Partýfloppfræði

Sum partý eru bara mislukkuð – flopp. Partý sem litu svo lofandi út í byrjun kvölds lognast í skyndingu út af og deyja meðan önnur umbreytast í óskilgreint orkuform með tilheyrandi tryllingi. Hvað veldur?

Sum partý eru bara mislukkuð – flopp. Partý sem litu svo lofandi út í byrjun kvölds lognast í skyndingu út af og deyja meðan önnur umbreytast í óskilgreint orkuform með tilheyrandi tryllingi. En hvað veldur?

Áður fyrr þurfti partýfólk einfaldlega að gera það upp við sig í byrjun kvölds hvert halda skyldi. Þannig var oft í von og óvon rennt af stað í partý í algerri óvissu um hverjir myndu láta sjá sig eða hvort og hversu miklu stuði og stemningu mætti búast við. Ægileg angist það.

Þetta er ekki lengur málið. Farsímavæðingin hefur orðið þess valdandi að partýfólk getur með hjálp tækninnar á örskotsstundu tekið púls á félögum sínum í öllum þeim partýum sem í boði eru og valið það teiti sem líklegast er til árangurs, þ.e. góðrar skemmtunar – þeirrar bestu sem völ er á þetta kvöldið. Þannig virðast vandi partýþyrstra vera leystur. En tveir þýskir eðlisfræðingar eru á annarri skoðun, og segja þeir þessa þróun vera uppskrift að hörmungum.

Þeir telja að hin auknu og auðvelduðu félagslegu samskipti sem farsímabyltingin hefur haft í för með sér sé hægt að einkenna með breytunni α, og með henni sé hægt að ákvarða ákveðna fasta dreifingu partýfólks í teitum. Á ákveðnum tímapunkti í partýhöldum, αc (c:critical),verði hinsvegar vart við það að skyndilega tæmast næstum öll partýin með þeim afleiðingum að allt partýfólkið safnast saman í aðeins einu partýi. Þeir hafa því búið til módel sem er byggt á því sem kalla má „ virðingarröð félagslegs tengslanets“.

Líkurnar á því að ákveðin manneskja sé tengd annarri manneskju byggjast á félagslegri fjarlægð þeirra innan tenglsnetsins og breytunni α, og má finna þær út frá jöfnunni:

P(xij) = exp(-αxij)/Σln=1 exp(-αn )

(hér táknar n=fjölda fólks í vinahópi, l=stig félagslegra tengsla og xij=félagslega fjarlægð)

Á þessu módeli byggja þeir Marian Brandau og Steffen Trimper stórfróðlega ritgerð sína, The Network of Social Groups or Let´s have a Party, sem finna má hér. Í henni sýna þeir á fræðilegan máta fram á skelfileg örlög flestra partýhaldara, sem þurfa að horfast í augu við það að í ljósi tæknivæðingar og virkra félagstengsla sé óumflýjanlega aðeins eitt partý sem heldur velli innan ákveðins félagsmengis hvert kvöld. Partýflopparar allra landa geta huggað sig við að þó að óumflýjanleiki þessarar misskiptingar sé staðfestur er óútreiknanleiki hennar það einnig.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.