Í bandaríska dagblaðinu New York Times í gær var fjallað um hversu flókin venjuleg heimilistæki eru að verða. Þar er sagt frá því að nú séu frumkvöðlar víða um heim farnir að kveikja á perunni og byrjaðir að selja svokölluð “nostalgíu” heimilistæki. Þar má m.a. kaupa útvarpstæki án stafrænna takka og fleira í þeim dúr. Hafa þessi tæki rokið út og náð mikilli fótfestu.
Kaupendur þessara tækja eru ekki aðeins tæknifælnir og eldri borgarar heldur er ungu fólki einnig farið að ofbjóða hversu miklir “möguleikar” (flestir auðvitað algjörlega óþarfir) eru orðnir innbyggðir í hin ýmsu tæki. Þessir valmöguleikar margir hverjir svo flóknir að fólk þarf verulegrar þjálfunar við til þess að geta nýtt sér tækin til fulls, en það sem meira er – mörg tæki eru orðin þannig að mikla kunnáttu þarf til þess að geta nýtt sér grundvallarfúnksjónir tækjanna.
Að mörgu leyti má segja að margt í nútímasamfélagi, sem upphaflega hefur þann tilgang að auðvelda okkur lifið, hafi í raun þveröfug áhrif. Þess vegna eru það gjarnan þeir, sem setja á markað einfaldöldustu lausnirnar, sem ná hvað mestum árangri. Það er því ekki fortíðarþrá sem veldur því að fólk sé orðið afhuga allri þessari tækni inni á heimilinum heldur einföld ósk um einfaldleika.
En einfaldleikinn höfðar ekki til allra. Alþingismenn virðast ágætt dæmi um það. Á hverju ári eru hundruð nýrra laga og þúsundir reglugerða gefnar út og ber þegnum landsins ófrávíkjanleg skylda til þess að fylgja fyrirmælum þeirra. Þó virðist það vera sjaldnar sem raddir heyrast um að minnka þurfi flækjustig í lagaumhverfinu heldur en nýjar kröfur um flóknari lög með fleiri undantekningarreglum og sérstökum sjónarmiðum líta dagsins ljós.
Sá munur er á rafknúnum heimilistækjum og lögum frá Alþingi er auðvitað sá að menn geta verið sektaðir eða fangelsaðir fyrir að hlíta ekki reglum Alþingis og engin viðurlög eru við því að kunna ekki á vídeótækið sitt. Það er hins vegar brýnt að alþingismenn og ríkisstjórn taki oftar á málum með því að horfa yfir skóginn og mega þeir gjarnan hafa í huga að jafnvel Guð almáttugur lét sér nægja tíu boðorð til þess að koma skilaboðum sínum um hvað teldist eðlileg hegðun áleiðis til mannkynsins. Eins er ágætt að hafa í huga orð Alberts Einsteins sem sagði að gera ætti hlutina eins einfalda og mögulegt sé, en þó ekki einfaldari.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021