Það hefur vafalaust ekki farið fram hjá mörgum að fyrir tveimur dögum síðan þá gekk nýtt ár í garð. Árið lofar góðu enda öll ár þegar úrslitakeppni HM í knattspyrnu fer fram góð. Þó á íþróttasviðinu verði þessi atburður vafalítið sá allra stærsti á árinu þá verða eflaust mörg mál á pólitískasviðinu í umræðunni.
Það eru nokkur stór mál sem stjórnmálamenn munu vonandi þora að taka á. Þar helst má nefna breyttar áherslur í atvinnumálum. Þingmenn þurfa að beina sjónum sínum frá stóriðjunni og að uppbyggilegri og arðvænlegri atvinnugreinum. Annað stórt mál er landbúnaðarmálin. Þau hafa lengi verið umdeild enda ótrúlegt að árið 2006 sé gengið í garð og enn sé slegið sömu skjaldborg um fámennt bændasamfélag á Íslandi og hefur verið gert a.m.k. frá stofnun Lýðveldisins með þeim afleiðingum að verð á landbúnaðarvörum er það hæsta í heimi hér á landi.
Stuttu fyrir jól birtist í fjölmiðlum skýrsla um samanburð á matvælaverði á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum. Ekki kom á óvart að matvælaverð er langhæst á Íslandi. Þingmönnum þykir málið grafalvarlegt og er það vel enda óþolandi og óskiljanlegt að Frónbúar þurfi að greiða hæsta matvælaverð Evrópu og þó víðar væri leitað. En hvaða ráð hafa þingmenn við þessu vandamáli? Hugmyndir þeirra flestra virðast snúa um lækkun virðisaukaskatts á matvæli. Vissulega er lækkun skatta ávallt fagnaðarefni en er víst að þetta sé sú aðgerð sem myndi skila almenningi í landinu mestri kaupmáttaraukningu?
Nærtækara væri að gjörbylta landbúnaðarkerfinu. Víðs vegar um heiminn eru framleiddar hágæða landbúnaðarvörur fyrir brotabrot af þeim kostnaði sem sambærilegar vörur eru framleiddar fyrir hér heima. Af hverju þá að þrjóskast við og reyna að halda úti hagbærum landbúnaði á landi þar sem sólin skín sjaldnar en forsætisráðherra brosir? Við þurfum ekki að líta lengra en til Danmerkur, lands sem margir stjórnmálamenn vilja gjarnan bera Ísland saman við, til að finna landbúnaðarvörur á miklu lægra verði en á Íslandi.
Samkvæmt heimildarmanni Deiglunnar á Jótlandi kostar kíló af kjúklingabringum 500 kr. þar. Þar má einnig kaupa 1 kg. af nauta “roastbeef” á 800 kr. og 1 kg. af brauðosti á 430 kr. Á Íslandi telst maður heppinn að finna kjúklingabringurnar undir 2.000 kr. kílóið, nautið er eflaust á svipuðu kílóverði og osturinn kostar tvöfalt á við ostinn í Danmörku. Alls myndu þessir þrír hlutir kosta um 1730 kr. í Danmörku en um 4.500 kr. á Íslandi í besta falli. Munurinn er heil 160%, takk fyrir.
En hversu mikið myndu þessir þrír hlutir lækka í verði ef virðisaukaskatturinn yrði lækkaður úr 14% í 7%? Þeir myndu lækka um heilar 226 kr. eða í 4.224 kr. Að teknu tilliti til flutningskostnaðar (10%), 14% virðisaukaskatts og 30% álagningar smásala mætti hins vegar kaupa þessar vörur fluttar inn frá Danmörku á 2.820 kr. á Íslandi. Það munar því 1.400 kr. fyrir neytandann í þessu litla dæmi ef farin yrði sú leið að aflétta tollum og hömlum á landbúnaðarvörum í stað lækkunar virðisaukaskatts. Í ofanálag fengi ríkið einnig meira fyrir sinn snúð í formi virðisaukaskatts því að 14% skattur af 2.820 kr. er augljóslega hærri en 7% skattur af 4.224 kr.
Það má vera að ekki sé sanngjarnt að taka einungis út fáar vörur máli sínu til stuðnings. Þá eru allir útreikningar hér að ofan byggðir á mati á helstu breytum, ofmati þó frekar en vanmati. Þó þetta litla dæmi geri, að þessu sögðu, ekki annað en vekja menn til umhugsunar um úrelta landbúnaðarstefnu stjórnvalda þá er tilganginum náð. Almenningur á allavega heimtingu á því að stjórnmálamenn skoði allar leiðir til að lækka matvælaverð á Íslandi jafnvel þó það krefjist þess að láta verði af eldgamalli og úreltri stefnu til verndar íslenskum landbúnaði.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008