Þeir sem hafa stigið fæti inn fyrir dyr á íslenskum kaffihúsum þekkja þá óskemmtilega reynslu þess að verða gegnsósa af reykingastybbu á örskotsstundu. Margir vildu eflaust vera lausir við þennan hvimleiða fylgifisk pöbbaröltsins og horfa öfundaraugum til frænda okkar í Noregi, Íra og íbúa New York borgar þar sem reykingar eru bannaðar inni á skemmtistöðum og börum.
Vænta má þess að umræða um frumvarp til breytingu á lögum nr. 6/2002 um tóbaksvarnir fari fljótlega af stað nú þegar Alþingi kemur saman eftir jólahlé. Frekar er búist við því að frumvarpið verði samþykkt þar sem heilbrigðisráðherra flytur málið. Ef svo fer, megum við vænta þess að með öllu verði bannað að reykja í þjónusturými fyrirtækja eftir 1. júní árið 2007 og eftir það verði kaffihús, barir og veitingastaðir reyklausir.
Hér á Deiglunni hefur verið þó nokkuð skrifað um bann á reykingum á veitingastöðum og börum og hafa pennar vefritsins ekki allir verið á sama máli. Án þess að taka afstöðu til þess hvort slíkt bann á rétt á sér, vekur markmið breytinga á lögum nr. 6 /2002 upp nokkrar spurningar, ekki síst hvort megintilgangur þeirra sé fyrst og fremst vinnuvernd þjónustufólks eins og staðhæft er í frumvarpinu.
Skaðsemi óbeinna reykinga er óumdeild og er meira en hálf öld síðan sannanir voru færðar fyrir því. Síðan þá hefur skaðsemin verið staðfest oftar en einu sinni enda varla nokkur sem dregur hana í efa. Hins vegar finnst mér alveg mega spyrja sig hvort fremsta vígið í baráttunni gegn reykingum séu barir og veitingastaðir og hvort þjónustufólk séu ekki óaðspurðir píslavættir í stríði stjórnvalda gegn reykingum.
Ef banna á reykingar til að vernda heilsu þeirra sem ekki reykja væri nær að byrja á stöðum þar sem fólk er varnarlaust gagnvart skaðsemi sígarettureyks. Dæmi um slíka staði eru heimili þar sem börn eru varnarlaus gagnvart hættu reykinga og hafa í raun ekkert val um hvort þau koma eða fara. Sjálfstæður rekstur veitingastaða þar sem allir eru orðnir lögráða og fullmeðvitaðir, þar á meðal starfsfólk, um skaðsemi reykinga er varla skynsamlegur upphafspunktur.
Bann við reykingum á heimilum er líklega að margra mati mun stærra skref en að banna reykingar á veitingastöðum enda er óhætt að segja að löggjafinn sé varkárari í því að setja lög um hegðun inni á heimilum fremur en innan fyrirtækja. Því væri andstaða við frumvarp sem fæli í sér bann á reykingum á heimilum án efa mun meiri en við það sem nú liggur fyrir þingi. En þó að baráttan yrði eflaust harðari er það engin afsökun fyrir því að velja auðveldu leiðina og koma þannig aftan að reykingafólki, sem betur fer er minnihlutahópur, og gera þannig lítið úr réttindum þeirra.
Slíkar vangaveltur leiða mann að getgátum um hvort annað liggi að baki en umhyggja fyrir starfsfólki veitingahúsa. Ég held að það sé einmitt þessi þægindi sem ég minntist á í upphafi pistilsins sem fólk hugsar um þegar reykingabannið er rætt. Að það væri bara nokkuð fínt að geta farið á hvaða kaffihús sem er án þess að kafna úr reyk. Eins held ég að aðalmarkmið stjórnvalda sé ekki endilega starfsöryggi heldur séu þau með þessu að stíga skref í áttina að því að gera Ísland reyklaust sem reyndar má finna stað í fylgiskjali frumvarpsins þar sem er rætt um aðra kosti reyklausra veitingahúsa.
Ef tilfinning mín er rétt þ.e. að meginmarkmiðið sé í raun að setja stein í götu reykingafólks til að minnka reykingar á landinu fyndist mér heiðarlegra að ganga hreint til verks. Auðvitað á umræðan að snúast um það hvort reykingar eigi að vera leyfðar yfirleitt. Ekki hindra fólk í því að fá sér sígarettu og kaffibolla á börum ef það kýs svo, eða jafnvel að starfa við að veita slíka þjónustu.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021