Það eru sennilega flestir sem muna hvar þeir voru eða hvernig þeim leið fyrir ári síðan þegar þær fréttir skóku heiminn að flóðbylgja hefði skollið á ströndum nokkurra Asíulanda með ógnarlegum afleiðingum. Eflaust voru margir sem sátu í kaffi- eða matarboði á öðrum degi jóla í fyrra og ræddu um hvaða land hefði orðið verst úti eða upp í hvað tala fórnarlamba hamfaranna væri komin; flestir höfðu margt til málanna að leggja og fylgdust með af hálf sjúklegum áhuga þegar fréttir af atburðunum í S-Asíu streymdu inn, á milli þess sem smákökubakstri var hrósað eða talað um hvað jólagjafirnar væru óvenju slappar það árið. Samúð og samkennd blönduðust hinum harðneskjulegum orðum Bobs Geldofs „…thank God it´s them instead of you,“ og við fylltumst sektarkennd yfir eigin velferð.
En þrátt fyrir að allir helstu fjölmiðlar heimsins hafi sinnt þessari frétt af nánast óseðjandi áhuga fyrir réttu ári síðan þá hurfu fréttamyndirnar af dýrslegum eyðileggingarmætti bylgjunnar næstum því jafn fyrirvaralaust og þær höfðu rofið velsældardáleiðslu okkar örfáum vikum áður; þannig er eðli fréttamennsku í nútímaþjóðfélagi og við lifum bara með því. Það gleymist þó stundum að brotthvarf myndavélanna olli ekki stöðnun á svæðinu á nokkurn hátt; lífið hélt áfram í þessum heimshluta, eins og annars staðar, og fólk fór að takast á við afleiðingar atburðanna og reyna að ná einhverjum tökum á aðstæðum. Áhrif atburðanna á stjórnmál í þeim löndum sem hvað verst urðu úti eru sérlega athyglisverð fyrir nema í slíkum fræðum og því ætla ég, eftir þennan ítarlega inngang, að gera samanburð á stjórnmálaástandinu í tveimur þeirra landa sem hvað verst urðu úti, Sri Lanka og Indónesíu.
Sri Lanka
Á síðastliðnu ári hafa Sri Lankar kosið sér töluverðan harðlínumann sem forseta, og hóf hann viðræður við herskáa flokka Tamila í landinu. Það hefði átt að teljast jákvæð þróun en hæstiréttur landsins hefur úrskurðað að Tígrarnir, eins og flokkarnir eru kallaðir, séu ekki viðurkenndur aðili í því uppbyggingarstarfi sem nú á sér stað, og því er pattstaða í samningamálunum. Málið var tekið upp að tilstuðlan Sinhalesa, sem börðust gegn Tamilum í borgarastyrjöldinni sem geisaði í landinu allt fram til ársins 2002, þegar vopnahléi var komið á, og eru andvígir því að Tígrarnir öðlist sess sem fullgildur þátttakandi í stjórnun landsins.
Þetta hefur orðið til þess að Tígrarnir, ásamt óháðum hjálparstofnunum, þurfa nú að sinna öllu hjálparstarfi á svæðum Tamila sjálfir, án þess að fá nokkurn skerf af þeirri neyðaraðstoð sem alþjóðasamfélagið veitir til landsins. Upp af þessu hefur sprottið mikil tortryggni milli gagnstæðra fylkinga í landinu og segja má að stjórnmálaaðstæður í Sri Lanka séu að vissu leyti þær sömu og áður en flóðbylgjan skall á þessa eyju undan ströndum Indlands. Undanfarna daga hafa átökin milli Tamila og Sinhalesa síðan harðnað töluvert og útlit er fyrir að samband fylkinganna sé frekar að versna en að þjóðin hafi færst á nokkurn hátt í friðarátt.
Indónesía
Áður en flóðbylgjan lenti með sínum ógnarmætti á Aceh-héraði í Indónesíu hafði Frelsishreyfing Aceh (Gam) barist harkalega fyrir sjálfstæði héraðsins. Eyðilegging flóðbylgjunnar reyndist þó svo gífurleg að svo virðist sem hugarfar íbúa svæðisins, og meðlima hreyfingarinnar, hafi breyst algjörlega. Þegar áhrifin komu endanlega í ljós varð Gam það ljóst að þeirra fólk þurfti á uppbyggingu að halda en ekki átökum, og lagði til hliðar, að minnsta kosti tímabundið, kröfur sínar um sjálfstæði. Í sáttmála milli hreyfingarinnar og indónesískra stjórnvalda, sem skrifað var undir í kjölfar atburðanna, var því meðal annars lýst yfir að „báðir aðilar eru sannfærðir um að friðsamleg lausn deilunnar sé nauðsynleg fyrir enduruppbyggingu svæðisins.“
Það hefur gengið nokkuð vel að framfylgja skilyrðum sáttmálans; Gam hafa afhent yfirvöldum stóran hluta vopna sinna við hátíðlegar athafnir í héraðinu, og stjórnvöld hafa í staðinn dregið þúsundir her- og lögreglumanna frá svæðinu. Ef svo fer sem horfir má búast við því að töluverðri sjálfsstjórn verði komið á í Aceh-héraði með lögum sem verða lögð fyrir indónesíska þingið í janúar nk. og eiga að taka gildi í lok mars. Í kjölfarið á þessu er búist við kosningum í héraðinu á næsta ári, og því má segja að flóðbylgjan hafi að vissu leyti stuðlað að friði á svæðinu; að minnsta kosti er aukinn samhugur fólksins að auðvelda uppbyggingu í Aceh-héraði til muna.
Á þessu má sjá að náttúruhamfarir á borð við flóðbylgjuna fyrir ári síðan geta haft ólíkar afleiðingar á lönd og þjóðir, og stjórnmálaástand landa getur breyst verulega við stórslys af þessu tagi. Með allar þær náttúruhamfarir yfirvofandi sem vísindamenn segja að ógni tilveru okkar er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir þeim afleiðingum sem svona atburðir gætu haft á líf okkar; það er bara hollt að vera minntur af og til á hvað heimurinn er miklu stærri en næsti kreditkortareikningur eða leiðindin yfir að þurfa að endurvinna mjólkurfernur. En við megum heldur ekki gleyma því að lífið heldur áfram og það væri nú ekkert vitlaust að styðja hvert annað í baráttunni.
Gleðilega hátíð.
- Svarta gullið - 26. maí 2010
- Frumvarpið sem mun breyta Bandaríkjunum - 6. apríl 2010
- Kafbátarnir á kaffistofunum - 29. janúar 2009