iPod Video frá Apple
|
Ég fór í bæinn að skemmta mér fyrir nokkrum vikum og þar sem ég stóð við barinn og sötraði minn bjór kom maður gangandi með hvít heyratól. Þetta getur ekki verið! Justin Timberlake í 130 db á Hverfisbarnum og maðurinn er að hlusta á iPod. Jæja, hann er þá ekki mikill Justin aðdáandi. Ég spurði hann hvað hann væri að gera með iPod á djamminu. Hann sagðist ekki fíla tónlistina. Ég held að hann hafi reyndar verið eitthvað skrítinn. En samt. Þegar fólk elskar iPodana sína svo mikið að það fer með þá að skemmta sér þá fer maður að hugsa hvort þetta sé eitthvað meira en stafrænn tónlistarspilari. iPod er svona hlutur sem manni finnst einhvernvegin passa ótrúlega vel inn í líf manns. Það er erfitt að lýsa því. Kannski eins og farsíminn, hvernig gat maður verið án hans? Þegar fólk eignast iPod þá er eins og það tengist honum tilfinningaböndum. Hann verður órjúfanlegur hluti af lífi manns.
iPod var kynntur af Apple tölvufyrirtækinu fyrir rúmum 4 árum. Rétt eftir 11. september 2001. Síðan þá er Apple búið að selja næstum 30 milljónir stykkja og þeir seljast alltaf hraðar og hraðar. Markaðshlutdeild iPod á stafræna tónlistarspilaramarkaðnum í Bandaríkjunum er nú 80% og fer hækkandi, a.m.k. enn þá. Og nú er Apple búið að kynna nýja línu af iPod spilurum sem nota s.k. flash minni í stað harða disksins áður og því verða þeir ódýrari en þó með mun minna minni.
Það er ekki eins og Apple hafi verið að finna upp hjólið þegar þeir kynntu spilarann í október 2001. Fyrsti iPoddinn var spilari sem notaði 1.8 tommu harðan disk til geymslu en aðrir þannig búnir spilarar notuðu 2.5 tommu harðdiska og voru þess vegna mun stærri. Margir aðrir spilarar höfðu verið á markaðnum í nokkur ár, m.a. frá Creative, Rio og fleiri fyrirtækjum sem gáfu nýja spilaranum frá Apple ekkert eftir, a.m.k. tæknilega. Hönnunarlega hafði Apple mikið forskot (Með iPod eins og í öðrum vörum sem þeir framleiða). Forskot iPod lá einnig í því að til þess að setja inn á hann lög var notuð s.k. FireWire snúra í stað USB 1.1 sem þykir mjög hægvirk og þannig var hægt að fylla harða diskinn (sem var 5 gb í fyrsta spilaranum) á u.þ.b. 10 mín (Nú er kominn USB 2 staðallinn sem er nánast jafn hraðvirkur og FIreWire) Að auki hjálpaði hið nána samband iPod spilarans og hugbúnaðarins iTunes sem er tónlistarforrit sem Apple kynnti nokkru áður en iPod kom út. Með því var auðvelt að setja tónlist af geisladiskum inn á tölvuna sína og halda við tónlistarsafninu sínu. Með tilkomu iPod jókst notagildi iTunes þannig að hægt var að færa lög beint úr iTunes og inn á iPod – ekkert vesen.
Eftir hálft ár stækkaði iPod spilarinn upp í 10 gb og fljótlega kom 20 gb eintak á markað. Í júlí tók Apple svo afdrifaríka stefnu þegar þeir kynntu að iPod væri hægt að nota á Windows. Fræg voru orð Steve Jobs, forstjóra Apple, þegar hann kynnti iTunes fyrir Windows: „Þetta er sennilega besti hugbúnaður sem til er á Windows.“ Við þetta stækkaði náttúrulega væntanlegur viðskiptamannahópur mjög mikið því þangað til þurfti maður að eiga Makka til þess að geta notað iPodinn sinn.
Nú er Apple nýlega búið að kynna nýjan og endurhannaðan iPod með video afspilunarmöguleika. Þessi iPod nýtir harðan disk til geymslu á efninu. En helstu byltinguna er sennilega ekki að finna í iPodinum sjálfum því tæki sem spila video hafa verið til í nokkurn tíma heldur er efnisveitan sem Apple hleypti af stokkunum á sama tíma mjög athyglisverð og spennandi verður að fylgjast með þróuninni á henni. Eins og áður segir virka iTunes og iPod mjög vel saman, svo vel að ekki er hægt að spila tónlist sem maður kaupir í iTunes Music Store (ITMS) í öðrum tónlistarspilurum. Þetta er líka stór ástæða fyrir velgengni iPod og iTMS því hvort tveggja styður hitt. Og nú ætlar Apple að gera nákvæmlega sama hlutinn, með video. Strax var hægt að kaupa vinsælustu þætti ABC sjónvarpsstöðvarinnar á iTMS*, Lost og Desperate Housewives ásamt ýmsum stuttmyndum Pixar og stóru safni af tónlistarmyndböndum. Eftir því sem tíminn líður má svo búast við því að við bætist fleiri og fleiri þættir ásamt bíómyndum. Þetta efni er svo hægt að setja beint inn á iPod Video og horfa á á honum eða tengja hann beint í sjónvarp og spila beint af honum. Algjör snilld.
Það verður spennandi að sjá, a.m.k. finnst mér það, hvað gerist í framhaldinu hjá Apple. iPod Video lofar góðu og spennandi verður að sjá hvort iTMS verði ekki áður en langt um líður ein stærsta hreyfimyndasala í BNA eins og hún er í tónlistarsölunni.**
*kemur svo sem ekki á óvart að þeir hafi verið fyrstir þar sem Disney á ABC og er í miklu samstarfi við Pixar en Steve Jobs, forstjóri Apple, er stór hluthafi í því og stjórnarformaður.
**Nýlega var listi yfir stærstu tónlistarsölufyrirtæki í BNA og er iTMS þar í 7. sæti.
- Hvít heyrnartól - 2. desember 2005
- Aðeins um nýjustu geisladiskana - 12. október 2005
- Iðnaðarleyndarmál frítt til Kínverja - 3. september 2005