Svo virðist sem þverpólitísk sátt sé að nást á Íslandi um að hér verði komið á heimsins leiðinlegasta kosningakerfi. Að mörgu leiti er það skiljanlegt enda eru íbúar höfuðborgarsvæðisins orðnir þreyttir á því að vera undirmannaðir á Þingi. Hins vegar má vel jafna atkvæðavægi án þess að gera landið að einu, hundleiðinlegu, kjördæmi.
Sögukennari einn sagði mér einu sinni að stjórnarskrárbreytingar á Íslandi verið framkvæmdar af þremur ástæðum: til að auka réttindi borgaranna, auka sjálfstæði gagnvart Dönum eða minnka völd Framsóknarflokksins. Hið mikla fylgi Framsóknar í dreifbýli hefur nefnilega oftast nýst flokknum vel í þeim kosningakerfum sem við lýði hafa verið hér á landi.
Af einhverjum ástæðum hefur það víst alltaf þótt sjálfsagt, eða a.m.k. pólitískt mest framkvæmalegt, að landsbyggðin fengi fleiri þingmenn en Reykjavík. Og þrátt fyrir ástæðan væri alltaf sú að þetta væri Framsóknarmönnum hagstætt hafa menn í gegnum tíðina reynt að finna aðrar og „betri“ ástæður.
Ein þeirra var sú að þingmenn dreifbýlis ættu erfiðara með að ferðast um í kjördæminu sínu og spjalla við kjósendur. Vondir vegir og svona. Þetta er hiklaust skásta ástæðan en réttlætti þó að sjálfsögðu ekki fimmfaldan þingstyrk Vestfjarða miðað við Reykjanesið, eins og þetta var þangað til nýlega. Önnur ástæða átti að vera sú að lágt þjónustustig út á landi réttlætti á einhvern hátt fleiri þingmenn. Enn ein: fiskur er veiddur út á landi; og íslenska þjóðin lifir á fiski.
Og svo var fólki sagt að í raun skipti þetta engu máli. Því út af jöfnunarþingsætum væri landið í raun þegar eitt kjördæmi. Reyndar er það rétt að pólitískur styrkur á Alþingi er nú í samræmi við fylgi á landsvísu. Það er bara spurning hvers vegna Reykvíkingar og Hafnfirðingar þurfa að kjósa Austfirðinga og Vestfirðinga sem fulltrúa sína á þing í stað þess að velja þangað Reykvíkinga og Hafnfirðinga. Sérstaklega í ljósi þess hve duglegir þingmenn landsbyggðarinnar eru að sinna málefnum kjördæma sinna (en ekki málefnum Reykvíkinganna sem komu þeim á þing).
En samt hafa fáar þjóðir kosið að gera land sitt að einu kjördæmi; Írak er stærsta dæmið sem ég þekki. Helsti galli við kosningar í stórum kjördæmum er hve erfitt er að búa til kerfi sem gerir persónukjör mögulegt. Flest slík kerfi eru annaðhvort mjög flókin eða „ósanngjörn“. Ef því kerfi sem Danir nota í sveitarstjórnarkosningum yrði t.d. komið á á Íslandi væri líklegt að flokksformenn fengju tugi þúsunda atkvæða á landsvísu meðan aðrir næðu inn á þing með minna en 50 atkvæðum.
Það hníga öll rök að því jafna beri atkvæðavægi og skiljanlegt að margir keppi að því gera landið að einu kjördæmi, sannfærðir um að önnur kerfi verði alltaf bjöguð, á kostnað íbúa suðvesturhornsins. Við eigum auðvitað að jafna atkvæðavægi, en sú lausn sem menn stefna að er, í sannleika sagt, steingeld og hundleiðinleg. Jafnvel á norðurevrópskan mælikvarða.
Viðauki
Lítið mál er að láta fjölda þingmanna í kjördæmum einfaldlega vera í samræmi við íbúafjölda. Þá væri reyndar góð hugmynd að skipta stærsta núverandi kjördæmi Suðvesturkjördæmi í tvennt: Hafnarfjörður, Garðabær og Álftanes yrðu í einum hluta en Kópavogur, Seltjarnarnes og Mosfellsbær í hinum (þetta mætti skv. stjórnarskrá). Þingmenn myndu þá skiptast niður á kjördæmin með eftirfarandi hætti:
Reykjavík-N 12
Reykjavík-S 12
Kragi norður 8
Kragi suður 7
Norðvesturkj. 7
Norðausturkj. 9
Suðurkj. 8
Kannski er hér ekki um draumakosningakerfi allra barna að ræða, en kosturinn við það er sá því tekst að jafna atkvæðavægi næstum því fullkomlega og það mætti koma því á strax í næstu kosningum, því stjórnarskrárbreytingar er ekki krafist til að koma á umræddri breytingu.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021