Í kjölfar fundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Hong Kong hafa umræður vaknað um hverjir njóti mest þess ávinnings sem hlotist getur af frjálsri verslun með vörur og þjónustu. Í þeirri umræðu virðist gæta mikils misskilnings um hverjir bera mest úr býtum.
Þannig ritaði Ögmundur Jónasson bréf til Geirs H. Haarde þar sem krafist var þess að Doha viðræðum yrði hætt af hálfu Íslendinga á meðan leitast verður við að ná sátt um nýjar samningsforsendur. Ástæðuna segir Ögmundur: „…að Doha viðræðurnar hafi ekki leitt til aukinnar hagsældar alþýðu manna í heiminum eins og heitstrengingar voru um þegar viðræðurnar hófust fyrir rúmum áratug.“
Tilgangur Doha viðræðnanna er að auka frelsi í viðskiptum með vörur og þjónustu milli landa. En aukið viðskiptafrelsi milli landa er einn af drifkröftum hinnar margumtöluðu alþjóðavæðingar. Ögmundur skipar sér í raðir efasemdamanna alþjóðavæðingar sem lifa gjarnan í þeirri trú að ábatar frjálsra viðskipta falli einungis í skaut vesturvelda og stórfyrirtækja sem nýti sér ódýrt vinnuafl í þróunarlöndum til þess að græða. Gallinn er bara sá staðreyndirnar tala allt öðru máli.
Þegar efnahagsþróun fátækustu ríkja heims síðastliðin 40 ár er skoðuð kemur nokkuð athyglisvert í ljós. Efnahagsvöxtur í fátækjum ríkjum er mestur hjá þeim ríkjum þar sem þátttaka í alþjóðaviðskiptum fer vaxandi. Vöxtur í fátækum ríkjum er minnstur þar sem þátttaka í alþjóðaviðskiptum vex hvað minnst. Að sama skapi kemur í ljós að hagvöxtur er mun hraðari hjá fátækum opnum hagkerfum en hjá ríkum hagkerfum, þannig fer munurinn milli þeirra minnkandi. Fátæk lokuð hagkerfi vaxa hins vegar hægar en þau ríku þannig að munurinn fer vaxandi. Ástæðuna er að finna í afstöðu ríkja til frjálsrar verslunar og þátttaka í alþjóðavæðingunni.
Gott dæmi um þetta er efnahagsþróunin í Ghana og Suður Kóreu. Upp úr 1970 voru lífsgæði í Ghana og Suður-Kóreu afar svipuð og var landsframleiðsla á mann $ 250 í Ghana og $ 260 í suður-Kóreu. Árið 1998 var staðan orðin allt önnur. Suður Kórea var orðið 12 stærsta hagkerfi heims með landsframleiðslu $ 8.600 á mann með um 8% hagvöxt á árunum 1968 – 1998. Ghana var enn á meðal fátækustu ríkja heims með um $ 390 landsframleiðslu og 1,5 % hagvöxt á árunum 1968 – 1998. Hvað hafði gerst sem skildi þessar þjóðir svo langt hver frá annarri ?
Stóran hluta þessa mikla muns má rekja til afstöðu landanna til alþjóðarverslunar. Stjórnvöld í Suður-Kóreu felldu niður viðskiptahömlur, löðuðu erlenda fjárfesta til landsins og hvöttu til útflutnings. Á meðan lokaði Ghana hagkerfi sínu og lagði háa verndartolla á innfluttar vörur í því skyni að vernda innlenda framleiðslu.
Gott dæmi um hvernig stjórnvöld í Ghana fóru illa með efnahag landsins var kakóiðnaðurinn. Góð ræktunarskilyrði og góð staðsetning nálægt alþjóðlegum siglingaleiðum gáfu Ghana mikla yfirburði umfram önnur lönd í ræktun á kakói. Þannig var Ghana stærsti útflytjandi í heimi á kakói árið 1957. Sama ár fékk Ghana sjálfstæði og eitt af fyrstu verkefnum nýrra ríkisstjórnar var að stofna ræktunarráð ríkisins sem keypti alla innlenda framleiðslu og ákvað verðið á kakói. Ráðið hélt niðri verðinu sem bændur fengu greitt fyrir framleiðslu sína á meðan það seldi kakóið á heimsmarkaði með miklum hagnaði. Afleiðingin var sú að á meðan það verð sem framleiðendur fengu fyrir kakóið hækkaði einungis um 6% á árunum 1963 – 1979, hækkaði almennt verðlag í Ghana um 22%. Þannig fengu bændur alltaf minna og minna fyrir framleiðsluna á meðan að heimsmarkaðsverð fór hækkandi ár frá ári. Afleiðingin var sú að bændur hættu að framleiða kakó og framleiðslan hrundi. Önnur ríki tóku forystuna sem helstu kakóframleiðendur heims þó tilkostnaður þeirra við framleiðsluna var töluvert hærri en í Ghana.
Öll ríki, sama hversu fátæk þau eru hafa hlutfallslega yfirburði að einhverju tagi. Hjá Íslendingum eru það fiskveðiar en hjá íbúum Ghana var það ræktun kakós. Sama á við um mörg önnur þróunarríki þar sem auðlindir margra þessara ríkja liggja í miklu landsvæði og ódýru vinnuafli.
Það skiptir því miklu máli fyrir fátækustu lönd heimsins að opna eigin markaði og taka þátt í alþjóðavæðingunni sem er öruggasta leiðin til aukins hagvaxtar. Ögmundur og efasemdamennirnir hafa því miður snúið dæminu við, alþjóðavæðing er ekki orsök aukinnar örbirgðar í heiminum heldur tækifæri til betri lífskjara fyrir almenning.
- Á diskinn minn - 31. júlí 2006
- Frjáls för verkafólks - 10. maí 2006
- Kapítalismi og fátækt - 11. febrúar 2006