Fyrir tveimur mánuðum rakst ég á skemmtilega grein í dönsku blaði. „Snjallir stúdentar sleppa því að taka námslán,“ var fyrirsögnin. Í greininni var stutt viðtal við danskan nema sem kvartaði yfir því að námslánin væru of há.
„Það er ömurlegt að geta ekki ákveðið hve mikil námslán maður tekur,“ kvartaði stúdentinn. „6000 danskar krónur á mánuði er einfaldlega allt of mikið.“ Þetta sýnir kannski hve ólíkar væntingar námsmenn í mismunandi löndum geta haft til tilverunnar.
Í kringum umræðuna um styttingu framhaldsskólans hafa nokkrir andstæðingar breytinganna bent á að í Danmörku séu menn að jafnaði ekkert fljótari með nám, þrátt fyrir að framhaldsskólinn sé styttri. Þessar upplýsingar er skemmtilegur fróðleikur en eiga lítið erindi inn í umræðuna. Það er út í hött að ýja að því að íslensk ungmenni muni að jafnaði ekki komast fyrr í háskóla eftir breytingarnar, bara út af því að Dönum hafi almennt gengið illa að fá fólk ungt fólk til að taka nám sitt föstum tökum.
Fyrir því eru nokkrar ástæður. Í Danmörku fá allir allir danskir námsmenn 18 ára og eldri, svo kallaðan SU-styrk, sem er vasapeningur frá ríkinu til námsmanna. Styrkurinn er u.þ.b. 40. þúsund íslenskar krónur á mánuði og greiðist þangað til viðkomandi hættir í námi eða nær ákveðnum aldri.
Umræddur peningur er auðvitað ekki nóg til að lifa af, dugar oftast rétt svo fyrir leigunni. Hins vegar er hægt að taka námslán með eða, eins og flestir kjósa að gera, vinna með námi, enda eru dönsku námslánin óhagstæðari en þau íslensku, og fólk vill skiljanlega vera skuldlaust að námi loknu ef kostur er.
Þetta hefur hins vegar þær afleiðingar að margir kjósa að taka einungis 70 % tilskildra eininga á hverri önn eða gera reglulega hlé á námi sínu. Meðaltími sem það tekur danska nemendur að ljúka meistaragráðu er þannig 6,5 ár, einu og hálfu ári lengur en það sem „eðlileg“ getur talist.
Íslenska námslánakerfið er þannig mun meira hvetjandi en það danska. Það er hagkvæmt fyrir fólk að ljúka námi sínu sem fyrst, því öfugt við það sem gerist í Danmörku fá námsmenn á Íslandi ekki gefins pening í hverjum mánuði. Raddir um að breyta SU-styrknum alfarið í námslán hafa vissulega heyrst hér í Danmörku en en frá pólitísku sjónarhóli er afar ólíklegt að þær hugmyndir verði að veruleika.
Vissulega þurfa námslánin að vera í sífelldri endurskoðun og vafalaust margt í íslenska kerfinu sem mætti betur fara. En ef hugmyndin er að hvetja fólk til að taka námið föstum tökum er íslenska kerfið allavega mun betra en það danska.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021