Ef David Cameron leiðir breska Íhaldsmenn til sigurs í næstu þingkosningum þar í landi og bindur þar með enda á valdatíma Tony Blairs og Verkamannaflokksins í breskum stjórnmálum, munu menn líta til þeirra fyrstu orðaskipta í fyrirspurnatíma í breska þinginu 7. desember 2005 og komast að þeirri niðurstöðu að eftirfarandi ummæli Camerons hafi gefið nýjan tón, tóninnn sem íhaldsmenn þurftu til að brjótast út úr eymdarástandi síðustu ára:
„This approach is stuck in the past and I want to talk about the future. You were the future once,“ og beindi hann þessum orðum að Tony Blair sem eitt sinn var ungur og ferskur, en sat þarna gugginn og grár andspænis hinum leiftrandi nýja leiðtoga íhaldsmanna.
Sannarlega góð byrjun hjá Cameron, en hans bíður þó mikið verk ef honum á að takast að hefja breska Íhaldsflokkinn til forystuhlutverks á nýjan leik. Tilvistarkreppa breskra íhaldsmanna hefur verið átakanleg síðustu árin. Á meðan Blair hefur sópað til sín fylgi af miðjunni og jafnvel þeirra sem teljast til hægrimanna, hefur Íhaldsflokkurinn gengið fram með þeim hætti að helst verður jafnað við einbeitta sjálfseyðingarhvöt.
Fátt er mikilvægara í pólitík en að skynja tíðarandann. Tímasetning skilur milli feigs og ófeigs í hinum pólitíska hildarleik. Blair kom fram á sjónarsviðið á sínum tíma þegar Íhaldsflokkurinn var bókstaflega með allt niðrum sig, og gilti þá einu hvort um var að ræða skoðanakannanir eða að háttsettir meðlimir hans væru að láta koma upp um sig í ástarleikjum íklæddir búningum uppáhaldsknattspyrnuliðsins síns – ef minni pistlahöfundar bregst ekki, þá hafði einn framámanna flokksins hengt sig fyrir slysni við að leita fróunar í ástarleik með nælonsokkabuxur vafnar um hálsinn. Blair tókst að kefla stækustu kommana í Verkamannaflokknum með fyrirheitum um nýtt valdaskeið – og hann stóð við það.
Nú bendir hins vegar margt til þess að taflið sé að snúast við. Blair er í bullandi vandræðum með sína flokksmenn og tapaði á dögunum atkvæðagreiðslu í þinginu um mál sem hann lagði á mikla áherslu og tengdist svonefndri hryðuverkaógn. Íhaldsmenn eru orðnir svo langeygir eftir valdastólum að þeir eru líklegri en þeir hafa verið um langt skeið að sópa innbyrðis skoðanaágreiningi undir teppið og fylkja sér að baki nýjum leiðtoga í þeirri von að endurheimta völd sín og áhrif í bresku þjóðfélagi.
Lykillinn að hugsanlegum sigri breska Íhaldsflokksins liggur í mögulegri fylgisaukningu meðal yngstu kjósendanna. Fram til þessa hefur flokkurinn og ásýnd hans haft álíka skírskotun til ungra kjósenda og háttvirtur alþingismaður Jón Bjarnason. Takist Cameron að búa til stemmningu fyrir Íhaldsflokknum meðal yngri kynslóða Breta eru meiri líkur en minni á því að hann flytji inn á Downingstræti 10 að loknum næstu kosningum – og byrjunin lofar nokkuð góðu.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021