Sveitalubbalógík

Síðan Félag Framfarasinna leið undir lok hefur verið frekar hljótt í kringum þá aðila sem eru mest á móti innflytjendum hér á landi. Formaður félagsins hefur hins vegar dúkkað upp aftur og hefur ýmislegt skemmtilegt á prjónunum.

Fyrir nokkrum árum tók einn einstaklingur sig til, stofnaði Félag Framfarasinna og gerði sjálfan sig að formanni félagsins. Varð félagið fljótlega af mörgum skilgreint sem einn af þremur helstu rasistaklúbbum á Íslandi ásamt Félagi Þjóðernissinna og Hinni nýju arísku upprisu. Reyndar er það skilgreiningaratriði hvort félagið hefur verið raunverulegt félag því formaðurinn hefur trúlega alltaf verið eini meðlimur þess.

Óopinbert markmið Félags Framfarasinna lítur út fyrir að hafa verið að sýna Íslendingum að það væri raunverulegt innflytjendavandamál á Íslandi og voru gerðar ítrekaðar tilraunir til að hæpa upp allt sem tengdist innflytjendum hér á landi. Urðu þannig ósköp venjuleg skólaslagsmál í Breiðholti að gífurlegu innflytjendavandamáli. Héldu samtökin út vefsíðu sem var hið besta skemmtiefni sökum þessa langsótta og fjarstæðukennda hræðsluáróðurs. Þessum unga hrædda einstaklingi varð hins vegar ekki að ósk sinni. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá keypti enginn þá hugmynd að hér væri allt í kalda koli í málefnum innflytjenda. Var sjoppunni því lokað.

Sveitalubbalógik

Á sínum tíma gekk aðferðarfræði formannsins út á að heimfæra neikvæðar fréttir af útlendingum upp á alla útlendinga eða einstaka kynþætti (aðallega fólk með annan húðlit). Þegar hann fann eitthvað misjafnt sem hægt var að tengja við nýbúa, hér á landi eða erlendis, þá stökk hann til og notaði tilefnið til að rökstyðja ýmsar hugmyndir um aðgerðir gegn búsetu eða flutningi útlendinga til landsins. Yfirleitt var ekki minnst á ástæður vandræðanna ef þær voru nýbúanum hliðhollar eða nokkuð sem gæti skýrt málið. Allur málflutningurinn byggir á því að nýbúi hafi tengst vandamálunum og uppruna hans kennt um. Vandamálin voru þannig heimfærð á alla nýbúa og notuð til að kynda undir þeirri trú að innflytjendur væru almennt orsök vandamála og afbrota.

Aðferðarfræði formannsins mætti í besta falli kalla sveitalubbalógik þar sem hún gekk út á að dæma heilu þjóðfélagshópana af atferli eins eða tveggja einstaklinga innan hans. Staðreyndin er vitaskuld sú að þegar úr stóru úrtaki (t.d. glæpa) er að velja, eins og óhjákvæmilegt er í sæmilega stóru samfélagi, er leikandi létt að draga út einstaklinga úr hvaða hóp sem er og finna „fréttir” sem gefi vísbendingar um að einstaklingar úr þeim hópi séu grunsamlegri en aðrir.

Framfarir.net snýr aftur

Nú hefur formaður Félags Framfarasinna dúkkað upp aftur með nokkrum nýjum félögum á vefriti sem er kennt við íhald, með nýjan boðskap. Í stað þess að boða hatur á innflytjendum með þjóðernisívafi gengur endurnýjuð stefna formannsins út á að útbreiða hatur á múslimum með frjálshyggjuívafi. Er hann tvímælalaust farinn að taka mun stærra upp í sig því andúð formannsins forðum beindist nær eingöngu að innflytjendum á Íslandi.

En formaðurinn hefur engu gleymt. Að vanda þá tínir hann til afbrot og hótanir nokkurra öfgafullra múslima til að varpa rýrð á alla þá múslima sem búa í Evrópu. Er farið um víðan völl eins og á framfarir.net forðum og eingöngu neikvæðum fréttum um múslima varpað fram. Eins og áður er ekkert fjallað um þá hlið mála sem gæti verið viðkomandi einstaklingum til málsbóta. Aðalmálið er að viðkomandi er múslimi. Sem dæmi má nefna umfjöllun formannsins um morðið á Theo Van Gough. Eins og sú staðreynd að kvikmyndagerðarmaðurinn hafi verið drepinn af trufluðum öfgafullum múslima (sem NB var fæddur og uppalinn Hollendingur) sanni eða sýni nokkuð um þann milljarð einstaklinga sem iðka islam!

Af hverju stofnuðu þeir ekki Háskóla?

Formaðurinn hefur hins vegar ekki látið staðar numið við endurvakningu á því skemmtilega rugli sem hægt var að finna á framfarir.net. Það nýjasta er að hann og strákarnir hans hafa stofnað svokallaða “hugveitu” sem hefur fengið hið kaldhæðnislega og þversagnakennda nafn Veritas.

Án þess að ætla að gera lítið úr þessu framtaki hjá strákunum þá vakna eðlilega upp nokkrar spurningar um hæfni þeirra til reksturs slíks batterís. Maður myndi í fljótu bragði halda að til að halda úti „hugveitu” þá þyrftu viðkomandi að hafa lágmarksþekkingu á rannsóknum og fræðistarfi. Burt séð frá augljósum skorti á menntun og reynslu á þessu sviði þá hlýtur að vera eðlilegt að efast um færni einstaklinga til að reka „hugveitu” þegar þeir eru þekktir fyrir sveitalubbalógik sem myndi ekki vera tekin gild í sex ára bekk.

Engu að síður er ljóst að strákarnir eru ansi stórhuga og verður það að teljast virðingarvert. Maður hlýtur hins vegar að spyrja sig af hverju þeir stoppuðu við “hugveitu”. Fyrst þeir voru á annað borð lagðir af stað þá hefðu þeir alveg geta stofnað rannsóknarháskóla eða geimrannsóknarstöð.

Að mati undirritaðs þá hefði það verið alveg jafn lógískt!

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.