Í Helgarsproki Vefþjóðviljans síðastliðinn laugardag birtist athyglisverð umfjöllun um bókina Vienna & Chicago: Friends or Foes? A Tale of Two Schools of Free-Market Economics eftir Mark Skousen. Í bókinni eru kennisetningar hins svokallaða austurríska skóla í hagfræði bornar saman við rannsóknir hagfræðinga sem starfað hafa við Chicago-háskóla. Enginn vafi leikur á því að höfundur Helgarsproksins er hrifnari af austurríska skólanum og þá sérstaklega aðferðafræðinni sem fylgismenn hans aðhyllast.
Að sögn Helgarsproksins er stóri munurinn á aðferðafræði austurrísku hagfræðinganna og hagfræðinganna frá Chicago að Chicago hagfræðingarnir (eins og nánast allir aðrir hagfræðingar) styðja kenningar sínar með reynslurannsóknum en það gera austurrísku hagfræðingarnir ekki. Rökin sem Helgarsprokið færir gegn reynslurannsóknum fyrir hönd austurrísku hagfræðinganna eru ákaflega athyglisverð:
“Austurrísku hagfræðingarnir hafa hins vegar hafnað því að verulegu leyti að söfnun og rannsóknir á hagstærðum með aðferðum raunvísindanna séu til gagns þótt austurrískir hagfræðingar á borð við Murray N. Rothbard hafi vissulega nýtt sér þær til að styðja eigin kenningar um til að mynda ástæður kreppunnar. Í stað þess að sanka að sér óljósum hagstærðum og meðhöndla þær í reiknilíkönum eins og hvert annað verkfræðilegt viðfangsefni telja austurrísku hagfræðingarnir að menn eigi fyrst og síðast að líta á sjálfan einstaklinginn, athafnir hans og ákvarðanir. Mises hafnaði því til að mynda að hægt væri að afsanna hagfræðikenningu með því að bera hana saman við hagtölur um liðna tíð. Austurrísku hagfræðingarnir líta því á hagrannsóknir sem tvíeggjað vopn. Hagrannsóknir geti hugsanlega nýst til að styðja við kenningar um frjálsan markað en þeir megi einnig nota gegn frjálsum viðskiptum eins og mörg dæmi séu um.”
Brillíant!!!
Það er vitaskuld ótækt að notast við aðferðafræði sem unnt er að nota gegn frjálsum viðskiptum. Það býður bara þeirri hættu heim að niðurstaðan verði röng. En vissulega má samt sem áður nota þessa aðferðafræði “til að styðja eigin kenningar”. Bara ekki almennt séð.
Þau mega eiga það í Helgarsprokinu að þau eru ekkert að fara í felur með þá staðreynd að skoðanir þeirra varðandi frjáls viðskipti eru ekkert annað en trúarbrögð. Og þau eru ekkert feimin við að viðurkenna að þau líta allar upplýsingar úr reynsluheiminum hornauga.
Nú á ég reyndar bágt með að átta mig á því hvað þau eiga við þegar þau tala um að “líta á sjálfan einstaklinginn, athafnir hans og ákvarðanir”. Ég veit ekki betur en að stór hluti af þeim reynslurannsóknum sem hagfræðingar í Chicago vinna að séu einmitt þess eðlis að þeir séu að líta á athafnir og ákvarðanir einstaklinga, t.d. neysluvenjur einstaklinga og ákvarðanir einstaklinga á vinnumarkaðinum. Ég er nokkuð viss um að Steven Levitt, James Heckman og Kevin Murphy yrðu hissa ef því væri haldið fram við þá að þeir væru ekki að “líta á sjálfan einstaklinginn, athafnir hans og ákvarðanir” í rannsóknum sínum.
En frá sjónarhóli trúarbragðafræði ef vitaskuld best að halda allri stærðfræði og öðru sem gerir rannsóknir of nákvæmar í hæfilegri fjarlægð. Það veitir þeim sem vinnur rannsóknirnar ákveðið frelsi til þess að komast að réttri niðurstöðu.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009