Mér datt í vikunni í hug bráðsnjöll hugmynd. Að mínu mati er hugmyndin svo snjöll að hægt er að verða ríkur eða komast til mikilla valda í íslensku atvinnulífi með því að beita henni. Ég segi ykkur þetta því í algjörum trúnaði og vinsamlegast segið engum frá þessu því að þetta er mín hugmynd. Yfirtökunefnd má alls ekki frétta þetta því hún gæti ályktað um málið og þá er voðinn vís!!
Hugmyndin snýst um það að kaupa atkvæðisrétt í almenningshlutafélögum, án þess að greiða fyrir það. Síðan myndi ég annað hvort selja atkvæðisréttinn áfram – suss, ekki segja – eða einfaldlega láta kjósa mig í stjórn og maka krókinn á feitum stjórnalaunum. Einfalt – ekki satt?
En hvernig datt mér þessi bráðsnjalla hugmynd í hug? Kveikjan var samningur Baugs, Oddaflugs og Landsbankans til að forðast yfirtökuskyldu í FL Group. Oddaflug og Baugur voru taldir háðir aðilar af Yfirtökunefnd og áttu samtals yfir 40% í FL Group, eða nánar tiltekið 49,7%. Yfirtökuskylda miðast við 40% og er háð atkvæðamagni sem eigendur ráða yfir frekar en eignarhluta í hlutabréfum og var því félögunum úrskurðuð yfirtökuskyld.
En hvernig tókst félögunum að minnka atkvæðavægi sitt niður fyrir 40% og það án þess að fórna hugsanlegum ávinningi af hækkun allra bréfanna 49,7%? Félögin lánuðu einfaldlega Landsbankanum atkvæðisréttinn með bréfum sínum í FL Group. Ekki nema að Landsbankinn hafi lánað félögunum væntan ávinning sinn af atkvæðisrétti sínum í FL Group. Það fer svona eftir því hvernig litið er á það. Með þessu komust félögin hjá yfirtökuskyldu því að samanlagður atkvæðafjöldi sem þau ráða yfir fór undir 40%.
Hér vaknar aftur spurningin sem Jón Hreggviðsson glímdi við fyrir nokkrum árum, með takmörkuðum árangri: „Hvenær fer maður með atkvæðisrétt, og hvenær fer maður ekki með atkvæðisrétt?“ Það virðist a.m.k. ekki vera nóg að njóta ávaxta eða taps eigna til að teljast löggildur rétthafi atkvæðisréttar sem þeim fylgir. Það er líka hægt að veita mönnum umboð til að fara með atkvæðisrétt, t.a.m. ef ég kæmist ekki á stjórnafund gæti ég veitt hverjum sem er umboð til að fara með atkvæði mitt á fundinum.
Hefðu þá Oddaflug og Baugur komist upp með það að veita bara einhverjum þriðja aðila umboð til að fara með atkvæðisrétt fyrir sig? Nei, líklega ekki því svona umboðsveseni fylgir eiginlega skuldbinding umboðshafa að hann verði að kjósa í þökk atkvæðisréttarhafans.
En hvað þegar sá sem hefur atkvæðisréttinn þiggur þóknun fyrir eins og í tilfelli Landsbankans? Er þá hægt að fullyrða að atkvæðisréttarhafinn (Landsbankinn) hafi frjálst, óskorðað vald yfir atkvæðisréttinum? Er sá aðili ekki ávallt háður þeim sem nýtur hagnaðarins af eigninni?
Eflaust á Jón Hreggviðsson jafnerfitt með að svara þessum spurningum og ég.
En víkjum nú aftur að hugmyndinni sem ég sagði ykkur frá í upphafi pistilsins. Það sem ég ætla að gera er einfaldlega að bjóðast til að fara með atkvæðisréttinn fyrir Oddaflug og Baug án endurgreiðslu. Þessir aðilar hljóta að taka því tilboði þar sem þeir eru að greiða Landsbankanum í dag fyrir að fara með atkvæðisréttinn en ég myndi gera það ókeypis. Ég væri því að undirbjóða Landsbankann á markaði fyrir atkvæðisrétti. Þegar atkvæðisrétturinn væri staðfastlega orðinn minn myndi ég boða til hluthafafundar og láta kjósa nýja stjórn og mig að sjálfsögðu í hana. Þar myndi ég maka krókinn á því að naga blýanta og gera ekki neitt. Nú annar möguleiki væri að framselja atkvæðisréttinn til annarra stórra hluthafa sem kannski eru að berjast um völdin. Þeir myndu eflaust borga vel fyrir hann og ég myndi stórgræða án þess að hafa lagt út krónu. Gott – plott?
Ég ítreka líka það sem ég sagði í upphafi pistilsins – EKKI SEGJA YFIRTÖKUNEFND frá plottinu því þá gæti hún ályktað og þá er voðinn vís. Menn óttast nefnilega ályktanir nefndarinnar eins og heitan eldinn og fara því eftir fyrirmælum hennar. Nefndin er nefnilega svona lögga án handtökuheimildar. Hún segir þér hvenær þú hefur brotið af þér og ef þú bætir þig ekki eins og skot sigar hún hugsanlega á þig alvöru löggunni og það vill enginn.
Mikið væri nú gott að hafa svona forlöggu líka á öðrum sviðum sem lætur mann vita hvenær maður hefur brotið af sér því að þá þyrfti enginn að hafa fyrir því að læra lög og reglugerðir. Forlöggan myndi bara skamma mann og maður passaði sig að gera þetta ekki aftur.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008