ungt fólk og óharðnað, muni bregðast við með því að gera sitt besta til að komast aftur í náðina.
Ritstjórar DV sem létu af störfum í síðustu viku höfðu skapað andrúmsloft innan blaðsins þar sem margir blaðamennirnir höfðu sannfærst um að eigin dómgreind væri ómerkilegri heldur en kröfur ritstjóranna – eða að minnsta kosti létu þeir hafa sig til að fjalla um mörg mál á þann veg að ólíklegt verður að teljast að þeir hefðu í einrúmi, og eftir vandlega yfirvegun, tekið sömu ákvörðun.
Frelsið til að treysta eigin dómgreind er það verðmætasta sem hægt er að búa yfir og í valdamiklu starfi er það forsenda þess að halda sjálfsvirðingu.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021