„Þessi borg er orðin eins skítug og ógeðsleg og rússneskur kafbátakamar”. Þessi ummæli má finna á ákveðnum umræðuvef hjá áhugamönnum um bíla á vefnum. Umræðuefnið er hin almenna notkun nagladekkja hjá ökumönnum yfir vetrartímann. Segja má að hún sé lýsandi fyrir andúð margra á notkun nagladekkja í höfuðborginni.
Þrátt fyrir tækninýjungar í dekkjategundum síðustu árin, og þar af leiðandi gott framboð af öðrum valkostum þegar kemur að vali á vetrardekkjum, þá er enn mikill meirihluti ökumanna á höfuðborgarsvæðinu sem kýs naglana umfram grófkorn, loftbólur, míkróskurð og hvaðeina sem skilgreina má sem valkosti. Og hlutdeild þeirra virðist ætla að dragast allt of hægt saman. Enn er meirihluti ökumanna á höfuðborgarsvæðinu á negldum dekkjum yfir vetrartímann.
Almenn notkun nagladekkja veldur miklum samfélagslegum kostnaði. kostnaði sem sennilega má flokka sem fórnarkostnað. Þar má nefna mikinn viðhaldskostnað við sífellda endurmalbikun og fræsun, aukna slysahættu í mikilli bleytu (sökum djúpra hjólfara, sk. aquaplaning áhrifa þegar bílar skauta til á vatnsyfirborði) og svifryksmengun. Nýlegar rannsóknir benda til að um 55% af öllu svifryki megi rekja til almennrar notkunar nagladekkja og hvernig þau rífa upp malbik. Samt þrjóskast ökumenn á höfuðborgarsvæðinu til að breyta þessu hegðunarmynstri og fyrir því geta verið margar ástæður, jafnt huglægar og efnislegar. En það breytir því ekki að allir íbúarnir þurfa að greiða fórnarkostnaðinn fyrir þetta atferli. Það hlýtur að teljast ósanngjarnt.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar og margar skýrslur skrifaðar sem aftur benda til þess að allar tegundir tegundir hafi ákveðna styrkleika og veikleika við ólíkar aðstæður. Og flest bendir til að ökumenn á höfuðborgarsvæðinu geti vel komist af án nagladekkja yfir vetrartímann.
Samkvæmt ágætri rannsókn, sem Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins (RB) gerði í samstarfi við Vegagerðina, Reykjavíkurborg og Umferðarstofu árið 2001, þá hafa t.d. nagladekk og loftbóludekk yfirburði umfram önnur vetrardekk þegar yfirborð vega er þakið þunnu og þurru ísyfirborði – hálku – og einkum við hærri meðalhraða. Rannsóknirnar benda hins vegar ekki til þess að verulegur munur sé á milli dekkjategunda við aðstæður fyrir ofan frostmark, og þá sama hvort um þurrt eða blautt yfirborð sé að ræða. Loftbóludekk voru þó eilítið lakari en aðrar tegundir að þessu leyti, en litlu mátti muna. Þess má einnig geta að um ný negld dekk voru að ræða í þessum prófunum. Í skýrslu rannsóknaraðilanna er einnig tekið fram að matið sé ekki mjög marktækt og gera þurfi prófanir við enn fleiri aðstæður, s.s. í blautum snjó, til að meta fyllilega styrkleika og veikleika nagladekkja.
Það sem virðist hins vegar skorta öðru fremur í tengslum við allar þær rannsóknir sem undirritaður gat fundið á vefnum voru atferlisrannsóknir á ökumönnum við aðstæður þar sem negld dekk og loftbóludekk sýna yfirburði umfram aðrar tegundir. Nefnilega þann órökstudda grun margra að ökumenn á negldum dekkjum leyfi sér að aka á meiri hraða en aðrir við hálkuaðstæður. Ekki er ólíklegt að flestir tali þar út frá eigin reynslu, og undirritaður er þar engin undantekning.
Rannsóknir RB gáfu nokkuð örugglega til kynna að hemlunarvegalengd tvöfaldist sé byrjunarhraði við hemlun aukinn úr 40 í 60 km/klst. Það á við um allar tegundir. Bíll á negldum dekkjum þarf því töluvert lengri hemlunarvegalengd við þurrar ísaðstæður á 60 km/klst hraða en bíll á hefðbundnum vetrardekkjum við sömu aðstæður á 40 km/klst hraða (um 80 m á móti 60 m). Það er því veruleg ástæða til að skoða atferli ökumanna, og afleiddan ökuhraða, við hálkuaðstæður, til að meta í raun hversu mikið öryggi nagladekk veita í heildina litið.
Það bendir í raun flest til þess að fórnarkostnaðurinn sem samfélagið greiðir þessum takmarkaða hópi notenda nagladekkja sé mun meiri en ávinningurinn. Loftbóludekk eru fyllilega sambærilegur valkostur fyrir þá sem geta ómögulega dregið úr hraðanum við hálkuaðstæður eða eru ekki nægilega lagnir við að meta aðstæður þegar komið er undir frostmarkið. Það eru hæpnar ástæður til annars en að láta þessa notendur greiða í hlutfalli við það álag og áhrif sem þeir hafa á sitt umhverfi og taka upp gjaldtöku af notkun nagladekkja. Svo virðist sem nauðsynlegt sé að skapa þennan hvata til að ná fram breyttu hegðunarmynstri.
Í Noregi hefur þessi sama umræða farið fram að því er virðist. Þar í landi glíma menn við svipuð vandamál við svipaðar aðstæður og hér og niðurstaðan sú að menn hafa kosið að taka gjald af notkun nagladekkja í helstu borgum Noregs yfir vetrartímann og á er komin nokkurra ára reynsla. Markmiðið var að koma notkun nagladekkja niður í einn fimmta af heildinni. Fyrirkomulag gjaldtökunnar er þannig háttað að innan ákveðinna marka – t.d. borgarmarka Oslóar – þá þurfa menn að kaupa passa til að líma í bílrúðuna. Passa sem veitir leyfi í ákveðinn tíma til að aka á nagladekkjum í borginni. Gjaldtakan felst að sjálfsögðu í verðinu á passanum og fylgst er með því hvort bílar á negldum dekkjum séu með gildan passa. Ef ekki þá er sektað.
Það er vel hægt að sjá fyrir sér þetta fyrirkomulag hérna á höfuðborgarsvæðinu. Hægur vandi er að sjá fyrir sér undanþágur fyrir ákveðna minnihlutahópa, eins og t.d. leigubílstjóra og eldri borgara, auk sölu tímabundinna passa á lágu verði fyrir íbúa utan borgarinnar. Og í raun er ekki eftir neinu að bíða. Af hverju ekki bretta upp ermarnar og afgreiða þetta fyrir næsta haust?
Er það ekki góður draumur að anda að okkur fersku og heilnæmu lofti næsta vetur og njóta þess að aka á sléttu, óslitnu og öruggu vegyfirborði sumarið 2007?
Helstu heimildir:
Skýrsla um samsetningu svifryks í Reykjavík (pdf)
Skýrsla RB um niðurstöður prófana mismunandi vetrardekkja (pdf)
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021