Ég ferðast oft með strætó. Mér finnst það þægilegur valkostur og þrátt fyrir að vera kannski ekki eins hraður og einkabíllinn virðist mér engu að síður að fólk sem notar strætó að staðaldri sé almennt jafnvel stundvísara en hinir. Kannski vegna þess að menn vita að þeir verða að vera mættir út á stöð á fyrirfram ákveðnum tíma og skipuleggja sig þar með betur. Akandi vinir mínir eru oft svona korteri seinir. Ætla sér aðeins svona að skjótast með spólu fyrst eða aðeins að koma við í Hafnafirði á leiðinni.
Ég veit hins vegar að ég er ekki í meirihluta. Langt því frá. Langflestir Reykvíkingar hugleiða ekki einu sinni strætó sem valkost. Ef bíllinn bilar og menn fá ekki far, þá er bara ekki farið. Strætónotkun er þannig álitinn merki um verulega sérvisku ef ekki hreina geðveilu notandans. Nýlega birtist t.d. á visi.is frétt um Bobby Fischer og ferðavenjur hans í hér í borginni:
Þrátt fyrir að vera vel stæður virðist Fisher ekki hafa áhuga á að aka eigin bíl eða kaupa leigubíl fyrir ferðalög sín um höfuðborgarsvæðið og þykir mörgum þetta bera vott um sérvitringshátt hans.
Dómur fjórða valdsins er skýr: Við Fischer erum geðsjúklingar.
Sjálfum líður mér eiginlega bara vel með það að Fischer sé ekki að keyra.
En hvað sem allri geðveiki notenda strætó líður þá er ljóst að margt verður að breytast ef þróunin eigi að vera önnur en sú að menn verði læstir inn á hæli fyrir að sjást stíga um borð í stóru gulu bílana. Staðreyndin er reyndar sú að hönnun borgarinnar hefur gert það að verkum að almenningssamgöngur eiga erfitt uppdráttar. Þær eru raunar furðugóðar miðað við hve gisin byggðin er. En það er margt annað sem bæta þyrfti. Í nýlegum pistli hér á deiglunni var fjallað um það hve mikið PR klúður nýja leiðakerfið hefur verið. Sömuleiðis er óþolandi að ekki sé enn hægt að borga með kortum í strætó og ljóst er að það fyrirkomulag kosti bæjarsamlagið viðskipti á degi hverjum.
Síðast en ekki síst er það dæmi um ákveðin skort á framtíðarsýn að nýlega hafi verið ákveðið að 12-18 ára unglingar skuli í framtíðinni þurfa borga 250kr., líkt og fullorðnir, fyrir að ferðast með strætó. Ég held að 12 ára unglingur muni hugsa sig vel um áður en hann fleygir jafnvirði tveggja súperdósa niður baukinn. Þess í stað mun hann án efa frekar nöldra í móður sinni um að sækja sig og skutla. Það er miður að Strætó bs. skuli sjá sig knúna til að fæla frá heila kynslóð notenda.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021