Fréttaflutningur um jólin er ávallt af öðrum toga en á öðrum tímum ársins. Áberandi eru fréttir af hvers kyns jólauppákomum, jólaveðrinu á hinum ýmsu stöðum landsins og hvað gert er til að hjálpa hinum bágstaddari í þjóðfélaginu. Fjölmiðlar reyna að búa til fréttir sem lætur fólki líða vel. En fréttir einskorðast þó ekki við þessa flokkun.
Sagt var frá því í fréttum á NFS í gærkvöldi að biskup Íslands trúir ekki á jólasveininn! Hann tók þetta fram í predikun sinni í miðnæturmessu í Dómkirkjunni á aðfangadagskvöld og lét fylgja að hann teldi grýlur og jólasveina í besta falli leik og skemmtun. Það væri mikil synd þegar hinir fullorðnu gerðu ekki greinarmun þar á og rugluðu börn beinlínis í ríminu. Og fyrir nokkrum dögum birti DV það sem forsíðufrétt að séra Flóki Kristinsson, prestur á Hvanneyri, hefði sagt nokkrum 6 ára börnum að jólasveinninn væri ekki til. Ein móðir sagði að það væri augljóst að Flóki hefði ekki fengið í skóinn í mörg ár.
Þessi atlaga kirkjunnar manna að jólasveininum fer misjafnlega í fólk og hafa sumir lýst yfir furðu með tilganginn meðan aðrir, á borð við Jónas Kristjánsson ritstjóra DV, lýsa yfir aðdáun með þetta framtak. Einnig tekur Jónas starfsfólk leikskóla fyrir í grein sinni um að jólasveinninn sé ekki til og segir þeim alfarið að kenna að koma því inn hjá börnum að þau eigi að fá í skóinn alla jólaföstuna og þess vegna séu foreldrar eins og „útspýtt hundskinn“ að útvega sér ódýrt dót til að setja í skó barnanna í desember.
Í fréttatíma RÚV var ítarlega fjallað um grein í vefriti fjármálaráðuneytisins þar sem var farið í kjölinn á þeim vanda að smákökur eigi sér hvergi stað í hefðbundnum mælikvarða hagfræðinganna á landsframleiðslunni. Sérfræðingar ráðuneytisins réðust í reikninga og fengu út að ef þrjár sortir eru bakaðar á vísitöluheimilinu, þá gerir það 225.000 uppskriftir, sem gerir 100 miljónir króna í efniskostnað. Og að gefnum forsendum er útkoman sú að jólabaksturinn í eldhúsum landsmanna sé á 300 milljóna króna virði og verðmætaaukningin í eldhúsunum meira en 100 milljónir. Þetta eru spánnýjar upplýsingar um umtalsverð dulin verðmæti og þessi vinna ráðuneytisins væntanlega undanfari einhverra ráðstafanna ríkisins til að nýta þau með smákökuskatti.
Fyrirtæki sem taka að sér að gera skoðanakannanir sýna einstakan frumleika í störfum sínum á þessum tíma árs þegar fólk vill fá þægilegar fréttir. Enda gripu allir fjölmiðlar á lofti, sem undirrituð heyrði í eða sá, þær sláandi niðurstöður sem skoðanakönnun IMG um vinsælasta jólasveininn sýndi. Ekki þótti nóg að spurja einungis hvaða jólasveinn félli best í kramið hjá fólki heldur var meðfram spurt um stjórnmálaskoðanir. Þannig má sjá að Stúfur hlýtur mest þverpólitískt „fylgi“ nema hjá Vinstri-grænum sem halla sér frekar að Kertasníki. Þegar þessi orð eru skrifuð hafa enn engin viðbrögð borist frá forystu Vinstri-grænna sem útskýra hvernig þessi útkoma sé lýsandi fyrir stóriðjustefnu stjórnvalda, né frá forystu Samfylkingarinnar til að útskýra afhverju þeir séu á sömu línu og Sjálfstæðisflokkurinn.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021