Eftir hrun Sovétríkjanna hefur lýðræðisþróunin verið ör í fyrrum ríkjum þess og vilji hjá stjórnvöldum flestra til samstarfs við Evrópu og Bandaríkin. Þótt löndin séu mislangt á veg komin í lýðræðisþróun er óhætt að segja að ekkert þeirra sé jafn illa statt og Hvíta-Rússland en landsmenn búa þar í dag við ógnarstjórn sem arfleifð frá Sovétríkjunum.
Hvíta-Rússland lýsti yfir sjálfstæði 1991 og næstu þrjú árin var Stanislau Shushkevich, umbótasinnaður leiðtogi, við völd. Árið 1994 var þingmaðurinn Aleksander Lukashenko kjörinn forseti Hvíta-Rússlands og hefur því verið við völd í 11 ár. Lukashenko hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir mannréttindabrot sem líðast í landinu og er samkvæmt vestrænum gildum almennt álitinn einræðisherra. Óháðum aðilum, sem hafa fylgst með kosningum sem hafa farið fram í landinu seinustu ár, ber saman um að mikil spilling einkenni þær og úrslit séu alls ekki í samræmi við óháðar útgönguspár.
Einræðistilburðir Lukashenko hafa ágerst á valdatímanum og í fyrra herti stjórn hans virkilega á stefnu stjórnvalda gagnvart pólitískum andstæðingum sínum. Hugsast getur að það tengist því að á árinu voru þingkosningar og samhliða þjóðaratkvæðagreiðsla sem snerist um að fella úr gildi stjórnarskrárákvæði um að forseti geti aðeins setið tvö kjörtímabil til að Lukashenko gæti farið fram í þriðja skiptið. Fjölmargir, þ.m.t. þingmenn stjórnarandstöðu, hafa verið fangelsaðir vegna andstöðu sinnar við stjórnvöld. Frjálsum og óháðum fjölmiðlum er lokað vegna tilbúinna sakargifta. Stjórnvöld ráða yfir öllum sjónvarpsstöðvum og flestum útvarpsstöðvum og þær einkareknu útvarpsstöðvar sem ekki hefur verið lokað mega aðeins útvarpa ópólítískri tónlist og auglýsingum. Einkarekin dagblöð eru undir stöðugu eftirliti og pressu stjórnvalda. Í aðdraganda seinustu kosninga var sumum lokað í nokkra mánuði vegna saka á borð við að hafa ekki látið vita um breytingar á útgáfudögum, birtingar á greinum sem stríða gegn almennu siðgæði og að hafa ekki farið eftir reglum um skráningar. Blaðamenn sem gagnrýndu stjórnvöld voru ákærðir fyrir ærumeiðingar. Hið sama gengur yfir hreyfingar og samtök sem eru stjórnvöldum ekki að skapi. Ótal dæmi eru um samtök sem hafa fengið aðvaranir, sektir eða verið lokað vegna tilbúinna sakargifta, oftar en ekki í kjölfar gagnrýni á Lukashenko og stjórn hans.
Alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar, Evrópuráðið, Evrópusambandið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hafa lýst yfir áhyggjum með ástandið í Hvíta-Rússlandi. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur sent frá sér ályktun þess efnis varðandi spillingu í kosningum, mannshvörf og ítrekaðar aðgerðir stjórnvalda gegn ýmis konar samtökum. Sérstaklega var vakin athygli á lögum sem gefa stjórninni vald til að neita samtökum um skráningu, og leggja niður án dóms og laga. Evrópusambandið hefur útilokað Hvíta-Rússland frá sambandinu síðan 1997 vegna ólýðræðilegra vinnubragða við kosningarnar 1996 og hefur lýst stjórnarskrá Hvíta-Rússlands ólöglega þar sem hún virði ekki lágmarks lýðræðisviðmið og stríði þar af leiðandi gegn eðlilegri valddreifingu. Sömuleiðis útilokar Evrópuráðið Hvíta-Rússland, eina landið í Evrópu, frá ráðinu vegna brota á mannréttindum.
Lukashenko hefur ítrekað sakað Bandaríkin um að vilja koma höggi á sig. Condolezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna flutti ræðu í vor þar sem hún kallaði Hvíta-Rússland “síðasta einræðisríkið í miðri Evrópu” og sagði kominn tíma á breytingar. Rice hitti hvít-rússneska andófsmenn og bauð þeim stuðning í baráttunni fyrir lýðræði í heimalandi þeirra. Forsetakosningar fara fram í Hvíta-Rússlandi á næsta ári og réð Rice stjórn Lukashenko frá því að reyna að hafa áhrif á niðurstöðuna, grannt yrði fylgst með kosningunum. Stjórnvöld þar í landi brugðust ókvæða við og sökuðu Rice um að hvetja til að lýðræðiskjörinni stjórn yrði komið frá. Fjölmiðlar í Hvíta-Rússlandi réðust einnig á Rice og sögðu Bandaríkin sjá Hvíta-Rússland sem hindrun í veginum fyrir að ná áhrifum á öllu því svæði sem áður tilheyrði Sovétríkjunum.
Hvíta-Rússland og Rússland eiga náið samstarf gegnum Rússland – Hvíta-Rússland Sambandið (e. Russia-Belarus Union) sem var stofnað 1996. Samstarf ríkjanna hefur aukist mjög á þessum vettvangi á undanförnum árum og núna í nóvember var uppkast að stjórnarskrársáttmála sent til beggja aðila til samþykktar og allt útlit fyrir nánara samstarf. Þetta samstarf gæti haft áhrif á hvernig forsetakosningarnar munu æxlast í Hvíta-Rússlandi á næsta ári og því alls ekki útséð með að Lukashenko haldi velli þrátt fyrir ófyrirleitnar aðferðir til að tryggja stöðu sína.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021