Forsætisráðherra, skipstjóri þjóðarskútunnar, ritaði Kjaradómi bréf og mótmælti launhækkunum alþingismanna. Nú virðist ráðherra hafa fengið bréfið endursent, óopnað. En heyr heyr, forsætisráðherra hefur skipað nefnd í málið.
Niðurstaða kjaradóms um launahækkanir æðstu ráðamanna var eins og köld vatnsgusa framan í atvinnulífið og ekki til þess fallin að varðveita dýrmætan stöðugleika þjóðarskútunnar, því vel blæs fyrir. Stutt er síðan að Alþingismenn höfðu sjálftöku í stórauknum lífeyrisréttindum og launahækkanir núna, umfram launahækkanir á almennum vinnumarkaði, koma á mjög viðkvæmum tímapunkti og eru líklegar til þess að rífa seglin.
Þegar svo ber undir treystir þjóðin því að skipstjóri skútunnar taki í stýrið og leiðrétti kúrsinn. En forsætisráðherra hefur greinilega talið að áhrif hans væru mest metin í bréfaskriftum – mótmælum á pappír. Þegar bréf hans er svo endursent, óopnað, lýsir ráðherra yfir vonbrigðum sínum og segist hafa vonað eftir “ábyrgri afstöðu” í málinu. En ráðherra lætur ekki deigan síga heldur skipar nefnd í málið – alveg harðákveðinn. En stóra nefndin, Alþingi, situr heima og bíður eftir stærstu áramótabombunni.
Ef ráðherra finnur ekki taktinn á svona stundum koma áleitnar spurningar upp í hugann og samanburður við forvera hans sem þekkti áhöfnina betur. Þá rifjast einnig upp orð Steingríms Thorsteinssonar forðum, „Að hika er sama og tapa“.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009